Um embættið

Tilkynning frá ríkissaksóknara

Málshraði til fyrirmyndar.

7/14/09


Samkvæmt reglum ríkissaksóknara um hámarkstíma meðferðar nauðgunarmála skal rannsókn lögreglu að jafnaði ljúka innan 60 daga. Þá skal taka ákvörðun um saksókn hjá embætti ríkissaksóknara innan 15 daga frá því mál berst þangað frá lögreglu. Þannig er stefnt að því að innan við 70 dagar líði þar til málið kemst til viðkomandi héraðsdóms.
Í fjölmiðlum nýlega mátti lesa um dóm sem gekk í alvarlegu nauðgunarmáli en brotið var framið 21. maí sl. Málið barst ríkissaksóknara fullrannsakað frá lögreglu 18. júní og gaf ríkissaksóknari út ákæru 19. júní. Málið var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur 23. júní og fór aðalmeðferð fram 30. júní. Dómur í málinu gekk 10. júlí þar sem sakborningur hlaut 4 og hálfs árs fangelsi. Þessi málsmeðferðartími, rúmar 7 vikur í heild, er til mikillar fyrirmyndar og ljóst að allir aðilar hafa lagst á eitt til að svo vel tækist til sem hér.
Samkvæmt nýjum lögum um meðferð sakamála skal sakborningur ekki sæta gæsluvarðhaldi lengur en í þrjá mánuði áður en mál hafi verið höfðað gegn honum nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Þessi tímamörk setja mikinn þrýsting á ákæruvaldið en óvenjumikill fjöldi mála hefur borist embætti ríkissaksóknara undanfarið þar sem sakborningar sæta gæsluvarðhaldi. Sem dæmi má nefna mál vegna innflutnings á miklu magni fíkniefna með skútu, mál vegna meintrar amfetamínverksmiðju, mál vegna húsbruna á Kleppsvegi, ránsmál á Seltjarnanesi, nauðgunarmál á Hótel Borg, mál vegna háskaakstur við slökkvistöðina og víðar o.fl.
Álag á embætti ríkissaksóknara hefur aukist jafnt og þétt. Sem dæmi má nefna að árið 2005 var fjöldi ákærumála hjá embættinu 243 en voru 486 árið 2008. Á sama tímabili fjölgaði kærumálum frá lögreglu úr 85 í 173 og málum sem embættið rekur fyrir Hæstarétti úr 92 í 116. Sömu sögu er að segja af öðrum málaflokkum sem embættið fæst við. Fjöldi starfsmanna við embættið er 14 í 13 ½ stöðugildum hefur verið nánast óbreyttur sl. 10 ár.

Til baka Senda grein