6. Áfrýjun til Landsréttar

Sá sem hefur verið sakfelldur með héraðsdómi getur áfrýjað dómnum til Landréttar ef hann hefur verið dæmdur í fangelsi eða til að greiða sekt eða sæta upptöku eigna sem nær áfrýjunarfjárhæð í einkamáli. Áfrýjun þarf að lýsa yfir í bréflegri tilkynningu sem verður að berast ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en annars innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans.

Hafi dómfelldi verið dæmdur til vægari refsingar en að ofan greinir getur hann sótt um áfrýjunarleyfi, sem Landsréttur getur veitt, ef úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi eða varða mikilvæga hagsmuni eða ef ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo að einhverju nemi. Beiðni um áfrýjunarleyfi ásamt yfirlýsingu um áfrýjun verður að berast ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en annars innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans. Unnt er þó að sækja um áfrýjunarleyfi til Landsréttar í þrjá mánuði eftir lok áfrýjunarfrests ef dráttur á áfrýjun er nægilega réttlættur. Senda þarf ríkissaksóknara tilkynningu ásamt skriflegri umsókn um leyfið þar sem rökstutt er hvernig ákærði telur að skilyrðum fyrir áfrýjunarleyfi sé fullnægt. Landsréttur getur orðið við slíkri umsókn sé einhverju skilyrðanna hér að framan fullnægt.

Ríkissaksóknari getur einnig áfrýjað héraðsdómi eða sótt um leyfi til áfrýjunar til Landréttar ef hann telur ákærða hafa verið ranglega sýknaðan eða honum verið gerð of væg refsing. Ríkissaksóknari getur líka áfrýjað dómi ákærða til hagsbóta.