Um embættið

Kæra vegna meðferðar á persónuupplýsingum

1/13/14

Í tilefni af umfjöllun fjölmiðla undanfarna daga um kæru vegna meðferðar á persónuupplýsingum um hælisleitanda vill ríkissaksóknari koma eftirfarandi á framfæri:

 

Ríkissaksóknari, sem æðsti handhafi ákæruvalds, hefur óskað eftir upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu í tilefni af kæru lögmanns Evelyn Glory Joseph, sem send var ríkissaksóknara vegna „…leka á persónulegum upplýsingum um hana sem birtust í fjölmiðlum í nóvember og virðist m.v. fréttaflutning mega rekja til innanríkisráðuneytisins.“, eins og segir í kærubréfi.

 

Meðal fylgiskjala með kærunni var bréf innanríkisráðuneytisins til lögmannsins þar sem fram kemur að ekkert bendi til að gögn sem innihaldi upplýsingar um skjólstæðing lögmannsins hafi verið afhent óviðkomandi frá embættismönnum eða öðrum starfsmönnum innanríkisráðuneytisins.

 

Á þessu stigi málsins taldi ríkissaksóknari rétt að fá um það upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu hvað liggi að baki því sem fram kemur í bréfi ráðuneytisins, hvort ráðuneytið hafi, við sína könnun, ritað minnisblöð eða hvort önnur gögn eru fyrirliggjandi sem upplýst gætu um þá könnun. Ef slík gögn eru fyrirliggjandi var þess óskað að þau yrðu send ríkissaksóknara.

 

Þegar svör innanríkisráðuneytisins hafa borist mun ríkissaksókn meta hvort efni eru til að vísa málinu til rannsóknar hjá lögreglu.

 

Reykjavík, 13. janúar 2013

Sigríður J. Friðjónsdóttir

ríkissaksóknari

Til baka Senda grein