Umferðarmál

Um upptöku ökutækja

I.

Með lögum nr. 69/2007, sem tóku gildi 27. apríl 2007., var gerð umtalsverð breyting á umferðarlögum nr. 50/1987 og þar sett ný ákvæði um upptöku ökutækja vegna alvarlegra og ítrekaðra umferðarlagabrota.

Nýmælin um upptöku ökutækja vegna umferðarlagabrota eru tvíþætt.

Annars vegar skal gera ökutæki ökumanns, sem brýtur gegn umferðarlögum, upptækt að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Hins vegar er heimilt að gera ökutæki ökumanns, sem brýtur gegn umferðarlögum, upptækt að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Ákærandi setur fram kröfu í ákæruskjali á hendur ökumanni vegna umferðarlagabrots/a um upptöku á ökutæki hans. Dómari tekur síðan afstöðu til þess í dómi sínum hvort skilyrði til að gera ökutæki ökumanns upptækt séu uppfyllt.

II.

Dómari skal gera ökutæki ökumanns upptækt að kröfu ákæranda:

 1. Þegar ökumaður sætir refsingu og ökuréttarsviptingu fyrir ölvunarakstursbrot í þriðja sinn, hafi vínandamagn í blóði ökumanns verið 1,20 eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér nemur 0,60 milligrömmum eða meira í öllum þremur tilvikunum og þriðja brotið var framið áður en þrjú ár voru liðin frá því ökumaðurinn hlaut refsingu og ökuréttarsviptingu fyrir fyrsta brotið.

 1. Þegar ökumaður sætir refsingu og ökuréttarsviptingu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í þriðja sinn og þriðja brotið var framið áður en þrjú ár voru liðin frá því ökumaðurinn hlaut refsingu og ökuréttarsviptingu fyrir fyrsta brotið.

 1. Hafi ökumaður síðustu þrjú árin fyrir brotið, sem sætir afgreiðslu, hvort sem það brot er akstur undir áhrifum fíkniefna eða akstur undir áhrifum áfengis, tvisvar sinnum áður sætt refsingu og sviptingu ökuréttar fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áhrifum áfengis enda hafi vínandamagn í blóði ökumanns verið 1,20? eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér numið 0,60 milligrömmum eða meira í ölvunaraskturstilvikunum.

Gera skal ökutæki ökumanns upptækt enda þótt það hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.

III.

Dómara er heimilt að gera ökutæki ökumanns upptækt að kröfu ákæranda:

Þegar um er að ræða

 1. stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur, sem ekki fellur undir skylduupptöku,

 2. stórfelldan eða ítrekaðan akstur:

a. manns sem sviptur hefur verið ökurétti eða

b. manns sem ekki hefur öðlast ökurétt,

 1. stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða

 2. akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti

Gera ökutæki ökumanns upptækt í þessum tilvikum enda þótt ökutækið hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.

Með bréfi, dagsettu 9. maí sl., sendi ríkissaksóknari lögreglustjórum leiðbeiningar um hvenær rétt sé af hálfu ákæranda að setja fram kröfu um upptöku ökutækis á grundvelli þessa nýja ákvæðis í umferðarlögum sem kveður á um heimild til að gera ökutæki ökumanns upptækt, annars vegar vegna stórfellds og sérlega vítaverðs aksturs og hins vegar vegna ítrekaðra brota á umferðarlögum. Leiðbeiningarnar eru efnislega svohljóðandi:

A. Stórfelldur og sérlega vítaverður akstur.

Horfa skal til afleiðinga akstursins.

 1. Leiði ölvunarakstur eða hraðakstur, þegar ekið er á tvöfalt meiri hraða en heimilt er eða á yfir 140 km hraða, til dauða eða verulegs líkamstjóns vegfaranda eða farþega ber að huga að kröfu um upptöku ökutækis ökumanns.

 1. Sama máli gegnir um akstur manns sem sviptur hefur verið ökurétti eða hefur aldrei öðlast ökurétt. Hafi akstur hans í för með sér dauða eða verulegt líkamstjón vegfaranda eða farþega ber að huga að kröfu um upptöku ökutækis hans.

 1. Hafi ökumaður raskað umferðaröryggi á alfaraleiðum með akstri sínum eða stofnað lífi eða heilsu farþega eða annarra vegfarenda í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt ber að huga að kröfu um upptöku ökutækis hans. Í þeim tilvikum getur verið um að ræða, annað hvort eða hvort tveggja, hraðakstur og akstur sem er sérlega vítaverður að öðru leyti.

B. Ítrekaður ölvunarakstur, hraðakstur, akstur sviptur ökurétti eða akstur án þess að hafa öðlast ökurétt.

Rétt er að hafa skilyrði um skylduupptöku til hliðsjónar í þessum tilvikum.

 1. Ölvunarakstur og/eða akstur undir áhrifum fíkniefna.

Huga ber að kröfu um upptöku ökutækis ökumanns hafi hann tvisvar sinnum síðustu þrjú ár fyrir brotið annað hvort sætt refsingu og verið sviptur ökurétti fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða akstur undir áhrifum fíkniefna þótt vínandamagn í blóði hans hafi í eitt skipti verið undir 1,20? eða vínandamagn í útöndunarlofti undir 0,60 milligrömmum.

 1. Ölvunarakstur og/eða akstur undir áhrifum fíkniefna.

Huga ber að kröfu um upptöku ökutækis ökumanns hafi hann oftar en tvisvar sinnum síðustu fimm ár fyrir brotið sætt refsingu og verið sviptur ökurétti fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða akstur undir áhrifum fíkniefna.

 1. Ölvunarakstur og/eða akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða akstur sviptur ökurétti.

Huga ber að kröfu um upptöku ökutækis ökumanns hafi hann þrisvar sinnum síðustu fimm ár fyrir brotið sætt viðurlögum ýmist fyrir akstur undir áhrifum áfengis, akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur sviptur ökurétti.

 1. Hraðakstur þegar ekið er á tvöfalt meiri hraða en heimilt er eða á yfir 140 km hraða.

Huga ber að kröfu um upptöku ökutækis ökumanns hafi hann fjórum sinnum síðustu fimm ár fyrir brotið sætt refsingu og sviptingu ökuréttar fyrir hraðakstur.

 1. Akstur sviptur ökurétti og/eða akstur án þess að hafa öðlast ökurétt.

Huga ber að kröfu um upptöku ökutækis ökumanns hafi hann fjórum sinnum síðustu fimm ár fyrir brotið sætt refsingu fyrir akstur sviptur ökurétti eða akstur án þess að hafa öðlast ökurétt.

 
 

smallheaderimage

Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica