Um embættið

Meðferð rannsóknargagna hjá embætti sérstaks saksóknara

9/15/14

Ríkissaksóknari hefur farið yfir gögn sem aflað var við rannsókn ríkissaksóknara sem fram fór á árinu 2012 á grundvelli 35. gr. lögreglulaga vegna ætlaðra brota tveggja fyrrverandi starfsmanna embættis sérstaks saksóknara sem höfðu réttarstöðu sakbornings vegna meintra brota gegn ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga. Meðal þeirra gagna er greinargerð umræddra sakborninga, dags. 24. ágúst 2012. Ríkissaksóknari staðfestir að í þeirri greinargerð koma fram ábendingar um misfellur við meðferð rannsóknargagna af hálfu starfsmanna við embætti sérstaks saksóknara. Þær ábendingar samrýmast ekki að öllu leyti því sem fram kemur í viðtali við annan af sakborningunum, Jón Óttar Ólafsson, í Fréttablaðinu 13. september sl. og aðrir fjölmiðlar hafa fjallað um á síðustu dögum. Við rannsókn og meðferð málsins hjá ríkissaksóknara á árinu 2012 og í ársbyrjun 2013 var farið yfir umræddar ábendingar, meðal annars við skýrslutökur af öðrum starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara. Niðurstaða ríkissaksóknara á þeim tíma var að ekki væri grundvöllur fyrir sérstakri rannsókn eða athugun vegna ábendinganna.

Núverandi ríkissaksóknari, sem skipaður var í starfið 4. apríl 2011, hefur leitast við að koma á eftirliti með hlustunum lögreglustjóra og embættis sérstaks saksóknara og meðal annars krafið embættin um gögn og upplýsingar því tengdu. Þau svör sem borist hafa frá embætti sérstaks saksóknara hafa ekki gefið tilefni til að ætla að þar sé ekki farið eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála.

Ríkissaksóknari áréttar að hann telur afar mikilvægt að lögregla og embætti sérstaks saksóknara gæti ítrustu varúðar og vandvirkni við beitingu þvingunarúrræða á borð við símahlustanir og að farið sé að öllum reglum sem um slík úrræði gilda, þar með talið varðveislu og eyðingu gagna þegar það á við.

Til baka Senda grein