Fyrirmæli

Afgreiðsla á málum vegna þjófnaðar í verslun

RS: 5/2017

  • Útgáfudagur:
    25. janúar 2017
  • Gildistaka:
    25. janúar 2017

    Uppfært:
    31. mars 2023
  • RS: 5/2017
    Kemur í stað RS: 8/2009

Samkvæmt RS: 3/2021 eru auðgunarbrot, sem getið er í 1. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, á skrá yfir brot sem ljúka má með lögreglustjórasekt. Eins og þar kemur fram er gert ráð fyrir því að heimildinni sé fyrst og fremst beitt gagnvart búðaþjófnaði þótt hin almenna heimild sé rýmri. Þrátt fyrir þessa heimild, sem bundin er því skilyrði að einungis sé um smáræði að tefla, þ.e. ef verðmæti þýfis nemur ekki hærri fjárhæð en kr. 250.000, og að söku­nautur hafi ekki áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, sbr. 1. mgr. 256. gr. almennra hegn­ingarlaga, kann að vera rétt að beita niðurfellingu saksóknar og/eða fresta ákæru til refsingar skilorðsbundið með hliðsjón af brotaferli kærða. Til samræmingar eru hér settar fram almennar leiðbeiningar um annars vegar afgreiðslu þessara mála með tilliti til heimilda um niðurfellingu saksóknar og ákærufrestunar og hins vegar heimildar til að ljúka máli með lögreglustjórasekt. Rétt þykir að vekja hér athygli á Fyrir­mælum RS: 1/2023 um sáttamiðlun, sem taka til þjófnaðarbrota almennt og þykir mjög álitlegur kostur vegna brota ungra afbrota­manna.

Kærði er á aldrinum 15-17 ára þegar brot er framið og játar sök:

Fyrsta afgreiðsla: Fallið frá saksókn skv. a- og d- liðum 3. mgr. 146. gr. sml.
Önnur afgreiðsla: Ákærufrestun í 2 ár.
Þriðja afgreiðsla: Sektargerð, sbr. RS: 3/2021. Minnt er á ákvæði 4. mgr. 56. gr. almennra hegningarlaga.
Fjórða afgreiðsla: Ákæra.

Ákærufrestun er að jafnaði útilokuð hafi kærði áður hlotið ákærufrestun fyrir annað hegningarlagabrot.

Kærði er 18 ára eða eldri þegar brot er framið og játar sök:

Fyrsta afgreiðsla: Fallið frá saksókn skv. a- og d- liðum 3. mgr. 146. gr. sml.
Önnur afgreiðsla: Sektargerð, sbr. RS: 3/2021.
Þriðja afgreiðsla: Ákæra.

Þrátt fyrir ofangreint kann að vera ástæða til að falla frá saksókn eða ljúka máli með ákæru­frestun, allt eftir atvikum ef brot er óverulegt og persónulegar aðstæður kærða jafn­framt sérstakar.

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl