Fyrirmæli

Meðferð skattalagabrota

RS: 6/2021

 • Útgáfudagur:
  25. ágúst 2021
 • Gildistaka:
  25. ágúst 2021
 • RS: 6/2021
 1. Skattrannsóknastjóri annast frumrannsókn allra skattalagabrota og aflar allra nauðsynlegra gagna áður en tekin er ákvörðun um hvort máli skuli vísað til lögreglu.
 1. Máli skal vísað til lögreglu að lokinni frumrannsókn skattrannsóknarstjóra þegar:
  1. rökstuddur grunur er um að fjárhæð samanlagðra vangreiddra og eða undandreginna skatta og eða gjalda vegna refsiverðra skattalagabrota nemi hærri fjárhæð en samtals 50 milljónum króna.
  2. rökstuddur grunur er um að verknaður hafi verið framinn með sérstaklega vítaverðum hætti, eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins, enda þótt fjárhæð samkvæmt 2. gr. a. nemi lægri fjárhæð en 50 milljónum króna.
  3. fyrir liggur að aðili hafi áður verið dæmdur sekur fyrir sams konar brot, þrátt fyrir að fjárhæð samkvæmt 2. gr. a. nemi lægri fjárhæð en 50 milljónum króna, enda séu ítrekunaráhrif ekki fallin niður samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1940. Það sama á við ef aðila hefur innan fimm ára frá því að ætlað brot er framið verið úrskurðuð sekt af yfirskattanefnd eða ákvörðuð sekt af skattrannsóknarstjóra vegna slíkra brota.
 1. Máli skal ekki vísað til lögreglu þegar þau viðmið eru uppfyllt er fram koma í 3. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, 3. mgr. 20. gr. laga nr. 94/1996 eða 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, enda þótt undandreginn eða vangreiddur skattur samkvæmt 2. gr. a. nemi hærri fjárhæð en 50 milljónum króna, svo fremi að ætluð sekt samkvæmt ákvörðun skattrannsóknarstjóra nemi ekki hærri fjárhæð en 100 milljónum króna.
 1. Skattrannsóknarstjóri og embætti héraðssaksóknara skulu hafa samráð um hvaða mál sæta rannsókn lögreglu. Ef upp kemur ágreiningur um hvaða mál skuli sæta rannsókn lögreglu sker ríkissaksóknari úr þeim ágreiningi.

Ofangreind fyrirmæli til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra eru sett á grundvelli 2. mgr. 103 gr. og 2. mgr. 121. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 29/2021, um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn vegna skattalagabrota. Við setningu fyrirmælanna var horft til eftirfarandi ummæla í greinargerð með frumvarpi að lögum 29/2021, sem héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra ber einnig að líta til við meðferð skattalagabrota:

Lagt er til að ríkissaksóknari gefi út almenn fyrirmæli á grundvelli 21. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þar sem fram komi hvaða mál séu þess eðlis að rétt sé að þau verði send til rannsóknar hjá lögreglu. Við útgáfu þeirra fyrirmæla yrði stefnt að því að alvarlegri brotin yrðu rannsökuð hjá héraðssaksóknara og þar höfð hliðsjón af lögfestum heimildum skattrannsóknarstjóra til að leggja á sektir. Til viðbótar er rétt að taka fram að þar falli undir alvarleg brot gagnvart 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 en að auki yrði litið til þess hvort önnur brot sem ekki teldust stórfelld væru fléttuð saman við önnur alvarlegri brot, væru hluti af brotasamsteypu eða um væri að ræða ítrekuð brot sem eðlilegt er að færu til rannsóknar héraðssaksóknara.

Almennt verður að gera ráð fyrir að vanskilamálum yrði lokið innan skattkerfisins, þó með þeirri undantekningu að þau væru ekki ítrekuð eða teldust stórfelld. Með þessari breytingu er stefnt að því að færri brot fari til rannsóknar lögreglu. Þannig er gert ráð fyrir að sé um alvarleg brot að ræða verði þau almennt ekki tekin til rannsóknar hjá skattyfirvöldum en ekki er þó útilokað að við rannsókn skattrannsóknarstjóra komi í ljós að brot kynni að falla undir fyrirmæli ríkissaksóknara og er gert ráð fyrir því að málið geti verið sent til lögreglu þegar svo háttar til.

Jafnframt er gert ráð fyrir því að í einstökum tilvikum fari ríkissaksóknari með úrslitavald um ákvörðun þess hvort mál hljóti meðferð hjá lögreglu, rísi vafi um slíkt. Í frumvarpinu er því lagt til að ríkissaksóknari geti gefið skattrannsóknarstjóra fyrirmæli um að vísa einstökum málum til lögreglu, sem honum bæri að hlíta. Er þetta orðalag í samræmi við 3. mgr. 21. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

 

 

 

 

Tengd skjöl