Fyrirmæli

Brot gegn sóttvarnarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, sbr. 19. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, vegna heimsfaraldurs COVID-19

RS: 5/2021

 

  • Útgáfudagur:
    29. júlí 2021
  • Gildistaka:
    29. júlí 2021
  • RS: 5/2021
    Kemur í stað RS: 4/2021

Með fyrirmælum þessum eru uppfærðar tilvísanir til nýrra ákvarðana heilbrigðisráðherra um opinberar sóttvarnarráðstafanir í samræmi við sóttvarnarlög nr. 19/1997, sbr. lög nr. 2/2021, vegna COVID-19, nú reglugerð nr. 747/2021 um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19, sbr. reglugerð nr. 865/2021 og reglugerð nr. 878/2021, sbr. 886/2021 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Ríkissaksóknari óskar eftir að fá upplýsingar frá lögreglustjórum um afgreiðslur allra þeirra mála sem upp koma og varða ætluð brot á nefndum reglum til að tryggja yfirsýn og samræmi í afgreiðslum lögreglustjóra.

Ríkissaksóknari leggur á það áherslu að ákærendur meti hvert tilvik fyrir sig og ákvarði sektarfjárhæð með hliðsjón af alvarleika brots en ljóst er að brotin geta verið afar mismunandi og þar með mis alvarleg. Við mat á alvarleika brotanna verði m.a. litið til þess í hvaða aðstæðum sakborningur hefur verið þegar ætlað brot á sér stað, bæði hvað varðar samneyti við aðra einstaklinga, og þá hversu marga, hvar viðkomandi er staddur og hvort hann hafi farið á einn eða fleiri staði, hvort sakborningur gætti varúðar þrátt fyrir brotið, eða hvort hann sýndi af sér vítaverða háttsemi að öðru leyti s.s. með því að vera undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna innan um aðra ótengda einstaklinga.

Þá er ljóst að í sumum tilvikum kann háttsemin að vera það alvarleg, einkum varðandi brot gegn reglum um einangrun, að háttsemin eigi undir ákvæði 175. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ákæra fyrir brotið. Sem dæmi má nefna að sakborningur geri nokkurn hóp manna útsettan fyrir sýkingu eða sýki hóp manna af COVID-19 og enn alvarlegra ef um er að ræða að útsetja eða sýkja þá sem eru í sérstakri hættu vegna undirliggjandi sjúkdóma. Ef slíkt álitaefni kemur upp ber ákærendum að upplýsa ríkissaksóknara og héraðssaksóknara strax um málið en héraðssaksóknari fer með ákæruvald vegna brota gegn 175. gr. almennra hegningarlaga.

  

Brot gegn reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 747/2021 um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19:

Brot gegn skyldu til að fara/vera í sóttkví, 3. gr. og 1. mgr. 4. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot gegn skyldu til að framvísa vottorði á landamærastöð og við byrðingu sem sýnir fram

 á neikvætt PCR-próf sem er ekki eldra en 72. klst. við byrðingu, 1. mgr. 4. gr.

Sekt kr. 100.000.

Brot gegn skyldu til að fara í sýnatöku á landamærastöð, 1. mgr. 4. gr.

Sekt kr. 100.000.

Brot gegn skyldu til að dvelja í sóttvarnarhúsi og skyldum sem sóttkví eða einangrun í

 sóttvarnarhúsi felur í sér, 5. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot gegn skyldum þeirra sem eru í sóttkví, 5. gr., 7. gr. og 8. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 50.000-250.000.

Brot á reglum um einangrun, 1. og 2. mgr. 10. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 150.000-500.000.

Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots.

  

Brot gegn reglum skv. reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 878/2021, sbr. reglugerð nr. 886/2021, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar:

Brot á reglum um fjöldatakmörkun, 3. gr.

Sekt einstaklings sem sækir samkomu kr. 50.000.

Sekt forsvarsmanns/skipuleggjanda sem stendur fyrir samkomu kr. 250.000-500.000.

Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots forsvarsmanns/skipuleggjanda.

Brot gegn skyldu til að tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 1 metra á milli einstaklinga 

sem ekki eru í nánum tengslum, 1. mgr. 4. gr.

Sekt forsvarsmanns/skipuleggjanda þeirrar starfsemi/samkomu sem um ræðir ákvarðist

 eftir alvarleika brots kr. 100.000-500.000.

Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots.

Brot á reglum um notkun andlitsgrímu, 2. mgr. 4. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 886/2021.

Sekt forsvarsmanns þeirrar starfsemi sem um ræðir ákvarðist eftir alvarleika brots

 kr. 100.000-500.000.

Sekt einstaklings sem notar ekki andlitsgrímu ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 10.000-100.000.

Brot á reglum um takmarkanir á starfsemi vegna smithættu, 5. gr.

Sekt ákvarðist eftir alvarleika brots kr. 100.000-500.000.

 

Helgi Magnús Gunnarsson
vararíkissaksóknari

 

Tengd skjöl