Um embættið

Ríkissaksóknari áfrýjar vægum héraðsdómum vegna vörslu og ræktunar á kannabisplöntum.

9/21/10

Ríkissaksóknari áfrýjaði nýlega tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur til refsiþyngingar. Í báðum málunum var um að ræða vörslur og ræktun á um 200 – 300 kannabisplöntum.


Með dómum Hæstaréttar, sem kveðnir voru upp í gær, var fallist á sjónarmið ákæruvaldsins og refsing þyngd í 8 og 12 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu úr þriggja mánaða skilorðsbundinni fangelsisrefsingu. Til þyngingar var á því byggt að líta ætti til þess að mikið magn ávana- og fíkniefna kæmi úr ræktuninni og þeirrar hættu sem það hefði getað leitt til. Einnig ætti að líta til einbeitts brotavilja sakborninga. Þá hafi í öðru málinu verið upplýst að afurðir ræktunarinnar voru ætlaðar til sölu og dreifingar.


Málum sem varða ræktun kannabisplantna til framleiðslu á kannabisefnum hefur fjölgað mikið hér á landi á síðustu árum auk þess sem málin verða sífellt umfangsmeiri. Þá hafa hinir brotlegu oft vandað mjög til verka við ræktunina, komið sér upp fullkomnum ræktunarbúnaði og aðstöðu. Þá hafa brot átt sér stað um nokkurt skeið áður en lögregla hefur upplýst um brotastarfsemi. Talið er hugsanlegt að framleiðsla kannabisefna fari nú í auknum mæli fram hér á landi og af þeim ástæðum kunni að hafa dregið úr innflutningi slíkra efna til landsins.


Ríkissaksóknari vildi með áfrýjun málanna leitast við að samræma viðurlög vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni en viðurlög í málum vegna kannabisræktunar hafa fram að þessu almennt verið væg borin saman við viðurlög í málum sem varða innflutning á kannabisefnum og öðrum ávana- og fíkniefnum. Er ánægjulegt að undir þessi sjónarmið hafi verið tekið með dómum Hæstaréttar.


Reykjavík 17. september 2010.


Til baka Senda grein