Fyrirmæli

Ákvörðun um að vísa frá kæru, hætta rannsókn eða fella mál niður

RS: 11/2017

  • Útgáfudagur:
    25. janúar 2017
  • Gildistaka:
    25. janúar 2017
  • RS: 11/2017
    Kemur í stað RS: 3/2014

I. Ákvörðun um að vísa frá kæru:

1. málsl. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml.):

 

Lögregla vísar frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni.

Rannsókn hefst ekki í máli.
Heimildin á við ef sýnt þykir að kæra á ekki við rök að styðjast, svo sem ef ekki er um refsiverða háttsemi að ræða, sök er fyrnd o.fl. Ef tilkynnandi mætir á lög­reglu­stöð skal að jafnaði taka skýrslu af honum og gefa máli málsnúmer. Þyki kæra fjar­stæðu­kennd, s.s. vegna ástands kæranda, nægir upplýsingaskýrsla eða rafræn skrá í dag­­bók (LÖKE) um mætingu tilkynnanda á lögreglustöð og frásögn um meint af­brot. Berist kæra bréflega skal skrá erindið með viðeigandi hætti.

Lögregla tekur ákvörðun um að vísa frá kæru. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut eiga að máli kost á að tjá sig áður en ákvörðun er tekin, sbr. lokamálslið 4. mgr. 52. gr. sml. Heimildin tekur jafnt til mála sem heyra undir ákæru­vald ríkissaksóknara, héraðs­­saksóknara og lögreglustjóra.

Tilkynna skal þeim sem hagsmuna hafa að gæta um ákvörðun og leiðbeina um kæru­heimild og kærufrest til ríkissaksóknara, sbr. 5. mgr. 52. gr. sml. Tilkynningu skal senda í A-pósti og skal þess gætt að afrit af tilkynningu sé jafnframt sent til lögmanns við­komandi ef það á við. Skráning á lokaferli í málaskrá (Löke) skal fara fram sem næst þeim tíma þegar ákvörðun er tekin og tilkynning er send út.

Lögreglu er skylt, ef þess er óskað, að rökstyðja í stuttu máli ákvörðun, sbr. 8. mgr. 52. gr. sml. Ávallt er heimilt að veita rökstuðning samhliða til­kynn­ingu. Nú er kæru vísað frá og sakarefni í máli varðar meint brot gegn XXII. almennra hegningarlaga og skal þá röstuðningur vera samhliða tilkynningu. Hið sama á við ef um er að ræða mál og sakarefni í því varðar meint brot starfsmanns lög­reglu gegn XIV. kafla sömu laga.

 

 

 

 

II. Ákvörðun um að hætta rannsókn:

2. málsl. 4. mgr. 52. gr. sml.:

Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað.

Skilyrði hér er að rannsókn sé hafin. Með því er meðal annars átt við að kæra hafi verið nánar yfirfarin með hliðsjón af tiltækum gögnum, öðrum rannsóknarathöfnum og eftir atvikum skýrslutökum.

Hér má í fyrsta lagi hætta rannsókn teljist ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi rann­­­sókn. Ákvæðið er matskennt og ekki tæmandi. Í dæmaskyni er tilgreint að heimildin geti átt við, ef í ljós kemur að kæra reynist ekki á rökum reist. Um það atriði má vísa að hluta til I. liðar. Til viðbótar má nefna að ekki sé vitað hver sak­borningur er, eða atvik máls þykja með þeim hætti að frekari rannsókn sé ekki talin lík­leg til að bæta þar úr svo sem óskýrir eða misvísandi framburðir. Þá kann að vera að ekki þjóni tilgangi að taka skýrslur af fleiri vitnum, þótt til staðar séu, enda þyki sýnt af gögnum málsins að það upplýsist ekki frekar.

Í öðru lagi má hætta rannsókn ef brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt að rannsókn muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Hér verður að leggja til grundvallar að brot teljist smávægilegt með hliðsjón af broti og ætluðu umfangi rann­­­sóknar. Þannig verður að meta heildstætt alla efnisþætti ákvæðisins.

Mat á því hvort brot teljist smávægilegt ræðst m.a. af fjárverðmæti þýfis, eignatjóni og/eða öðrum afleiðingum brots. Brot þar sem líkleg viðurlög væri fangelsi eða há fé­­sekt kæmi þannig ekki til álita hér. Sakaferill kemur einnig til skoðunar í þessu sam­­bandi svo sem síbrotamenn.

Við mat á því hvað teljist óeðlileg fyrirhöfn og kostnaður þarf að skoða væntanlega fram­­haldsrannsókn, svo sem fjölda áætlaðra yfirheyrslna, umfang tæknirannsóknar, um­­fang gagnaöflunar og úrvinnslu gagna, ferðalög með tilliti til staðsetningu vitna eða annarra rannsóknarathafna, samskipti við útlönd eða hvort þörf sé á aðstoð utan­aðkomandi sérfræðinga.

Lögregla tekur ákvörðun um að hætta rannsókn. Heimildin tekur jafnt til mála sem heyra undir ákæruvald ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjóra. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut eiga að máli kost á að tjá sig áður en ákvörðun er tekin, sbr. lokamálslið 4. mgr. 52. gr. sml.

Skylt er að tilkynna um ákvörðun kæranda, sakborningi, brotaþola og öðrum þeim sem hagsmuna hafa að gæta, og jafnframt leiðbeina þeim um kæruheimild og kæru­frest til ríkissaksóknara, sbr. 5. mgr. 52. gr. sml. Tilkynningu skal senda í A-pósti og skal þess gætt að afrit af tilkynningu sé jafnframt sent til lögmanns við­komandi ef það á við. Skráning á lokaferli í málaskrá (Löke) skal fara fram sem næst þeim tíma þegar ákvörðun er tekin og tilkynning er send út.

Lögreglu er skylt, ef þess er óskað, að rökstyðja í stuttu máli ákvörðun, sbr. 8. mgr. 52. gr. sml. Ávallt er heimilt að veita rökstuðning samhliða til­kynn­ingu. Nú er rann­sókn hætt og sakarefni í máli varðar meint brot gegn XXII. almennra hegningarlaga og skal þá röstuðningur vera samhliða tilkynningu. Hið sama á við ef um er að ræða mál og sakarefni í því varðar meint brot starfsmanns lög­reglu gegn XIV. kafla sömu laga.

III. Ákvörðun um að fella mál niður:

1. mgr. 57. gr. laga um meðferð sakamála:

Nú telur lögregla að rannsókn sé lokið og gögn komin fram sem geti leitt til saksóknar og sendir hún ákæranda þá rannsóknargögnin, nema lögreglustjóri megi sjálfur höfða mál skv. 1. og 4. mgr. 24. gr.

 

145. gr. laga um meðferð sakamála:

Þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugar hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi skv. 152. gr., sbr. þó 146. gr.

Rannsókn hefur farið fram og telst lokið í skilningi ákvæðanna. Ákærandi tekur ákvörðun um að fella mál niður í samræmi við málshöfðunarheimild, mati á sönnun og eða lagaatriðum. Teljist rannsókn ekki lokið verður mál ekki fellt niður á grund­velli 145. gr. sml.

Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut eiga að máli kost á að tjá sig áður en ákvörðun er tekin, sbr. 1. málslið 1. mgr. 147. gr. sml.

Skylt er að tilkynna um ákvörðun, sakborningi og brotaþola, enda liggi fyrir hver hann er, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 147. gr. sml. Sé ákvörðun kæranleg skal leiðbeina um kæruheimild og kærufrest til ríkissaksóknara, sbr. almennar reglur stjórnsýsluréttar. Til­kynningu skal senda í A-pósti og skal þess gætt að afrit af tilkynningu sé jafnframt sent til lögmanns viðkomandi ef það á við. Skráning á lokaferli í málaskrá (Löke) skal fara fram sem næst þeim tíma þegar ákvörðun er tekin og tilkynning er send út.

Héraðssaksóknara og lögreglustjóra er skylt að rökstyðja í stuttu máli ákvörðun um að fella mál niður sé þess óskað. Ávallt er heimilt að veita rökstuðning samhliða til­kynn­ingu. Nú er mál fellt niður og sakarefni í því varðar meint brot gegn XXII. almennra hegningarlaga og skal þá röstuðningur vera samhliða tilkynningu. Hið sama á við ef um er að ræða mál og sakarefni í því varðar meint brot starfsmanns lög­­reglu gegn XIV. kafla sömu laga.

IV. Skráning í málaskrá og haldlagðir munir:

Við lokaafgreiðslu máls skal yfirfara skráningu máls í málaskrá (LÖKE) og gæta þess sérstaklega að brotaflokkar og sakborningar séu rétt skráðir. Við lokaafgreiðslu máls skal lögreglustjóri eða héraðssaksóknari gæta þess að aflétta hald­lagningu muna, eftir því sem við á, sbr. 1. og 2. mgr. 72. gr. sml. Lögreglustjóri sem hefur farið með rannsókn máls annast framkvæmd þess að aflétta haldlagningu, þar með talið úrvinnslu á því hverjum ber að afhenda muni eftir haldlagningu.

 

V. Kærðar ákvarðanir til ríkissaksóknara:

Lögreglustjóri eða héraðssaksóknari skal senda ríkissaksóknara afrit rannsóknargagna eigi síðar en innan tveggja vikna frá því beiðni um gögn berst frá ríkissaksóknara nema annað sé ákveðið af ríkis­saksóknara.

Lögreglustjóri eða héraðssaksóknari skal samhliða veita ríkissaksóknara skýringar um hvaða megin sjónar­mið og rannsóknargögn voru einkum lögð til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, auk athugasemda vegna kærunnar eftir því sem við á. Hafi ákvörðun verið rökstudd þegar tilkynning um niðurfellingu var send út eða síðar þá nægir almennt að vísa til þess rökstuðnings.

Lögreglustjóra eða héraðssaksóknara er ávallt skylt að veita ríkissaksóknara aðrar upp­­­lýsingar vegna með­ferðar máls á kærustigi ef ríkissaksóknari telur þess þörf.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl