Fyrirmæli

Ávana- og fíkniefni í þvagi - fallið frá saksókn

RS: 3/2019

 

  • Útgáfudagur:
    5. júlí 2019
  • Gildistaka:
    5. júlí 2019
  • RS:3/2019

Þann 11. júní sl. voru ný umferðarlög samþykkt á Alþingi og öðlast þau gildi 1. janúar 2020. Fram að þeim tíma gilda umferðarlög nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Við gildistöku nýrra umferðarlaga fellur niður refsinæmi þess að ávana- og fíkniefni mælist einungis í þvagi ökumanns, þ.e. ökumaður telst þá ekki vera óhæfur til að stjórna ökutæki mælist ávana- og fíkniefni einungis í þvagi hans. Þetta má ráða af 1., sbr. 2. mgr. 50. gr. nýrra umferðarlaga. Refsinæmið mun því miðast við að ávana- og fíkniefni (eða lyf) finnist í blóði ökumanns.

Þrátt fyrir að umferðalög nr. 50/1987, og þar með ákvæði 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., haldi gildi sínu til og með 31. desember 2019, telur ríkissaksóknari rétt, með hliðsjón af breyttu mati löggjafans á refsinæmi þess að ávana- og fíkniefni mælist í þvagi ökumanna, að ákærendur falli frá saksókn á grundvelli d. liðar 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, í þeim málum þar sem svo háttar til. Ríkissaksóknari telur að sérstakar ástæður mæli með því að fallið verði frá saksókn í þessum tilvikum, enda verði að telja að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar.

Ríkissaksóknari beinir því þeim fyrirmælum til allra ákærenda að ljúka öllum þeim málum/brotum sem nú eru til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum þar sem sakarefnið er einungis það að ávana- og fíkniefni hafa mælst í þvagi, með ofangreindum hætti. Þetta felur m.a. í sér að afturkalla ber ákærur/ákæruliði í öllum slíkum sakamálum sem eru óafgreidd hjá héraðsdómstólunum.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

 

Tengd skjöl