Fyrirmæli

Meðferð mála gegn börnum yngri en 15 ára

RS: 9/2009

 • Útgáfudagur:
  5. september 2009
 • Gildistaka:
  5. september 2009
 • RS: 9/2009
  Kemur í stað RS: 3/2001

1. Almenn atriði

Samkvæmt 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telst barn sakhæft við lok 15. afmælisdags. Börn sem ekki hafa náð þeim aldri bera ekki refsiábyrgð og verður ekki refsað fyrir brot sín. Þá teljast þau ekki sakborningar í skilningi laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Lögreglu ber engu að síður að rannsaka brot ósakhæfra barna m.a. til þess

 • að leiða í ljós umfang brots
 • að ganga úr skugga um hvort aðrir kunna að eiga þátt í broti
 • að unnt verði að hafa uppá og/eða skila hlutum sem hafa verið andlag brots
 • að leitast við að stuðla að velferð barna og ungmenna.

Samkvæmt 20. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er lögreglu skylt að hafa samstarf við barnaverndarnefndir og veita aðstoð við úrlausn mála.

2. Skýrslutaka/viðtal hjá lögreglu

 • Heimilt er að taka skýrslu af barni yngra en 15 ára.
 • Tilkynna ber um væntanlega skýrslutöku til barnaverndarnefndar sem getur sent fulltrúa til að vera viðstaddan hana. Geti bið eftir fulltrúa barnaverndarnefndar spillt rannsókn máls má byrja skýrslutöku án viðveru hans, sbr. 61. gr. laga um meðferð sakamála og 18. gr. barnaverndarlaga.
 • Lögregla skal einnig gera foreldri eða forsjármanni viðvart og mega þau vera viðstödd skýrslutökuna, nema hagsmunir barnsins eða rannsóknarhagsmunir standi því í vegi, sbr. 1. og 6. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl.
 • Gæta skal fyllstu tillitssemi þegar tekin er skýrsla af barni. Skýrslutakan skal fara fram við aðstæður sem hæfa, sbr. 6. gr. sömu reglugerðar.
 • Gera skal skýrslu um skýrslutökuna með venjulegum hætti, sbr. 66. gr. laga um meðferð sakamála, en ekki er ástæða til að leita eftir undirritun barnsins. Heimilt er að hljóðrita skýrslu eða taka hana upp á myndband og kann það að vera æskilegt þegar skýrsla er tekin án viðveru fulltrúa barnaverndarnefndar, foreldris eða forsjáraðila.
 • Æskilegt er að skýrslutakan sé í formi viðtals þar sem barnið er beðið um að segja satt og rétt frá, en hafa skal í huga að börn hafa ekki eiginlega stöðu sakbornings, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga um meðferð sakamála.
 • Í lok skýrslutöku er æskilegt að foreldrum/forráðamanni sé kynnt að nú sé afskiptum lögreglu lokið og mál barnsins sett til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum.

3. Þvingunarúrræði

Þvingunarúrræðum við rannsóknir sakamála verður almennt ekki beitt gagnvart börnum yngri en 15 ára nema í algjörum undantekningartilvikum, enda sé þá skýr og ótvíræð lagaheimild fyrir hendi. Það er t.d. skilyrði fyrir beitingu gæsluvarðhalds að sakborningur hafi náð 15 ára aldri, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála.

3.1 Handsömun

Þótt ósakhæft barn verði yfirleitt ekki beitt þvingunarúrræðum í þágu rannsóknar sakamáls er heimilt að handsama barn og færa það án samþykkis þess á lögreglustöð, eða annan viðeigandi stað, í því skyni að taka skýrslu af barninu um brot sem það er talið hafa framið eða taka það úr umferð vegna hegðunar þess á almannafæri.

Almenn skilyrði handsömunar

Forsenda þess að barn yngra en 15 ára, sem grunað er um refsiverða háttsemi, verði handsamað er að handtökuskilyrðum sé fullnægt og að rannsóknarhagsmunir og/eða hagsmunir barnsins krefjist eða mæli eindregið með að svo verði gert. Handsömun skal standa eins skamman tíma og unnt er og alls ekki lengur en nauðsynlegt er í þágu málsrannsóknar og/eða til þess að tryggja að barnið komist í umsjá rétts aðila.

Vistun og valdbeiting við handsömun

Barn yngra en 15 ára, sem hefur verið handsamað, skal flutt í venjulegt skrifstofuherbergi eða í aðra áþekka aðstöðu. Ekki má færa það í biðstofu eða húsrými þar sem handteknir eru vistaðir til bráðabirgða nema önnur aðstaða sé ekki fyrir hendi. Ekki skal vista barn yngra en 15 ára í fangageymslu eða beita handjárnum eða öðrum búnaði sem lögreglan notar við valdbeitingu, nema brýna nauðsyn beri til og önnur úrræði verið fullreynd.

3.2 Önnur þvingunarúrræði laga um meðferð sakamála

Barn yngra en 15 ára þarf að þola haldlagningu skv. IX. kafla laga um meðferð sakamála.

Þáer heimilt að beita þvingunarúrræðum laga um meðferð sakamála, sem unnt er að beita gagnvart þeim sem ekki eru sakaðir í máli, gagnvart börnum yngri en 15 ára s.s. húsleit og líkamsleit, sbr. 78. og 79 gr. laganna.

4. Upplýsingar til barnaverndarnefndar við lok rannsóknar

Nú kemur fram við rannsókn að barn hafi gerst sekt um refsiverða háttsemi, skal gera barnaverndarnefnd grein fyrir málavöxtum að lokinni rannsókn, allt í samræmi við óskir nefndarinnar. Heimilt er að láta barnaverndarnefnd í té afrit rannsóknargagna enda varði þau beinlínis brot hins ósakhæfa barns, sbr. 44. gr. barnaverndarlaga.

5. Upplýsingar til brotaþola

Veita skal brotaþola upplýsingar um meðferð máls í samræmi við fyrirmæli 40. gr. laga um meðferð sakamála þótt ekki verði talið að ákvæði V. kafla laga um meðferð sakamála eigi beinlínis við þegar rannsakað er brot ósakhæfs barns.

6. Einkaréttarkröfur

Hafa skal í huga að ákvæði XXVI. kafla laga um meðferð sakamála, um einkaréttarkröfur, eiga ekki við um mál barns sem er ósakhæft sökum aldurs.

 

Valtýr Sigurðsson

Tengd skjöl