Fyrirmæli

Brot gegn umferðarlögum nr. 77/2019. Samræmi í málsmeðferð

RS: 5/2020

  • Útgáfudagur:
    28. maí 2020
  • Gildistaka:
    28. maí 2020
  •                                                        RS: 5/2020
    Kemur í stað RS: 2/2020

 I           Ákvörðun sekta og svipting ökuréttar við samspil ölvunar- og fíkniefnaakstursbrota:

Þegar um það er að ræða að ökumaður er samtímis undir áhrifum áfengis og fíkniefna (concursus idealis) telur ríkissaksóknari rétt að honum sé gerð sekt hvort tveggja fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur, sbr. 98. gr umferðarlaga nr. 77/2019, en að honum sé á hinn bóginn aðeins gerð ein svipting og að miða skuli sviptinguna við hvort ölvunar- eða fíkniefnaaksturinn eigi að leiða til lengri sviptingar. Þessi afstaða ríkissaksóknara varðandi ökuréttarsviptingar byggir á dómafordæmum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 335/2008 og 222/2015.

Þegar ákvarða þarf ökumanni refsingu og viðurlög samtímis fyrir fleiri en eitt ölvunar- og/eða fíkniefnaakstursbrot, án þess að brotin séu framin samtímis í einum og sama verknaðinum, telur ríkissaksóknari rétt að honum sé gerð sekt fyrir hvert og eitt brotanna, sbr. 98. gr umferðarlaga nr. 77/2019, og að honum sé gerð ein einföld svipting fyrir það brot sem leiðir til lengstu sviptingarinnar og að auki hálf svipting fyrir hvert það brot sem umfram er. Þessi afstaða ríkissaksóknara varðandi ökuréttarsviptingar byggir á dómafordæmum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 335/2008, 9/2009 og 298/2013.

Þar til reglugerð um vanhæfismörk hefur tekið gildi, sbr. 6. mgr. 48. gr. umferðarlaga, telur ríkissaksóknari að breyttu breytanda sömu sjónarmið geta átt við þegar um er að ræða ákvörðun sviptingar ökuréttar við samspil ölvunar-, fíkniefna- og/eða lyfjaaksturs. Í því samhengi má minna á að ekki er um að ræða ítrekunaráhrif milli 2. mgr. 48. gr. annars vegar og 49 gr. og 50. gr. hins vegar, sbr. 7. mgr. 101. gr. umferðarlaganna og dóm Hæstaréttar í máli nr. 9/2009. 

II         Ákvörðun refsingar þegar um er að ræða a.m.k. aðra ítrekun ölvunar- eða fíkniefnaaksturs og                          sviptingaraksturs, þ.e. brot gegn 49. eða 50. gr. og 1. mgr. 58. gr. umfl.

Ríkissaksóknari telur rétt, með hliðsjón af dómafordæmum Hæstaréttar, sjá einkum dóma í málum nr. 162/2006, 178/2009, 571/2011 og 720/2014, að full refsing komi fyrir bæði brotin. Ekki hefur verið um samræmda framkvæmd að ræða hjá ákærendum hvað þetta varðar, þ.e. sumir hafa talið að helminga ætti refsinguna fyrir annað brotið.

Dæmi:

· 49. gr./50. gr. = 30 dagar og 58. gr. = 30 dagar => alls 60 dagar. Rétt

· 49. gr./50. gr. = 30 dagar og 58. gr. = 15 dagar => alls 45 dagar. Rangt

 

III         Tiltaka skal í ákæru magn áfengis og fíkniefna, sem mæld hafa verið í blóði eða útöndunarlofti
              ökumanns: 

Ríkissaksóknari óskar þess að ákærendur tilgreini í ákærutexta það magn áfengis og/eða fíkniefna (öll efni) sem mæld hafa verið í blóði eða útöndunarlofti ökumanns. Slík tilgreining eykur skýrleika ákærunnar og felur auk þess í sér mikið hagræði fyrir dómara og ákærendur hjá ríkissaksóknara sem fara yfir dóma héraðsdóms.

IV         Lyfjaakstur, sbr. 2. mgr. 48. gr. umfl. – Ákvörðun viðurlaga:

Sekt og svipting ökuréttar skal ákvarðast eins og sekt og svipting vegna brota gegn 50. gr. þegar um lítið magn er að ræða, í dag kr. 100.000 og svipting í 6 mánuði.

V          Taka þvagsýna og viðurlög við að neita að gefa lögreglu þvagsýni:

Að mati ríkissaksóknara hefur lögregla heimild til að taka þvagsýni ef ótvírætt samþykki sakbornings liggur fyrir, sbr. 4. mgr. 52. gr. umfl. Rétt er að um samþykkið sé bókað í skýrslu sem sakborningur undirritar eða yfirlýsing sakbornings þar um sé tekin upp. Hins vegar er ekki lengur refsivert að vera með fíkniefni í þvagi við akstur skv. nýjum umferðarlögum og telur ríkissaksóknari að eftir gildistöku laga nr. 77/2019 eigi taka þvagsýna að heyra til undantekninga og einskorðast að meginstefnu til við þau tilvik þar sem grunur er um akstur undir áhrifum og lögregla hefur ekki staðið sakborning að akstri. Telja verður að í slíkum tilvikum séu þvagsýni mikilvæg sönnunargögn ekki síst þegar sakborningur ber því við að hafa neytt áfengis eða fíkniefna eftir að akstri lauk. Neiti sakborningur við þessar aðstæður að gefa þvagsýni telur ríkissaksóknari rétt að beita hann sektum og sviptingu ökuréttar sbr. 1. mgr. 94. gr. og 1. mgr. 101. gr. umfl. Ekki verði beitt viðurlögum í öðrum tilvikum þegar sakborningur neitar að gefa þvagsýni.

 VI        Sektir lögaðila/flytjanda vegna brota á umferðarlögum sem varða aksturs- og hvíldatíma                                      og notkun ökurita:

Með hliðsjón af ákvæði 19. gr. c. almennra hegningarlaga og athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum 66/2006, telur ríkissaksóknari ljóst að um hlutlæga refsiábyrgð flytjanda/lögaðila sé að ræða og að heimilt sé að gera lögaðila sekt/senda sektarboð fyrir brot gegn ákvæðum 1. mgr. 55. gr., 1. mgr. 56. gr. og 92. gr. umferðarlaga ef uppfyllt er það skilyrði að brotið hafi annaðhvort orðið til hagsbóta fyrir flytjanda eða getað orðið til hagsbóta fyrir hann, sem er nú yfirleitt raunin. Þá liggur það almennt ljóst fyrir í þessum málum að um sök (ásetning eða gáleysi) er að ræða af hálfu einhvers á vegum lögaðilans, sbr. áskilnað 19. gr. c. almennra hegningarlaga.

VII       Sektir lögreglu og meðalhófsreglan:

Lögregla skal ávallt gefa sakborningi kost á að undirgangast sekt hjá lögreglu (vettvangssekt, sektarboð, sektargerð) áður en ákvörðun er tekin um útgáfu ákæru. Gildir þá einu hvort viðkomandi játaði brot sitt skýlaust á vettvangi eður ei. Staðfesting á að sakborningi hafi verið gefinn kostur á að undirgangast sekt hjá lögreglu fyrir útgáfu ákæru skal liggja fyrir í hverju máli.

 

 Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

 

 

 

Tengd skjöl