Áfrýjun

Um áfrýjun héraðsdóma til Landsréttar gildir XXXI. kafli laga um meðferð sakamála nr. 88/2008

Áfrýjunarréttur og réttur til endurupptöku máls

Ákærði, sem hefur verið sakfelldur í héraði, getur áfrýjað héraðsdómi til Landsréttar með eftirgreindum takmörkunum og skilyrðum:

Lögráðamaður kemur í stað ákærða um ákvarðanir um áfrýjun ef ákærði er ósjálfráða.

Hafi ákærði ekki sótt þing í héraði og mál verið dæmt að honum fjarstöddum (útivistardómur skv. 161. gr. laga um meðferð sakamála,) þá getur hann innan fjögurra vikna frá því að dómur var birtur fyrir honum, eða dómur var kveðinn upp ef birtingar var ekki þörf, krafist þess að málið verði tekið upp á ný fyrir héraðsdómi, enda berist beiðni hans um endurupptöku innan þess frests. Sé fresturinn liðinn verður mál ekki tekið upp á ný nema með ákvörðun endurupptökunefndar samkvæmt lögum um dómstóla, sbr. XXXIV. kafla.

Leyfi Landsréttar þarf til að áfrýja héraðsdómi ef ákærði var ekki dæmdur í fangelsi og sekt eða eignaupptaka var ekki hærri en áfrýjunarfjárhæð í einkamálum (krónur 1.355.762 í janúar 2024). Beiðni um leyfi til áfrýjunar verður að vera skrifleg, ítarlega rökstudd og þarf að berast innan áfrýjunarfrests. Beiðni um áfrýjunarleyfi skal beint til ríkissaksóknara ásamt áfrýjunaryfirlýsingu. Afhending beiðni um leyfi til áfrýjunar rýfur áfrýjunarfrest. Áfrýjunarleyfi verður ekki veitt nema sérstakar ástæður mæli með því.

Áfrýjunarfrestur

Ákærði skal lýsa yfir áfrýjun héraðsdóms í bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara innan fjögurra vikna (28 daga) frá birtingu hans hafi birtingar verið þörf, en ella innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms.

Berist ríkissaksóknara ekki tilkynning ákærða um áfrýjun innan áfrýjunarfrests skal litið svo á að ákærði vilji hlíta héraðsdómi. Ekki er unnt að áfrýja héraðsdómi eftir að áfrýjunarfrestur er liðinn nema að fengnu leyfi Landsréttar.

Áfrýjunaryfirlýsing

Í tilkynningu um áfrýjun eða áfrýjunaryfirlýsingu skal tekið nákvæmlega fram í hverju skyni sé áfrýjað, þar á meðal varðandi skaðabótakröfur ef því er að skipta. Einnig skal koma fram hvern ákærði vill fá skipaðan verjanda fyrir Landsrétti eða hvort hann óskar eftir að fá að flytja mál sitt sjálfur.

Áfrýja má í því skyni að fá:

a. endurskoðun á ákvörðun viðurlaga,

b. endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á skýringu eða beitingu réttarreglna,

c. endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á mati á sönnunargildi gagna eða munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi,

d. ómerkingu á héraðsdómi og heimvísun máls,

e. frávísun máls frá héraðsdómi.

Ríkissaksóknara er skylt að veita ákærða leiðbeiningar um gerð tilkynningar ef eftir því er leitað.

Ákærða er bent á að leita ráða hjá verjanda sínum eða hjá öðrum lögmanni um tilhögun tilkynningar um áfrýjun.

Áfrýjunarstefna og ágrip

Ríkissaksóknari gefur út áfrýjunarstefnu. Ef ákærði hefur áfrýjað dómi héraðsdóms er áfrýjunarstefna ekki birt honum. Áfrýjunarstefna er birt kröfuhafa (brotaþola) ef bætur hafa verið dæmdar í héraði.

Eftir áfrýjun fær ríkissaksóknari dómsgerðir sendar frá héraðsdómstólnum og útbýr hann málsgögn (ágrip), en um gerð þeirra gilda reglur Landsréttar frá 2. janúar 2018 . Eru Landsrétti afhent málsgögn í þeim fjölda eintaka sem hann telur þörf á. Þegar málsgögn hafa borist Landsrétti ákveður rétturinn ákæruvaldi og verjanda frest til að skila greinargerðum og frekari gögnum. Ef tilefni er til tekur Landsréttur mál fyrir á dómþingi til að ráða til lykta atriðum varðandi rekstur þess, þ.m.t. gagnaöflun og framlagningu gagna, hvaða skýrslutökur verði heimilaðar fyrir Landsrétti og hvaða upptökur verði spilaðar við aðalmeðferð. Að þessu loknu er ákveðinn málflutningur fyrir Landsrétti sem að jafnaði fer fram munnlega.

Um áfrýjun landsréttardóma til Hæstaréttar gildir XXXIII. kafli laga um meðferð sakamála nr. 88/2008

Áfrýjunarleyfi og frestur til að setja fram beiðni

Ávallt þarf að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja landsréttardómi til Hæstaréttar. Umsókn um áfrýjunarleyfi verður að berast ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf skv. 3. mgr. 185. gr., en ella innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu.

Umsókn um áfrýjun og áfrýjunaryfirlýsing

Umsókn um áfrýjun skal fylgja skrifleg tilkynning um áfrýjun þar sem tekið er nákvæmlega fram í hvaða skyni áfrýjað sé og hverjar dómkröfur ákærða séu, þar á meðal varðandi bótakröfur, svo og hvern hann vill fá skipaðan sem verjanda fyrir Hæstarétti eða hvort hann óskar eftir að flytja mál sitt sjálfur.

Hægt er að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja landsréttardómi til Hæstaréttar til þess að fá:

a. endurskoðun á ákvörðun viðurlaga,

b. endurskoðun á niðurstöðum sem byggðar eru á skýringu eða beitingu réttarreglna,

c. endurskoðun á niðurstöðum sem byggðar eru á mati á sönnunargildi annarra gagna en munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi eða Landsrétti,

d. ómerkingu á héraðsdómi og landsréttardómi og heimvísun máls,

e. frávísun máls frá héraðsdómi og Landsrétti.

Hæstiréttur ákveður hvort orðið verði við ósk um áfrýjunarleyfi. Slíkt leyfi skal aðeins veita ef áfrýjun lýtur að atriði sem hefur verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum er mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um. Þá getur Hæstiréttur veitt slíkt leyfi ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni. Hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skal þó verða við ósk ákærða, eða ákæruvaldsins honum til hagsbóta, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.

Ekki er heimilt að veita leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati Landsréttar á sönnunargildi munnlegs framburðar.

Áfrýjunarstefna og ágrip

Ríkissaksóknari gefur út áfrýjunarstefnu. Ef ákærði hefur áfrýjað dómi er áfrýjunarstefna ekki birt honum. Áfrýjunarstefna er birt kröfuhafa (brotaþola) ef bætur hafa verið dæmdar á fyrra dómstigi.

Eftir áfrýjun fær ríkissaksóknari dómsgerðir sendar frá Landsrétti og útbýr hann málsgögn (ágrip), en um gerð þeirra gilda reglur Hæstaréttar. Eru Hæstarétti afhent eintök af málsgögnum. Þegar málsgögn hafa borist Hæstarétti ákveður rétturinn ákæruvaldi og verjanda frest til að skila greinargerðum og frekari gögnum. Eftir afhendingu greinargerða og gagna er málinu frestað til munnlegs málflutnings.