Fyrirmæli

Mál sem send eru héraðssaksóknara til ákærumeðferðar

RS: 7/2017

 

  • Útgáfudagur:
    25. janúar 2017
  • Gildistaka:
    25. janúar 2017
  • RS: 7/2017
    Kemur í stað RS: 12/2009

I. Frágangur málsgagna og haldlagðir munir

Rannsóknargögn skal senda héraðssaksóknara í frumriti. Ekki er nauðsynlegt að senda afrit af rannsóknargögnum nema héraðssaksóknari óski sérstaklega eftir því.
Skjöl skulu vera í skjalakápu eða skjalamöppu, vandlega skjalmerkt og með skjalaskrá. Skjalaskrá skal jafnframt sett inn sem skjal í LÖKE þannig að hægt verði að gera á henni breytingar hvað varðar uppröðun skjala í máli og tilgreining blaðsíðutals (ekki pdf). Óskjalmerkt fylgiskjöl skulu vera aðgreind frá merktum rannsóknargögnum.

Geisladiskar með hljóð- og/eða myndupptökum, svo sem af skýrslutökum eða úr eftirlitsvélum, skulu fylgja rannsóknargögnum í viðeigandi plastvösum. Merkja skal þá með viðeigandi málsnúmeri og auðkenna um efni disks.

Að frátöldum myndupptökum, svo sem úr eftirlitsmyndavélakerfi, skal að jafnaði ekki senda haldlagða muni með rannsóknargögnum. Lögreglustjóri skal gæta þess að aflétta haldlagningu muna ef haldlagning hefur ekki lengur þýðingu fyrir mál. Skjali á erlendu tungumáli, sem telst vera mikilvægra málsgagna, skal að jafnaði fylgja þýðing á íslensku unnin af löggiltum skjalaþýðanda.

 

II. Skráning í málaskrá

Yfirfara skal skráningu máls í málaskrá (LÖKE) og gæta þess sérstaklega að brotaflokkar og sakborningar séu rétt skráðir.

Skrá skal sendingu máls með viðeigandi ferli sem næst þeim degi er málsgögn eru send.

III. Samantekt ákæranda

Máli skal fylgja samantekt ákæranda um sönnunarstöðu málsins, en þar komi fram hvort það sé líklegt til sakfellis og þá að hvaða broti/brotum ákæra gæti beinst. Auk þess skal tiltaka þau atriði sem ákærandi telur að geti haft áhrif á málshöfðun, t.d. mikilvæg sönnunargögn, fjölda vitna, myndbandsupptökur, tæknirannsóknir o.s.frv. Samantekt þessi skal rituð á sérstakt skjal og ekki vera meðal annarra óskjalmerktra fylgiskjala eða skjalmerktra rannsóknargagna.

IV. Sakarkostnaðaryfirlit

Málum skal fylgja yfirlit sakarkostnaðar, yfirfarið af ákæranda, ásamt ljósriti af reikningum sem yfirlit tekur til.

V. Bréf lögreglustjóra

Máli skal fylgja bréf lögreglustjóra til héraðssaksóknara þar sem m.a. skal tilgreina dagsetningu, hvaða mál sé sent (málsnúmer lögreglu) og á hvaða grundvelli það sé gert. Ef sakborningur sætir gæsluvarðhaldi eða farbanni þá skal það tekið fram í bréfi lögreglustjóra og upplýst hvenær því lýkur. Þegar þannig stendur á, skulu rannsóknargögn berast héraðssaksóknara eigi síðar en 5 virkum dögum áður en gæsluvarðhald eða farbann rennur út. Sé það ekki unnt, skal haft samband við embætti héraðssaksóknara með hæfilegum fyrirvara þar sem farið er yfir stöðu málsins og sammælst um hvernig best megi vinna að því.

VI. Sending málsgagna

Rannsóknargögn og önnur málsgögn skulu send héraðssaksóknara í ábyrgðarpósti eða með öruggri boðsendingu.

 

Reglur þessar gilda einnig, eftir því sem við á, um mál sem send eru ríkissaksóknara til ákærumeðferðar og mál sem lögreglustjóri sendir öðrum lögreglustjóra til meðferðar. Hið sama á að jafnaði við um frágang rannsóknargagna innan embættis lögreglustjóra, frá rannsóknardeild til ákæranda, ef ákærumeðferð máls er hjá lögreglustjóra.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl