Fyrirmæli

Sáttamiðlun

RS: 8/2017

 • Útgáfudagur:
  25. janúar 2017
 • Gildistaka:
  25. janúar 2017
 • RS: 8/2017
  Kemur í stað RS: 1/2011

I. Inngangur

1. Tilraunaverkefni um sáttamiðlun

Tveggja ára tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum hófst 1. október 2006 og stóð til 30. september 2008. Í tengslum við tilraunverkefnið var ríkissaksóknara falið af dómsmálaráðherra að útfæra tiltekna þætti, þ.e. skilyrði slíkrar meðferðar, til hvaða brota hún skuli ná, aldursmörk einstaklinga sem eiga kost á henni, tímamörk sem henni eru sett og hvernig henni skuli lokið.

Nefnd dómsmálaráðherra sem skipuð var til að samræma aðgerðir þeirra sem að til­rauna­verkefninu komu auk þess sem nefndin hafði eftirlit með verkefninu og skilaði loka­skýrslu þar sem helstu niðurstöður að verkefni loknu er að finna.

Lögreglumenn sem hlotið höfðu sérstaka þjálfun önnuðust sáttamiðlun og gaf dóms­málaráðuneytið út handbók þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd sáttamiðlunar. Með bréfi dómsmála- og mannréttindaráðherra til ríkissaksóknara, dags. 30. septem­ber 2010 kemur fram að ráðuneytið telur að sáttamiðlun eigi að geta orðið varanlegur hluti af íslenska réttarkerfinu og er á það bent að úrræðið hafi lagastoð í 146. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

2. Uppbyggileg réttvísi. Sáttamiðlun

Uppbyggileg réttvísi (e. restorative justice) er heiti hugmyndafræði sem felur í sér að leitast er við að ná sáttum á milli brotamanns og brotaþola í kjölfar afbrots. Sátta­miðlun (e. mediation, d. mægling) er sú aðferð sem oftast er beitt við þetta. Í sátta­miðlun felst að brotamaður og brotaþoli eru leiddir saman í því skyni að koma hinum brot­lega í skilning um þau rangindi sem hann hefur viðhaft og fá hann til að frið­mælast við brotaþola með það fyrir augum að þeir komist að samkomulagi um mála­lok.

Verkefni um sáttamiðlun byggir á tillögum nefndar dómsmálaráðherra um tilrauna­verkefnið Hringinn og ný úrræði vegna afbrota ungmenna, sem koma fram í skýrslu nefndar­innar 21. apríl 2004. Í skýrslunni eru kostir úrræðisins m.a. taldir eftirfarandi:

”Í fyrsta lagi má nefna að úrlausn minni háttar mála er færð til einstaklinganna sjálfra, sem gefur möguleika á skjótvirkari meðferð mála frá því sem nú er. Á sama tíma er ákveðinn þungi tekinn af ákæruvaldinu.

Í öðru lagi er réttarstaða brotaþola styrkt. Brotaþoli á beina aðild að ákvörðunartöku um hvernig málinu er lokið. Hlutaðeigandi fá veigameira hlutverk en verið hefur við lúkningu slíkra mála.

Hafi brotaþoli orðið fyrir sálrænu áfalli við verknaðinn, getur það flýtt fyrir bata að hann fái að tjá sig við brotamanninn um það tilfinningalega ójafnvægi sem brotið hefur valdið. Brotaþoli kann að hafa gert sér ákveðnar hugmyndir bæði um persónu og útlit brotamanns, sem ekki á sér stoð í raunveruleikanum. Sáttaumleitun getur verið liður í því að aðstoða brotaþola að komast yfir ótta, hræðslu og hina tilfinningalegu röskun sem gjörðir brotamanns ollu.

Í þriðja lagi má nefna að samleiðing brotamanns og brotaþola til að ljúka málum með þessum hætti er líklegri til að hafa sérstök varnaðaráhrif á brotamann en hinar hefðbundnu aðferðir. Með sáttaumleitun þarf brotamaður að sitja andspænis þeim einstaklingi sem hann braut gegn og útskýra gjörðir sínar og komast í framhaldinu að samkomulagi við brotaþola. Er það vel til þess fallið að hann skilji betur þær afleiðingar sem hann hefur haft á brotaþola.

Í fjórða lagi er brotaþola og brotamanni fullkomlega frjálst að ákveða hvernig þeir vilja ljúka málinu, svo framarlega sem samningurinn er sanngjarn fyrir báða aðila. Þá er það góður kostur fyrir brotamann að brotið leiði ekki til saksóknar og upplýsingar um lok málsins með sáttaumleitun verða ekki færðar á sakaskrá.”

Að mati nefndarinnar er sáttamiðlun mjög álitlegur kostur vegna brota ungra afbrota­manna. Með sáttamiðlun gefist aukið tækifæri á því að bregðast við brotum ung­menna á uppbyggilegan hátt þannig að þau standi frammi fyrir afleiðingum gerða sinna og axli ábyrgð á þeim. Þykir þetta vera til þess fallið að hafa aukin varnaðar- og upp­eldisáhrif á viðkomandi ungmenni.

II. Þáttur ákæranda í sáttamiðlun

1. Inngangur

Ákærandi við embætti lögreglustjóra eða héraðssaksóknara kannar hvort sakarefni og um­búnaður máls uppfylli skilyrði til að vísa megi því til sáttamiðlunar.

 

2. Sakarefni

Ákærandi getur vísað málum vegna eftirgreindra brota gegn almennum hegningar­lögum nr. 19/1940 (alm. hgl.) til sáttamiðlunar að öðrum skil­yrðum upp­fylltum:

 • Þjófnaðar (244. gr. alm. hgl.)
 • Gripdeildar (245. gr. alm. hgl.)
 • Húsbrots (231. gr. alm. hgl.)
 • Hótunar (233. gr. alm. hgl.)
 • Eignaspjalla (257. gr. alm. hgl.)
 • Minniháttar líkamsárásar (217. gr. alm. hgl.)
 • Nytjastuldar (259. gr. alm. hgl.)
 • Brot gegn blygðunarsemi (209. gr. alm. hgl.)

Ákærandi metur hvort mál, sakarefni og málavextir, er til þess fallið að verða vísað til sátta­miðlunar. Við matið skiptir miklu að sérstök varnaðaráhrif mæli með slíkri með­ferð og að almenn varnaðaráhrif mæli því ekki sérstaklega í mót.

3. Önnur skilyrði þess að máli verði vísað til sáttamiðlunar

Ákærandi má vísa máli til sáttamiðlunar ef;

 1. málinu yrði annars lokið með skilorðsbundinni ákærufrestun eða
 2. ætla má að refsing við brotinu færi ekki fram úr sektum eða skilorðsbundnu fangelsi.

Máli verður því aðeins vísað til sáttamiðlunar;

 1. að gerandi hafi játað brot og að málið sé talið nægilega upplýst og
 2. að gerandi og brotaþoli hafi samþykkt að málinu verði vísað til sátta­miðlunar. Ef gerandi eða brotaþoli er yngri en 18 ára skal lögráðamaður sam­þykkja að málið hljóti þessa meðferð.

4. Aldursmörk

Tiltekið aldurshámark geranda er ekki gert að skilyrði sáttamiðlunar, en áréttað skal að sáttamiðlun er sérstaklega æskilegur kostur í málum vegna brota ungmenna 15 - 21 árs.

5. Lok sáttamiðlunar

Sáttamaður tilkynnir ákæranda um málalok.

Ef sættir takast skal gert um það skriflegt samkomulag. Á grundvelli staðfestingar sátta­manns um efndir slíks samkomulags má ákærandi falla frá saksókn á grundvelli b. liðar 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála.

Takist sættir ekki ber sáttamanni að endursenda ákæranda málið. Tekur ákærandi málið þá til viðeigandi meðferðar samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

6. Tímamörk

Ákvörðun ákæranda um að vísa máli til sáttamiðlunar skal að jafnaði liggja fyrir ekki síðar en 30 dögum eftir að mál berst lögreglu.

Sáttamaður skal ljúka meðferð máls innan þriggja vikna frá þeim tíma, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.

Að fenginni tilkynningu sáttamanns um efndir samkomulags skal ákærandi ljúka máli tafarlaust og tilkynna um málalok samkvæmt 147. gr. laga um meðferð sakamála.

Hafi tilkynning um lok sáttameðferðar ekki borist ákæranda innan fjögurra vikna frá því máli var vísað til sáttameðferðar ber ákæranda að taka málið til viðeigandi af­greiðslu samkvæmt lögum um meðferð sakamála og tilkynna það sáttamanni.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl