Fyrirmæli

Ákæruskjöl – útlit og form

RS: 2/2017

 

  • Útgáfudagur:
    25. janúar 2017
  • Gildistaka:
    25. janúar 2017
  • RS: 2/2017
    Kemur í stað RS: 1/2009

Skipta skal ákæruskjalinu í eftirfarandi þætti:

1. Fyrirsögn.
2. Embættisheiti þess handhafa ákæruvalds sem gefur út ákæruna.
3. Dómstóllinn sem málið er höfðað fyrir.
4. Nafn ákærða, heimilisfang og kennitala.
5. Lagaheiti brotsins, sem ákærða er gefið að sök, eða önnur skilgreining á brotinu.
6. Atvikalýsing.
7. Röksemdir sem málsókn er byggð á, ef þörf krefur (undantekning).
8. Refsiákvæði.
9. Kröfur.
10. Útgáfustaður og dagsetning.
11. Undirskrift.

Til skýringar um hvern þátt fyrir sig:

1. Fyrirsögn.

Í fyrirsögn skal vera heiti skjalsins ÁKÆRA.

2. Embættisheiti o.fl.

Með eftirfarandi orðalagi kunngerir lögreglustjóri eða héraðssaksóknari ákvörðun sína um málshöfðun:
“Lögreglustjórinn í ......... gjörir kunnugt:”

3. Dómstóllinn o.fl.

Hér skal tilgreint að höfða beri sakamál fyrir tilteknum héraðsdómi. Orðalag skal vera: “Að höfða ber sakamál fyrir Héraðsdómi ....... á hendur”.

Rétt þykir að nota hér orðalagið “Að höfða ber” en ekki “Að höfðað er”. Ástæðan er sú að fyrrgreinda orðalagið er í betra samræmi við 142. gr. og fyrri málslið 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml). Við útgáfu ákæru hefur ákærandinn farið yfir rannsóknargögn, kannað viðeigandi lagaákvæði og komist að því að höfða beri sakamál. Þetta orðalag undirstrikar að málshöfðunin er ákveðin á grundvelli sml., en er ekki háð einstaklingnum sem kunngerir um málshöfðunina. Að lokinni framangreindri könnun hafi ákærandinn staðið frammi fyrir því, að miðað við fyrirliggjandi rannsóknargögn og þau lagaákvæði sem við ættu, hafi borið að höfða sakamál.

4. Nafn ákærða o.fl.

Dæmi:

“Jóni Sigurði Jónssyni, kennitala 123406-5559,
Hverfisgötu 200, Reykjavík.

Gæta skal þess að hafa fullt nafn hins ákærða í ákæru.
Ef hann er heimilislaus þá komi það fram (án lögheimilis).

5. Lagaheiti brotsins o.fl.

Mikilvægt er, að athæfi ákærða sé gefið heiti í inngangi atvikalýsingar. Nota ber lagaheiti brotanna eða hefðbundin heiti þeirra í refsirétti, þegar þau eru fyrir hendi, t.d. þjófnaður, skjalafals, líkamsárás, nytjastuld. Þar sem ekki nýtur við sérstakra heita á broti eins og t.d. er raunin varðandi ýmis sérrefsilagabrot, skal leitast við að gefa brotinu heiti miðað við löggjöfina sem brotið er gegn, t.d. umferðarlagabrot, tollalagabrot, fíkniefnalagabrot, áfengislagabrot, skotvopnalagabrot.

6. Atvikalýsing.

Atvikalýsingu skal hefja á heiti brotsins, t.d. “fyrir þjófnað”, og síðan skal lýsi í hverju brotið er fólgið; “með því að hafa stolið” eða “fyrir umferðalagabrot, með því að hafa mánudaginn 23. desember 2016 ekið bifreiðinni”.

Sagnorð skal hafa í lýsingarhætti þátíðar, núliðinni tíð, framsöguhætti, t.d. “með því að hafa stolið, ekið, slegið”. Áréttað er að ekki er nauðsynlegt að hafa alla atvikalýsingu í einni setningu án þess að setja punkt.
Mikilvægt er að brotalýsing sé nákvæm og í samræmi við hina raunverulegu háttsemi og enn fremur að lýsingin samsvari efnisatriðum viðkomandi refsilagaákvæðis. Hafa ber þó í huga að nauðsynlegt getur verið að hafa atvikalýsingu að einhverju leyti opna.

7. Refsiákvæði.

Færsla brota til refsiákvæða skal vera nákvæm (gr., mgr., málslið, töl.) og koma á eftir atvikalýsingu.

Dæmi um orðalag:
Telst þetta varða við ...
Framangreint brot ákærða telst varða við ...
Framangreind brot ákærða teljast varða við ...

Ef um nokkur brot er að ræða í sömu ákæru og kaflaskipti er gleggra að hafa heimfærsluna á eftir hverri brotalýsingu fyrir sig í stað þess að hafa heimfærslu allra brotanna í einu lagi á eftir brotalýsingunum.

8. Kröfur.

Fyrst skal gera kröfu um refsingu og greiðslu sakarkostnaðar. Síðan aðrar kröfur, um upptöku, sviptingu ökuréttar o.s.frv. og loks skal tilgreina ótvírætt einkaréttarkröfur og kröfur allsherjarréttar eðlis, sbr. f-liður 1. mgr. 152. gr. sml. Nefna skal þau lagaákvæði sem upptökukrafa og sviptingarkrafa byggist á.

Dæmi um orðalag: Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum 10 flöskum af vodka, samkvæmt. Ef um svokallaða skylduupptöku er að ræða, svo sem varðandi fíkniefni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, nægir að krefjast upptöku með vísan til viðeigandi lagaákvæðis og óþarfi að krefjast þess að ákærði sæti upptöku á hinu haldlagða fíkniefni. Dæmi: “... og að gerð verði upptæk framangreind 5 kg af hassi samkvæmt ...” Ef á hinn bóginn er um að ræða heimild til upptöku, svo sem er t.d. í 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, er rétt að það komi fram í kröfugerðinni: “og að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á ... samkvæmt heimild í 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

9. Útgáfustaður og dagsetning.

Dæmi: Skrifstofa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, 24. janúar 2017.

10. Undirskrift.

Héraðssaksóknari, varahéraðssaksóknari og lögreglustjórar skulu sjálfir undirrita þau ákæruskjöl sem út eru gefin við embætti þeirra. Við embætti héraðssaksóknara er saksóknurum heimilt að undirrita ákæruskjöl. Hið sama á við um löglærða aðstoðarlögreglustjóra við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum. Við önnur lögreglustjóraembætti er staðgenglum lögreglustjóra heimilt að undirrita ákæruskjöl í fjarveru lögreglustjóra. Ákærendur sem fara með mál fyrir héraðsdómi undirrita svo sem tíðkast hefur fylgibréf með ákærum fyrir hönd héraðssaksóknara eða lögreglustjóra.
Sömu reglur skulu að jafnaði gilda um undirritun greinargerða í kærumálum til Hæstaréttar.

Eftir því sem við á þá eiga reglur þessar einnig við þegar ríkissaksóknari gefur út ákæru.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

 

Sýnishorn ákæru

Tengd skjöl