Fyrirmæli

Meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaðan sakborning og/eða brotaþola er að ræða

RS: 3/2018

 • Útgáfudagur:
  2. október 2018
 • Gildistaka:
  2. október 2018

  Uppfært: 
  31. mars 2023
 • RS: 3/2018

Með hliðsjón af því sem fram kemur í meðfylgjandi skýrslu starfshóps sem ríkissaksóknari skipaði um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða, sem afhent var ríkissaksóknara í júní 2018, hefur ríkissaksóknari ákveðið að gefa út eftirgreindar leiðbeiningar til lögreglu og ákærenda um meðferð slíkra mála í því skyni að tryggja jafnræði hvað varðar aðgengi að réttarvörslukerfinu og málsmeðferð þegar fatlað fólk á í hlut. Bent er á að leiðbeiningar þessar geta einnig átt við um meðferð annarra mála þegar fatlaðir eiga hlut að máli.

Þegar upp kemur grunur um kynferðisbrot og sakborningur eða brotaþoli er fatlaður einstaklingur er mikilvægt að geta aðlagað rannsókn að hverju máli fyrir sig með það í huga að fatlað fólk er margbreytilegur hópur og þarfir hvers og eins mismunandi. Þá er jafnframt mikilvægt að taka ekki völdin af fólki, forðast forræðis- og verndarhyggju og virða vilja og óskir viðkomandi. Góður og vandaður undirbúningur fyrir skýrslutökur í slíkum málum skiptir mjög miklu máli og mikilvægt er að framkvæmdin sé með þeim hætti að sem skýrastur framburður fáist.

Skilgreining:

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er fötlun og fatlað fólk skilgreint með sambærilegum hætti og í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í ákvæðinu segir:

Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.

Fatlað fólk: Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.

Rannsókn kynferðisbrotamála þegar fatlaðir eiga í hlut:

 • Þegar lögregla hefur rannsókn á kynferðisbroti og grunur vaknar um, eða upplýsingar liggja fyrir um, að sakborningur eða brotaþoli sé fatlaður, þarf að afla eins ítarlegra upplýsinga og mögulegt er um fötlunina. Lögregla getur m.a. aflað upplýsinga hjá hinum fatlaða sjálfum, hjá réttindagæslumanni fatlaðra á hverju svæði fyrir sig, hjá lækni, félagsþjónustu eða öðrum meðferðaraðila eða hjá fjölskyldu hins fatlaða einstaklings. Þó þarf að gæta þess að málið kann að vera þannig vaxið að ekki sé rétt að afla slíkra upplýsinga hjá fjölskyldumeðlimi t.d. ef hagsmunir hans og hins fatlaða einstaklings fara ekki saman. Gæta þarf að því að samþykki sé til staðar fyrir öflun þessara gagna hjá sakborningi eða brotaþola sjálfum eða þeim sem eru bærir til að veita samþykki fyrir þeirra hönd.
 • Meta þarf hvort fötlun sakbornings eða brotaþola kalli á sérstakar ráðstafanir af hálfu lögreglu. Meðal annars getur komið til greina að óska eftir því að skýrslutaka verið tekin fyrir dómi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 59. gr. sml. Þá kann að vera til hagsbóta að taka skýrsluna annars staðar en á lögreglustöð. Ef taka á skýrslu á lögreglustöð skal meta hvort það sé gert í sérútbúnu skýrslutökuherbergi þar sem slíkt er fyrir hendi. Þegar um mikla fötlun er að ræða getur komið til greina að rannsakandi hitti hinn fatlaða einstakling áður en formleg skýrslutaka fer fram. Eftir atvikum getur verið nauðsynlegt að rannsakandi fái fræðslu frá fagaðila um fötlun viðkomandi áður en skýrslutaka fer fram eða jafnvel að fagaðili sé viðstaddur skýrslutökuna. Það er þó alltaf rannsakandi sem stýrir skýrslutökunni og spyr spurninga.
 • Tryggja þarf aðkomu verjanda og/eða réttargæslumanns á fyrstu stigum. Þegar taka á skýrslu af fötluðum brotaþola eða sakborningi skal eftir atvikum bjóða honum að hafa með sér hæfan stuðningsaðila. Gæta þarf þess að stuðningsaðilinn sé ekki vitni í málinu og er hlutverk slíks stuðningsaðila eingöngu að veita andlegan og tilfinningalegan stuðning. Stuðningsaðili getur verið réttindagæslumaður fatlaðs fólks, félagsráðgjafi, annar aðili með sérþekkingu á málefnum fatlaðs fólks eða aðili sem hinn fatlaði treystir.
 • Liggi ekki fyrir nýlegar upplýsingar eða mat á fötlun þarf að kanna hvort ástæða sé til þess að óska eftir nýju mati. Jafnframt þarf að meta hvort rétt sé að dómkveðja matsmann í því skyni. Er þetta sérstaklega mikilvægt þegar rannsókn beinist að því hvort fatlaður einstaklingur hafi orðið fyrir kynferðisbroti með því að sakborningur hafi misnotað sér fötlun hans. Einnig er nauðsynlegt að afla þessara upplýsinga þegar vafi leikur á því hvort sakborningur telst sakhæfur.
 • Eftir atvikum er rétt að taka ítarlegar skýrslur af þeim sem standa hinum fatlaða einstaklingi næst til að fá sem besta innsýn í atvik máls og aðstæður. Þetta geta verið foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir, starfsfólk í búsetuúrræði, ráðgjafar o.s.frv.
 • Í þeim tilvikum þar sem fötlun er mikil, sérstaklega þegar um mikla þroskahömlun eða skyldar skerðingar, s.s. einhverfu, er að ræða, getur komið til greina að fá réttarsálfræðilegt mat á þroska viðkomandi og framburði hans.

Með lögum nr. 61/2022 voru lögfest ákvæði í lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 sem kveða á um að bjóða skuli fötluðum sakborningi og vitni að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi. Einnig var lögfest heimild dómara til að kveðja til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku af fötluðu vitni. Sjá 1. og 2. mgr. 61. gr., 1. mgr. 113. gr. og 2. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl