Fyrirmæli

Rannsóknaráætlanir og greining sakamála

RS: 2/2018

  • Útgáfudagur:
    8. júní 2018
  • Gildistaka:
    8. júní 2018
  • RS: 2/2018

1. Inngangur

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að gefa út fyrirmæli þessi um gerð rannsóknaráætlana og greiningu sakamála til þess að samræma verklag hvað þessi atriði varðar og auðvelda þeim sem bera ábyrgð að hafa eftirlit með rannsóknum sakamála.

Nauðsynlegt er, til þess að tryggja þessa skipan, að lögreglustjórar ákveði í upphafi rannsóknar hvers máls hverjir hjá embætti þeirra séu ábyrgir ákærendur og lögreglufaglegir rannsóknarstjórnendur (aðalrannsakarar). Í samræmi við fyrirmæli þessi skal það koma fram í rannsóknaráætlun hverjir gegna þessu hlutverki í hverju máli og að það sé jafnframt skráð í málaskrárkerfi.

Rannsóknaráætlun skal vera skrifleg greinargerð þar sem fram koma upplýsingar um atvik máls, heiti brots og heimfærslu háttseminnar sem rannsókn beinist að til refsiákvæða. Í rannsóknaráætlun skal því lýst hvað gera þarf, hver framkvæmi það, hvernig og af hverju, allt í því skyni að ná tilteknum markmiðum innan tilsetts tímaramma.

Ábyrgur ákærandi í hverju máli er sá sem er ábyrgur fyrir að tryggja framgang og gæði rannsóknar sakamáls, þ.e.a.s. að rannsókn verði sá grundvöllur sem mælt er fyrir um í 53. gr. sakamálalaga nr. 88/2008, sem og að öðrum ákvæðum sakamálalaga og mannréttindaákvæðum sé fylgt.

Aðalrannsakari er lögreglumaður sem að mati lögreglustjóra hefur hlotið þjálfun og reynslu til þess að stjórna aðgerðarlegri og tæknilegri framkvæmd rannsókna í því máli sem um ræðir. Hann er ábyrgur ásamt ákæranda fyrir framgangi og gæðum rannsóknarinnar.

2. Markmið

Meginmarkmiðið með rannsóknaráætlun er að ná sem bestum árangri í rannsókn sakamáls með notkun viðeigandi úrræða, mannafla og tíma.

Rannsóknaráætlun á að leiða til betri faglegrar stjórnunar og eftirlits með framvindu máls frá því að kæra berst þar til málið er tilbúið til ákærumeðferðar.

Notkun rannsóknaráætlunar er grunnur að vandaðri ákvarðanatöku og þar með auknum gæðum rannsókna, styttri málsmeðferðartíma og réttri niðurstöðu.

3. Tegundir mála

3.1 Almennt

Allar lögreglurannsóknir eiga að vera markmiðsstýrðar og ganga samkvæmt áætlun. Það ræðst af því hversu stórt og flókið mál er hversu umfangsmikil og nákvæm áætlunin þarf að vera.

3.2 Mál þar sem ber að gera rannsóknaráætlun

Rannsóknaráætlun ber að gera við rannsókn á manndrápum, nauðgunarbrotum, kynferðisbrotum gegn börnum, brotum í nánum samböndum, mansali, stórfelldum fíkniefnabrotum, skipulagðri glæpastarfsemi sem hefur alþjóðlegar tengingar, málum sem varða alvarlegar líkamsárásir, efnahagsbrotum og stærri fjármunabrotum.

Undanskilin eru mál sem eru svo einföld og augljós að gerð rannsóknaráætlunar er talin algerlega ónauðsynleg að mati ákæranda og aðalrannsakara. Ákvörðun um að ekki skuli gera rannsóknaráætlun skal liggja fyrir skriflega, s.s. með skráningu í LÖKE. Breytist aðstæður og málið reynist vera flóknara en í upphafi var talið skal gera rannsóknaráætlun.

4. Form rannsóknaráætlunar

Rannsóknaráætlun skal vera skrifleg og á því formi sem fylgir fyrirmælum þessum en formið einnig aðgengilegt í LÖKE.

Rannsóknaráætlun er innanhúss vinnuskjal og ekki hluti af rannsóknargögnum máls.

 

5. Hvenær áætlun og greining skal liggja fyrir

Rannsóknaráætlun og greining sakamáls skal gerð eins fljótt og mögulegt er eftir að kæra hefur verið móttekin eða eftir að lögregluembætti hefur stofnað til sakamáls að eigin frumkvæði.

Rannsóknaráætlun skal vera skjal sem unnt er að uppfæra og breyta í samræmi við framvindu máls. Við greiningu sakamáls skal m.a. litið til þess hvort atvik máls séu með þeim hætti að lögregla eigi tafarlaust að bregðast við vegna rannsóknarhagsmuna eða til að koma í veg fyrir frekari brot, m.a. með því að gera öðrum yfirvöldum, s.s. barnaverndaryfirvöldum, viðvart um atvik að því marki sem lög heimila.

6. Gerð og uppfærsla rannsóknaráætlunar

Ákærandi er, ásamt aðalrannsakara, ábyrgur fyrir því að gerð sé rannsóknaráætlun og á að hafa aðgang að áætluninni alla málsmeðferðina.

Rannsóknaráætlun á að gera og uppfæra í nánu samstarfi ábyrgs ákæranda í málinu og aðalrannsakara málsins. Að öllu jöfnu er það aðalrannsakari sem ritar rannsóknaráætlunina.

7. Efni og innihald

Rannsóknaráætlanir verða að lágmarki að fela í sér eftirfarandi:
7.1 Greining á þeim atvikum sem rannsókn á að beinast að.
7.2 Viðeigandi refsiákvæði sbr. liður 1.
7.3 Grundvallaratriði sett fram af ákæranda um sönnun í samræmi við þau refsiákvæði sem við eiga.
7.4 Yfirlit yfir nauðsynleg skref rannsóknarinnar með tilliti til sönnunar, þ.m.t. þvingunarráðstafanir, og eðlilegrar forgangsröðunar í þágu rannsóknarinnar.
7.5 Yfirlit yfir verkefni rannsakenda og ákærenda, hvenær framkvæma eigi hvert verkefni og innan hvaða tímamarka. Ef tímamörk eru ekki haldin skal skrá ástæðu þess og hvaða áhrif það hefur fyrir málið.
7.6 Þörf á gögnum frá utanaðkomandi aðilum (sérfræðiálit/matsgerðir, læknisvottorð o.þ.h.) skal setja inn í rannsóknaráætlunina, ásamt upplýsingum um hvernig því sé fylgt eftir að afla þeirra.
7.7 Setja skal tímafrest um það hvenær vænta megi að rannsókn ljúki og ákvörðun um það hver hafi umsjón með því að öllum verkþáttum sé lokið, þar með talið skjallegum frágangi málsins.
7.8 Það skal koma fram í áætluninni hver taki við ábyrgð á framgangi málsins ef/þegar ákærandi eða aðalrannsakari er fjarverandi.

8. Skýrslutökur

Framburður sakbornings og vitna er í flestum málum þýðingarmestu rannsóknargögnin. Áætlanir um skýrslutökur skulu vera hluti af sérhverri rannsóknaráætlun.

Góður og ígrundaður undirbúningur að skýrslutöku sparar tíma og eykur gæði og afrakstur skýrslutökunnar, auk þess sem vel undirbúin skýrslutaka tryggir faglegri yfirheyrsluskýrslu.

Yfirheyrandi skal hafa góða þekkingu á staðreyndum í málinu, viðeigandi refsiákvæðum og helstu sönnunaratriðum. Fyrir skýrslutöku þarf yfirheyrandi að hafa skilning á:

  • markmiði skýrslutöku
  • því sem þarf að upplýsa
  • því sem bera þarf sérstaklega undir, kynna og gagnspyrja þann um sem er yfirheyrður.

Í mikilvægum og krefjandi skýrslutökum er æskilegt að yfirheyrandi ráðfæri sig við ábyrgan ákæranda í málinu um framgang yfirheyrslu og form yfirheyrslu.

Það á að vera markmið við rannsóknir sakamála að takmarka fjölda yfirheyrsluskýrslna. Því markmiði verður helst náð með góðu skipulagi hverrar skýrslutöku.

9. Bjargir

Mannafli eða mannaflaþörf, tæki, búnaður og annað þess háttar, skal vera hluti af rannsóknaráætlun. Skipulagning og möguleiki á að sjá fyrir sér gang og þróun málsins er þýðingarmikið fyrir stjórnun og skipulag á mannafla. Aðalrannsakari skal skilgreina eins fljótt og mögulegt er mannaflaþörf við rannsókn máls. Brýnt er að endurmeta bjargir um leið og tilefni er til.

Tengd skjöl