Fyrirmæli

Málsmeðferðartími

RS: 4/2017

  • Útgáfudagur:
    25. janúar 2017
  • Gildistaka:
    25. janúar 2017
  • RS: 4/2017
    Kemur í stað RS: 5/2009

Málshraðareglan er ein af grundvallarreglum réttarfars sem víða kemur fram í lögum og tryggð er sérstaklega í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hefur vægi reglunnar sífellt verið að aukast eins og fjölmörg dómafordæmi sýna. Markmið ákvæða um eðlilegan málshraða eru til þess fallin að bæta réttarstöðu sakborninga og brotaþola auk þess að styrkja réttaröryggi borgaranna. Brot á ákvæðum sem tryggja eðlilegan málshraða kemur fram í ávítum á ákæruvaldið, mildun refsinga sakborninga og jafnvel niðurfellingu mála fyrir Hæstarétti. Er slíkt ekki ásættanlegt.

Hraða skal málum þar sem sakarefni tekur til líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis. Í sérstökum forgangi skulu þó vera nauðgunarmál, mál sem varða ofbeldi gagnvart börnum og ofbeldi í nánum samböndum sem og mál þar sem gerendur eru yngri en 18 ára.

1. janúar og 30 júní ár hvert skulu héraðssaksóknari og lögreglustjórar senda ríkissaksóknara lista yfir stöðu mála og málsmeðferðartíma vegna rannsóknar og ákærumeðferðar í nauðgunarmálum (194. gr. alm. hgl.), alvarlegum kynferðisbrotum gegn börnum (1. mgr. 200. gr., 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. alm. hgl.) og í málum sem varða ofbeldi í nánum samböndum (218. gr. b. alm.hgl.).

Rannsókn fjármuna- og efnahagsbrota er annars eðlis en rannsókn ofbeldis- og kynferðisbrota en sönnunargögn liggja þar mun meira skriflega fyrir en í hinum fyrrnefndu málaflokkum. Efnahagsbrot eru iðulega umfangsmikil og flókin og rannsókn þeirra getur teygt sig á milli landa. Því er almennt viðurkennt að þau geti tekið mun lengri tíma en önnur mál. Mikilvægast er hins vegar að unnið sé að rannsókn þessara mála með eðlilegum hraða og að ekki myndist óútskýrðar eyður í rannsókninni.
1. janúar og 30. júní ár hvert skal héraðssaksóknari senda ríkissaksóknara heildaryfirlit yfir stöðu mála á saksóknarsviði II (efnahagsbrot).

Héraðssaksóknari og lögreglustjórar skulu eigi sjaldnar en árlega setja sér markmið um meðferð sakamála, bæði um vönduð og markviss vinnubrögð við rannsóknir einstakra mála og ekki síður um málshraða. Markmiðssetning skal send ríkissaksóknara til samþykktar.

Markmið ákæruvaldsins er að tryggja málsmeðferð þar sem saman fara gæði og eðlilegur hraði við rekstur máls. Með því er verið að sinna þeirri meginskyldu laga og kröfu samfélagsins um að afbrotamenn verði beittir lögmæltum viðurlögum.

Ráðstafanir til að stytta meðferðartíma mála mega aldrei vera á kostnað gæða og réttaröryggis.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl