Fyrirmæli

Sáttamiðlun

RS: 1/2023

  • Útgáfudagur:

    31. mars 2023

  • Gildistaka:

    31. mars 2023

  • RS:1/2023
    Kemur í stað RS: 2/2021

I. Um sáttamiðlun

Uppbyggileg réttvísi (e. restorative justice) er heiti hugmyndafræði sem felur í sér að leitast er við að ná sáttum á milli brotamanns og brotaþola í kjölfar afbrots. Sátta­miðlun (e. mediation, d. mægling) er sú aðferð sem oftast er beitt við þetta. Í sátta­miðlun felst að brotamaður og brotaþoli eru leiddir saman í því skyni að koma hinum brot­lega í skilning um þau rangindi sem hann hefur viðhaft og fá hann til að frið­mælast við brotaþola með það fyrir augum að þeir komist að samkomulagi um mála­lok.

Sáttamiðlun er mikilvæg í tilvikum þegar ungir einstaklingar eru grunaðir eða kærðir fyrir afbrot. Með sáttamiðlun gefist aukið tækifæri á því að bregðast við brotum ung­menna á uppbyggilegan hátt þannig að þau standi frammi fyrir afleiðingum gerða sinna og axli ábyrgð á þeim. Þykir þetta vera til þess fallið að hafa aukin varnaðar- og upp­eldisáhrif á viðkomandi ungmenni. Þá er það ekki síður til þess fallið að fá hlut brotaþola réttan þannig að tekið sé tillit til stöðu hans og brotaþoli fái viðurkenningu þess sem brotið hefur á honum á brotinu og að viðkomandi óski þess að sættir verði málalok.

Sáttamiðlun í sakamálum skal standa til boða í umdæmum allra lögreglustjóra.

II. Framkvæmd sáttamiðlunar

1. Inngangur

Ábyrgur ákærandi og lögreglufaglegur rannsóknarstjórnandi hvers máls skulu við greiningu og ákvörðun um meðferð máls, sbr. fyrirmæli RS: 2/2018 um rannsóknaráætlanir, kanna hvort sakarefni og umbúnaður máls uppfylli skilyrði til að vísa því til sáttamiðlunar. Ef þau skilyrði eru fyrir hendi er málinu úthlutað til verkefnastjóra sáttamiðlunar, en tilnefna skal a.m.k. einn slíkan við hvert lögregluembætti. Hlutverk verkefnastjóra sáttamiðlunar er að halda utan um sáttamiðlun almennt hjá embættinu, vera sáttamaður og útdeila verkefnum til annarra sáttamanna þar sem það á við. Nánar er fjallað um val á sáttamönnum, þjálfun þeirra og hlutverk í verklagsreglum ríkislögreglustjóra.

2. Sakarefni

Ákærandi metur hvort mál, sakarefni og málavextir, er til þess fallið að verða vísað til sátta­miðlunar. Við matið skiptir miklu að sérstök varnaðaráhrif mæli með slíkri með­ferð og að almenn varnaðaráhrif mæli því ekki sérstaklega í mót. Sáttamiðlun kemur sérstaklega til greina í málum vegna brota á eftirgreindum ákvæðum almennra hegningar­laga nr. 19/1940 (alm. hgl.) en ekki er um tæmandi talningu að ræða:

· Þjófnaður (244. gr. alm. hgl.)
· Gripdeild (245. gr. alm. hgl.)
· Ólögleg meðferð á fundnu fé (246. gr. alm. hgl.)
· Húsbrot (231. gr. alm. hgl.)
· Hótun (233. gr. alm. hgl.)
· Eignaspjöll (257. gr. alm. hgl.)
· Minniháttar líkamsárás (217. gr. alm. hgl.)
· Líkamsárás (1. mgr. 218. gr. alm. hgl.)
· Nytjastuldur (259. gr. alm. hgl.)
· Kynferðisleg áreitni (199. gr. alm. hgl.)
· Kynferðisleg friðhelgi (199.gr. a. alm. hgl.)
· Brot gegn blygðunarsemi (209. gr. alm. hgl.)

Áréttað er að samkvæmt 5. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 getur ákærandi sent mál til ríkissaksóknara til ákvörðunar leiki vafi á heimild til þess að falla frá saksókn. Sáttamiðlun verður ekki beitt í málum sem varða brot á ákvæðum XXII. kafla alm. hgl., öðrum en 199. gr., 199.gr. a. og 209. gr. laganna, nema að fenginni heimild ríkissaksóknara. Sáttamiðlun verður almennt ekki beitt þegar mikill aðstöðumunur er á milli sakbornings og brotaþola, s.s. vegna aldurs og þroska.

3. Önnur skilyrði þess að máli verði vísað til sáttamiðlunar

Ákærandi má vísa máli til sáttamiðlunar ef;

a) málinu yrði annars lokið með skilorðsbundinni ákærufrestun eða
b) ætla má að refsing við brotinu færi ekki fram úr sektum, skilorðsbundnu fangelsi eða sex mánaða fangelsi.

Máli verður því aðeins vísað til sáttamiðlunar;

aa) að gerandi hafi játað brot og að málið sé talið nægilega upplýst og
ab) að gerandi og brotaþoli hafi samþykkt að málinu verði vísað til sátta­miðlunar. Ef gerandi eða brotaþoli er yngri en 18 ára skal lögráðamaður sam­þykkja að málið hljóti þessa meðferð.

4. Aldursmörk

Tiltekið aldurshámark geranda er ekki gert að skilyrði sáttamiðlunar, en áréttað skal að sáttamiðlun er sérstaklega æskilegur kostur í málum vegna brota ungmenna 15 - 21 árs.

5. Lok sáttamiðlunar

Sáttamaður tilkynnir ákæranda um málalok.

Ef sættir takast skal gert um það skriflegt samkomulag. Á grundvelli staðfestingar sátta­manns um efndir slíks samkomulags má ákærandi falla frá saksókn á grundvelli b. liðar 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála.

Takist sættir ekki ber sáttamanni að endursenda ákæranda málið. Tekur ákærandi málið þá til viðeigandi meðferðar samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

6. Tímamörk

Ákvörðun ákæranda um að vísa máli til sáttamiðlunar skal að jafnaði liggja fyrir ekki síðar en 30 dögum eftir að mál berst lögreglu. Sáttamaður skal ljúka meðferð máls innan 30 daga frá þeim tíma, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.

Að fenginni tilkynningu sáttamanns um efndir samkomulags skal ákærandi ljúka máli tafarlaust og tilkynna um málalok samkvæmt 147. gr. laga um meðferð sakamála.

Hafi tilkynning um lok sáttameðferðar ekki borist ákæranda innan fjögurra vikna frá því máli var vísað til sáttameðferðar ber ákæranda að taka málið til viðeigandi af­greiðslu samkvæmt lögum um meðferð sakamála og tilkynna það sáttamanni.

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

 

Tengd skjöl