7. Áfrýjun til Hæstaréttar

Dómi Landsréttar verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar nema að fengnu áfrýjunarleyfi Hæstaréttar. Dómfelldi getur óskað eftir leyfi til áfrýjunar á dómi Landsréttar innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en ella innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins. Umsókn dómfellda um leyfi til áfrýjunar skal send ríkissaksóknara, sem áframsendir hana ásamt umsögn sinni um beiðnina og öðrum gögnum til Hæstaréttar.

Beiðni um áfrýjunarleyfi verður að berast ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en annars innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans. Unnt er þó að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar í þrjá mánuði eftir lok áfrýjunarfrests ef dráttur á áfrýjun er nægilega réttlættur.

Hæstiréttur ákveður hvort orðið verði við ósk um áfrýjunarleyfi. Slíkt leyfi skal aðeins veita ef áfrýjun lýtur að atriði sem hefur verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum er mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um. Þá getur Hæstiréttur veitt slíkt leyfi ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni. Hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skal þó verða við ósk ákærða, eða ákæruvaldsins honum til hagsbóta, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.

Ríkissaksóknari getur einnig óskað eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar og gilda um þá beiðni sömu skilyrði og að framan greinir.