Skipulag

Um ákæruvaldið

Skipan ákæruvalds

Fram eftir síðustu öld fóru dómarar með ákæruvaldið en dómsmálaráðherra var æðsti handhafi þess. Snemma komu fram tillögur um að fá ákæruvaldið í hendur sérstökum saksóknara eins og gert hafði verið á öðrum Norðurlöndum og víða annars staðar. Þær tillögur náðu ekki fram að ganga fyrr en 1961 er Alþingi samþykkti lög nr. 57/1961, sem komu til framkvæmda 1. júlí sama ár. Samkvæmt þeim var skipaður sérstakur saksóknari, saksóknari ríkisins, til að fara með ákæruvaldið í landinu. Með lögum nr. 61/1974 var embættisheitinu saksóknari ríkisins breytt í ríkissaksóknari. Saksóknari ríkisins, síðar ríkissaksóknari, fór einn með ákæruvaldið í þröngri merkingu þess orðs, þ.e. hann hafði einn heimild til að höfða opinber mál fyrir dómstólum.

Með lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sem tóku gildi 1. júlí 1992, varð örlítil breyting á skipan ákæruvaldsins er lögreglustjórar fengu heimild til að höfða opinber mál vegna minni háttar brota, einkum brota á umferðarlögum. Veigameiri breyting á skipan ákæruvaldsins var gerð með breytingu á nefndum lögum, sem tók gildi 1. júlí 1997, er lögreglustjórum var falin heimild til að höfða mál vegna algengustu brota samkvæmt almennum hegningarlögum, þ.e. flestra auðgunarbrota og líkamsárása, nema hinna stórfelldu, og vegna allra sérrefsilagabrota.

Hinn 1. janúar 2009 tóku gildi ný lög um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með þeim var gerð breyting á ákæruvaldinu. Gildistöku ákvæða um embætti héraðssaksóknara var hins vegar frestað ítrekað þar til lög nr. 47/2015 um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum nr. 47/2015 tóku gildi 1. janúar 2016.

Frá 1. janúar 2016 fara ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar, að undanskildum ríkislögreglustjóranum, með ákæruvaldið í landinu.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og sæta héraðssaksóknari og lögreglustjórar, 9 talsins, eftirliti og leiðsögn af hálfu ríkissaksóknara í störfum sem ákærendur og handhafar ákæruvalds.  


Ríkissaksóknara til aðstoðar eru vararíkissaksóknari, saksóknarar og aðstoðarsaksóknarar.


Varahéraðssaksóknari, aðstoðarlögreglustjórar, aðstoðarsaksóknarar og saksóknarfulltrúar eru héraðssaksóknara og lögreglustjórum til aðstoðar við framkvæmd ákæruvalds.


Innanríkisráðherra hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds í landinu og getur krafið ríkissaksóknara skýrslna um einstök mál.  Innanríkisráðherra getur hins vegar ekki gefið ríkissaksóknara fyrirmæli um meðferð einstakra mála.  Óski innanríkisráðherra eftir upplýsingum eða skýrslu um einstakt mál sem er til meðferðar hjá ákæruvaldinu beinir ráðherran slíkri ósk til ríkissaksóknara.  


Hlutverk ákærenda

Hlutverk ákærenda er að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum. Þeir taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum.

 Af ýmsum ákvæðum laga um meðferð sakamála má ráða hver eru megin viðfangsefni  ákærenda og skal þeirra getið hér:

  • Ákærendur taka ákvörðun um hvort sakamálarannsókn sem lögreglan framkvæmir skuli fara fram eða ekki.  Ber þeim að hafa í huga að ekki á að hefjast handa um rannsókn nema rökstuddur grunur sé kominn fram um að refsiverð háttsemi, sem á undir ákæruvaldið, hafi verið framin.  Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómstólum.

  • Ákærendum ber að leiðbeina lögreglumönnum um framkvæmd rannsókna og gefa fyrirmæli um framkvæmd hennar eftir því sem þörf kann að vera á.  Ber þeim að tryggja að fylgt sé fyrirmælum laga um rannsóknir mála og að gætt sé grundvallar mannréttinda við rannsóknir.  Hafa skulu þeir í heiðri þá reglu að ekki má færa fram til styrktar sönnun í máli sakargögn sem aflað hefur verið með ólöglegum eða óheiðarlegum hætti.

  • Samkvæmt íslenskum réttarfarslögum á brotaþoli að njóta aðstoðar í ýmsum greinum á meðan mál sem hann varðar er rekið og hann á jafnframt rétt á að fá upplýsingar um rekstur málsins og framgang.  Ákærendur eiga að sjá til þess að brotaþoli njóti viðeigandi aðstoðar og fái þær upplýsingar sem honum ber.

  • Ákærendur ákveða hvað gera skuli í máli að lokinni rannsókn þess og eru þeir kostir helstir sem hér skal greina:

-  Höfða skal mál fyrir dómstóli til refsingar ef það sem fram er komið við rannsókn er talið vera nægjanlegt eða líklegt til sakfellis en láta ella við svo búið standa.  Er þetta meginregla sem fylgja skal.

-  Lögreglustjórar (ákærendur) mega ljúka tilteknum málum án þess að leggja þau fyrir dómstól með ákæru.  Er málum þá lokið með lögreglustjórasátt og getur sáttin verið fólgin í því að sakborningur greiði tiltekna sekt og sæti sviptingu ökuréttar og/eða þoli upptöku eigna að ákveðnu marki.  Eru það einkum mál vegna umferðarlagabrota og fíkniefnalagabrota sem lokið er með lögreglustjórasáttum.  Mál sem lokið er með lögreglustjórasátt eru ekki lögð fyrir dómstóla með ákæru.

-  Ákærandi getur fellt mál niður, þ.e.a.s. ákveðið að ekki komi til frekari aðgerða af hálfu ákæruvalds í máli.  Áður en ákærandi tekur slíka ákvörðun ber honum að kanna gögn máls vandlega og leggja hlutlægt mat á stöðuna með þá reglu að leiðarljósi að sækja skal þá til sakar sem ákærandi telur að hafi gerst sekir um brot gegn refsilögum en aðra ekki.

-  Ákærandi getur ákveðið að falla frá saksókn í máli þótt hann telji framkomin gögn nægja til þess að sakborningur verði sakfelldur í máli ef höfðað yrði á hendur honum.  Til þessa hefur ákærandi takmarkaða heimild og ber honum að beita henni af varfærni.

-  Þegar sakborningur hefur játað brot sitt hefur ákærandi heimild til að fresta um tiltekinn tíma ákæru til refsingar út af því ef tiltekin skilyrði eru uppfyllt.  Gildir þessi heimild fyrst og fremst um brot barna og ungmenna á aldrinum 15 til 21 árs.

  •  Þá annast ákærendur sókn þeirra mála sem þeir hafa höfðað fyrir dómstólum til refsingar. 

Siðareglur

Að tilhlutan Evrópuráðsins hefur Ráðstefna evrópskra ríkissaksóknara sett leiðbeinandi siðareglur fyrir ákærendur. 


smallheaderimage

Útlit síðu:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica