Brotaþolar

Upplýsingar fyrir brotaþola

INNGANGUR

Hér er að finna hagnýtar upplýsingar um feril sakamála í réttarkerfinu fyrir þolendur afbrota, allt frá því að tilkynnt er um brot til lögreglu og þar til máli lýkur endanlega. Hér má til dæmis nálgast upplýsingar um hvernig skýrslutökur fara fram hjá lögreglu og fyrir dómi. Hér eru einnig upplýsingar um hvers er að vænta á meðan mál er til rannsóknar hjá lögreglu og til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum. Í ákveðnum málum á brotaþoli rétt á réttargæslumanni, sem gætir hagsmuna hans og er hér að finna upplýsingar um það í hvaða tilvikum það er sem og um hlutverk réttargæslumanna. Þá er hér fjallað um rétt brotaþola til að krefjast miskabóta þar sem það á við.

BROT TILKYNNT TIL LÖGREGLU

Sá sem telur sig hafa orðið fyrir refsiverðu broti eða telur sig hafa orðið vitni að eða hafa upplýsingar um refsiverða háttsemi getur leitað til lögreglu hvar sem er á landinu. Hægt er að koma tilkynningum um refsiverða háttsemi til lögreglu með margvíslegum hætti. Oftast er haft samband við lögreglu með því að hringja í 112, einkum ef brot er nýafstaðið eða yfirstandandi. Ef farið er á Neyðarmóttöku þá er einnig hægt að óska eftir því að lögregla verði kölluð til eða henni tilkynnt um brotið. Einnig er hægt að hringja á lögreglustöð, senda tölvupóst eða mæta þangað til að leggja fram kæru. Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að panta tíma í kærumóttöku með því að senda tölvupóst á netfangið:kaerumottaka@lrh.is.

Það er mikilvægt að kæra ætluð brot til lögreglu við fyrsta tækifæri því oft reynist erfiðara að rannsaka brot ef langur tími líður frá broti og þar til það er kært.

HVER GETUR KÆRT BROT TIL LÖGREGLU?

Yfirleitt leggur brotaþoli sjálfur fram kæru en þegar um börn er að ræða gera forráðamenn það eða t.d. opinberir aðilar, svo sem barnavernd. Þá geta stjórnvöld lagt fram kæru og jafnvel vitni.

RANNSÓKN SAKAMÁLA

Rannsókn sakamála er í höndum lögreglu. Lögreglu ber skylda til að hefja rannsókn út af vitneskju eða vegna gruns um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem kæra hefur borist eða ekki. Markmið rannsóknar lögreglu er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákærandi geti eftir að rannsókn lögreglu er lokið ákveðið hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki.

SKÝRSLUTAKA AF BROTAÞOLA

Við skýrslutöku hjá lögreglu er markmiðið að brotaþoli fái tækifæri til að greina frá atvikum og að fram komi allar þær upplýsingar sem lögregla telur nauðsynlegar í þágu rannsóknar málsins. Skýrslutakan fer yfirleitt fram á lögreglustöð en stundum fer skýrslutaka fram annars staðar svo sem á vettvangi brots. Skýrslutakan er hljóðrituð eða tekin upp bæði í hljóði og mynd. Lögregla skrifar skýrslu um það sem brotaþolinn hafði um málið að segja, ýmist þannig að lögregla gerir samantekt um framburð brotaþola eða að framburður brotaþola er skrifaður upp frá orði til orðs. Það er misjafnt hvort tekin er ein skýrsla eða fleiri af brotaþola á meðan lögregla rannsakar málið. Nánari upplýsingar um framkvæmd skýrslutöku hjá lögreglu er að finna í reglugerð nr. 651/2009. Í þeim tilvikum sem brot hefur beinst gegn barni sem er yngra en 15 ára er unnt að taka skýrslu í Barnahúsi, en frekari upplýsingar er að finna um það hér að neðan. Skýrsla af brotaþola er meðal þeirra gagna sem liggja fyrir í rannsóknargögnum lögreglu.

SKÝRSLUTAKA AF BARNI

Þegar lögregla rannsakar mál þar sem grunur er um að barn yngra en 15 ára hafi orðið fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi er það dómari sem ákveður hvar skýrslutaka af barninu fer fram. Alla jafna fara slíkar skýrslutökur fram í sérútbúnu herbergi í Barnahúsi og er það sérfræðingur Barnahúss eða lögreglu sem ræðir þar við barnið. Dómari, réttargæslumaður barnsins, fulltrúi ákæruvalds, verjandi sakbornings og fulltrúi barnaverndar fylgjast svo með skýrslutökunni í gegnum sjónvarp og geta beint spurningum til spyrilsins. Markmiðið með þessari tilhögun er að skapa góðar aðstæður fyrir skýrslutöku og koma í veg fyrir að barn þurfi að endurtaka frásögn sína. Komi til þess að málið fari fyrir dóm þarf barnið því almennt ekki að gefa skýrslu aftur fyrir dómi. Skýrslan er tekin upp í hljóði og mynd og er hluti af rannsóknargögnum málsins. Frekari upplýsingar um þjónustu Barnahúss má finna hér, en þar er m.a. aðstaða til að framkvæma læknisfræðilega skoðun á börnum.

SKÝRSLUTAKA AF SAKBORNINGI

Við rannsókn málsins tekur lögregla skýrslu af sakborningi þar sem honum er kynnt hvert sakarefni málsins er, honum boðið að tjá sig um það og hann er spurður um þau atriði sem lögregla telur að hafi þýðingu í málinu. Það er misjafnt hvort tekin er ein skýrsla eða fleiri af sakborningi á meðan lögregla rannsakar málið. Skýrsla af sakborningi er hluti af rannsóknargögnum málsins.

SKÝRSLUTAKA AF VITNUM

Lögregla tekur skýrslur af þeim vitnum sem talið er nauðsynlegt er að ræða við um atvik málsins. Slíkar skýrslutökur fara almennt fram á lögreglustöð eða eru teknar símleiðis. Skýrslur sem teknar eru af vitnum við rannsókn lögreglu eru hluti af rannsóknargögnum málsins.

NEYÐARMÓTTAKA FYRIR ÞOLENDUR KYNFERÐISOFBELDIS

Á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis starfar þverfaglegt teymi sem sinnir brotaþolum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þar er framkvæmd réttarlæknisfræðileg skoðun og sýni tekin og gerð skýrsla um skoðunina sem hægt er að kalla eftir ákveði brotaþoli að leggja fram kæru. Réttarlæknisfræðileg skoðun á Neyðarmóttöku getur haft mikla þýðingu ákveði brotaþoli að leggja fram kæru. Á Neyðarmóttöku býðst þolendum einnig lögfræðileg ráðgjöf lögmanna vegna málsins.

RÉTTARGÆSLUMAÐUR

Réttargæslumaður er lögmaður sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal við að setja fram bótakröfu. Réttargæslumaður er til dæmis viðstaddur þegar brotaþoli gefur skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi þar sem hann er brotaþola til halds og trausts. Réttargæslumaður á einnig að útskýra málsmeðferðina fyrir brotaþola. Réttargæslumaður getur aflað upplýsinga fyrir hönd brotaþola um stöðu og meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi. Réttargæslumaður á rétt á að vera viðstaddur þegar mál brotaþola er tekið fyrir í dómi. Þóknun réttargæslumanns greiðist úr ríkissjóði.

HVENÆR Á BROTAÞOLI RÉTT Á RÉTTARGÆSLUMANNI?

Ef um kynferðisbrot er að ræða á brotaþoli rétt á að fá tilnefndan réttargæslumann við rannsókn málsins, ef hann óskar þess. Sé brotaþoli kynferðisbrots yngri en 18 ára skal honum alltaf tilnefndur réttargæslumaður. Þar að auki getur brotaþoli í málum sem varða önnur ofbeldisbrot og brot gegn frjálsræði manna átt rétt á að fá tilnefndan réttargæslumann, óski hans þess, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sjá nánar 41. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

BÓTAKRÖFUR

Lögregla skal leiðbeina brotaþola um rétt hans til að gera bótakröfu í sakamáli. Ef ákært er í málinu er gerð grein fyrir bótakröfunni í ákæruskjalinu og hún lögð fyrir dóm. Í sumum tilvikum eiga brotaþolar rétt á greiðslu bóta úr ríkissjóði á grundvelli laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995. Nánari upplýsingar um greiðslu bóta skv. lögum nr. 69/1995 má finna á vef bótanefndar

KÆRU VÍSAÐ FRÁ EÐA RANNSÓKN HÆTT

Eftir að lögreglu berst tilkynning eða kæra um brot eða eftir að lögregla hefur rannsókn á máli getur málinu lokið með ýmsum hætti. Lögregla vísar frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni. Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin. Ef kæru er vísað frá eða rannsókn hætt er lögreglu skylt að tilkynna það kæranda það hafi hann hagsmuna að gæta. Skal honum jafnframt bent á að hann geti kært ákvörðunina til ríkissaksóknara.

 MÁL FELLT NIÐUR

Þegar rannsókn lögreglu er lokið fær ákærandi gögn málsins í hendur og gengur úr skugga um að rannsókninni sé lokið. Leggur ákærandinn síðan mat á málið og ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis er málið látið niður falla en ef hann telur það sem er komið fram í málinu nægilegt eða líklegt til sakfellis er gefin út ákæra á hendur sakborningi. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut á að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin. Ef málið er fellt niður skal ákvörðun þar að lútandi tilkynnt brotaþola, sem á rétt á að fá rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Unnt er að kæra ákvörðun um niðurfellingu máls til ríkissaksóknara.

 MÁLSMEÐFERÐ FYRIR DÓMI

Telji ákærandi það sem fram hefur komið við rannsókn máls vera nægilegt eða líklegt til sakfellis er gefin út ákæra á hendur sakborningi og sakamál á hendur honum rekið fyrir dómstólum. Neiti sakborningur sök fer fram aðalmeðferð í málinu fyrir dómi og þarf brotaþoli þá að koma fyrir dóminn til að gefa skýrslu.

VITNASKYLDA

Allir, sem náð hafa 15 ára aldri, eru skyldugir til að koma fyrir dóm sem vitni til að svara spurningum um málsatvik og á það jafnt við um brotaþola og önnur vitni. Vitni getur þó í ákveðnum tilvikum skorast undan því að gefa skýrslu, m.a. ef vitnið er eða hefur verið maki ákærða, er skyldmenni ákærða í beinan legg eða tengist honum þannig vegna ættleiðingar, er stjúpforeldri ákærða eða stjúpbarn, tengdaforeldri ákærða eða tengdabarn. Komi vitni ekki fyrir dóm án þess að um lögmæt forföll sé að ræða getur sækjandi lagt fyrir lögreglu að sækja vitnið eða færa það fyrir dóm.

DÓMHÚSIÐ

Þegar brotaþoli kemur í dómhúsið til að gefa skýrslu fyrir dómi þarf hann yfirleitt að bíða fyrst fyrir utan dómsalinn þar til hann verður sóttur og beðinn um að koma inn. Oftast gefur brotaþoli skýrslu næstur á eftir ákærða. Sá sem gefa á skýrslu fyrir dómi er ekki heimilt að hlusta á framburð þeirra sem gefa skýrslur á undan honum. Miklu skiptir að vera stundvís og að mæta á boðuðum tíma, en stundum dragast skýrslutökur og þá getur orðið einhver bið á því að þeir sem gefa eiga skýrslur verði kallaðir inn í dómsalinn.

SKÝRSLUTAKA FYRIR DÓMI

Skýrslutaka af brotaþola fyrir dómi er svipuð skýrslutöku hjá lögreglu en það eru þó fleiri viðstaddir í dómsalnum. Í dómsalnum eru viðstaddir dómari, eða dómarar, sækjandi, verjandi og réttargæslumaður í þeim tilvikum þar sem brotaþoli hefur fengið réttargæslumann skipaðan.

Þegar skýrslutaka fer fram fyrir dómi þá situr brotaþoli í sæti fyrir framan dómara. Vinstra megin í dómsalnum, frá vitninu séð, sitja sækjandi og réttargæslumaður, í þeim málum þar sem brotaþoli hefur réttargæslumann, en hægra megin sitja verjandi og ákærði. Meðferð sakamála fyrir dómi er almennt opin og því getur verið að einhverjir fleiri séu viðstaddir í salnum. Ákveðin mál eru þó rekin fyrir lokuðum dyrum, svo sem flest kynferðisbrotamál. Það er gert í ljósi þess hve viðkvæm slík mál eru fyrir alla aðila máls og öðrum því ekki veittur aðgangur.

Ákærði á rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku fyrir dómi en undantekningar eru gerðar frá því í ákveðnum málum, þar sem talið er að nærvera ákærða geti orðið brotaþola sérstaklega íþyngjandi og haft áhrif á framburð hans, svo sem þegar um kynferðisbrotamál og ofbeldi í nánum samböndum er að ræða. Gera þarf kröfu um að ákærða verði gert að víkja úr dómsalnum á meðan brotaþoli gefur skýrslu og það er dómarans að meta hvort við því verði orðið. Oft er það þó svo að ákærði samþykkir sjálfur að víkja úr dómsal á meðan brotaþoli gefur skýrslu.

Í þeim tilvikum þar sem brotaþoli er með réttargæslumann ber honum að leiðbeina brotaþola og útskýra fyrir honum málsmeðferðina og vera honum til leiðsagnar og stuðnings í aðdragandanum og á meðan á málinu stendur. Óskir brotaþola um að sakborningur víki úr dómsal skulu settar fram af réttargæslumanni brotaþola.

Við upphaf skýrslutöku biður dómari brotaþola um að gera grein fyrir nafni sínu og útskýrir í stuttu máli hvernig framkvæmdin verður. Dómari greinir brotaþola frá því að það sé skylda að segja satt og rétt frá og að refsivert er að segja rangt frá fyrir dómi. Þetta þýðir ekki að dómari búist við því að brotaþoli segi ósatt, heldur ber dómara skylda til að leiðbeina brotaþola um þetta og segir þetta raunar við öll þau vitni sem koma fyrir dóminn til að gefa skýrslu.

Það er ekki ætlast til þess að brotaþoli geti sjálfur sagt frá öllu því sem máli skiptir en yfirleitt er brotaþoli fyrst beðinn um að segja frá því atviki sem er til umfjöllunar og síðan spyr sækjandi út í einstök atriði. Eftir að sækjandi hefur spurt spurninga býðst verjanda að spyrja og stundum spyr dómari einnig.

Markmið skýrslutöku er að varpa ljósi á atvik máls. Mikilvægt er því að brotaþoli segi aðeins frá samkvæmt bestu vitneskju og eigin minni og láti vita ef hann er óviss um einhver atriði. Stundum rifja dómari, sækjandi eða verjandi upp hvað brotaþoli sagði í skýrslutöku hjá lögreglu og bera undir brotaþola hvort sú lýsing atvika hafi verið rétt. Það er misjafnt hversu langan tíma skýrslutaka fyrir dómi tekur og fer eftir því um hvernig mál er að ræða. Eftir skýrslutökuna má brotaþoli eftir því hvort hann vill, yfirgefa dómsalinn eða vera áfram í dómsalnum og fylgjast með framhaldi málsins.

Brotaþoli sem er boðaður fyrir dóm getur óskað eftir því að ákærandinn annist greiðslu vegna ferða og dvalar á dómstað. Þetta á einkum við ef brotaþoli þarf að ferðast um lengri veg og jafnvel dvelja yfir nótt utan heimilis vegna vitnaskyldu sinnar. Styttri ferðir innan sama bæjarfélags falla ekki þar undir. Brotaþoli getur, þegar hann hefur gefið skýrslu fyrir dómi, krafist þess að dómari ákveði honum greiðslu vegna útlagðs kostnaðar og þóknun fyrir atvinnumissi, sem má telja að skipti brotaþolann máli miðað við efnahag og aðstæður.

LOKUÐ MÁLSMEÐFERÐ

Þó að meginreglan sé sú að dómsmeðferð sé opin, þá getur dómari ákveðið að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, að öllu leyti eða að hluta. Það er framkvæmdin í flestum kynferðisbrotamálum til dæmis og er það gert til að hlífa sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar. Þegar málsmeðferð er lokuð er aðeins þeim heimilt að vera viðstaddir sem málið varðar.

DÓMSUPPKVAÐNING

Máli lýkur með því að dómur er kveðinn upp. Í dóminum kemur fram hver var ákærður, meginefni ákæru, hvers var krafist, helstu málsatvik og umfjöllun um sönnun og röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu, sem og röksemdir dómara fyrir niðurstöðu um önnur atriði máls, þar á meðal um viðurlög og sakarkostnað málsins. Dómur skal kveðinn upp svo fljótt sem unnt er og er meginreglan sú að dómur skuli kveðinn upp ekki síðar en fjórum vikum eftir að það var munnlega flutt. Dómari tilkynnir aðilum hvar og hvenær dómur verði kveðinn upp.

HVAÐA UPPLÝSINGAR BIRTAST Í DÓMUM?

Þegar dómar í sakamálum eru birtir opinberlega birtast eru nöfn brotaþola og vitna ekki birt í dóminum, sbr. 4. gr. reglna um birtingu dóma á vefsíðu héraðsdómstólanna. Í 183. gr. laga um meðferð sakamála er því lýst hvað það er sem koma á fram í dómi.

AÐGANGUR AÐ GÖGNUM

Á meðan sakamál er til rannsóknar hjá lögreglu og til meðferðar hjá ákæruvaldinu eiga sakborningur og brotaþoli rétt á að fá upplýsingar um stöðu málsins og aðgang að gögnum þess eins og nánar er gerð grein fyrir í lögum um meðferð sakamála. Meginsjónarmiðið sem þar er haft til hliðsjónar er að upplýsingargjöf og aðgangur að gögnum geti ekki skaðað rannsókn málsins.

Heimila má sakborningi og brotaþola aðgang að rannsóknargögnum sakamáls sem er lokið nema sérstök sjónarmið til verndar sakborningi, vitnum eða öðrum aðilum mæli gegn því. Sama gildir um hvern þann sem sýnir fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta. Máli telst lokið þegar rannsókn þess hefur verið hætt, það hefur verið fellt niður vegna sönnunarstöðu, fallið hefur verið frá saksókn í því, því hefur verið lokið með lögreglustjórasátt eða endanlegur dómur gengið. Heimild til aðgangs að gögnum máls nær ekki til gagna eða hluta gagna sem geyma viðkvæmar persónuupplýsingar varðandi annan en þann sem óskar að kynna sér gögnin nema viðkomandi sýni fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta.

AÐGANGUR ANNARRA

Lögreglu, ákærendum, dómurum og fangelsisyfirvöldum er heimill aðgangur að öllum gögnum máls til notkunar í störfum sínum.

Lögreglustjóri í því umdæmi þar sem rannsóknargögn eru geymd eða héraðssaksóknari ákveður hvort orðið skuli við beiðni um aðgang að þeim gögnum. Ákvörðun lögreglustjóra eða héraðssaksóknara, um að synja beiðni um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann að nokkru leyti, skal tilkynnt aðila skriflega og vera rökstudd. Kæra má synjun eða takmörkun lögreglustjóra eða héraðssaksóknara á því að veita aðgang að gögnum til ríkissaksóknara sem tekur fullnaðarákvörðun í málinu. Kæra skal borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina.