4. Að lokinni rannsókn

Að lokinni rannsókn er mál sent ákæranda til meðferðar. Ákærandinn gengur úr skugga um að rannsókn málsins sé lokið. Ef hann telur að svo sé ekki sendir hann málið aftur til frekari rannsóknar eða tekur ákvörðun um að rannsókn málsins skuli hætt. Þegar ákærandi telur rannsókn máls lokið metur hann hvort það sem fram er komið í málinu sé nægilegt eða líklegt til sakfellis. Telji hann svo ekki vera fellir hann málið niður. 

Telji ákærandi það sem fram er komið nægilegt eða líklegt til sakfellis getur hann höfðað sakamál með útgáfu ákæru eða boðið sakborningi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að ljúka málinu með öðrum hætti, þ.e. með sektargerð hjá lögreglu eða skilorðsbundinni ákærufrestun. Í sérstökum tilvikum er ákæranda heimilt að ljúka máli með því að falla frá saksókn.