3.1. Rannsókn hætt

Lögregla getur hætt rannsókn ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut eiga að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin. 

Ákveði lögregla að hætta rannsókn málsins ber henni að tilkynna þeim sem hagsmuna hafa að gæta um ákvörðunina. Unnt er að óska eftir rökstuðningi lögreglu fyrir þeirri ákvörðun.

Ákvörðun lögreglu er unnt að kæra til ríkissaksóknara og er kærufrestur einn mánuður. Ríkissaksóknara ber að taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að hún berst embættinu.