Fyrirmæli

Siðareglur fyrir ákærendur

RS: 14/2017

  • Útgáfudagur:
    8. nóvember 2017
  • Gildistaka:
    8. nóvember 2017
  • RS: 14/2017

I. Inngangur

Óhlutdrægni, sjálfstæði og heilindi eru einkunnarorð ákæruvaldsins. Mikilvægt er að ákærendur standi undir trausti og virðingu almennings. Í því felst að ákærendur þurfa í störfum sínum að haga framkomu sinni og framgöngu á faglegan og viðeigandi hátt, auk þess sem ákærendur verða í frítíma sínum að forðast að gera nokkuð það sem varpað getur rýrð á störf þeirra hjá ákæruvaldinu eða á ákæruvaldið almennt.

Í því skyni að efla fagleg vinnubrögð og sjálfstæði ákæruvaldsins og auka traust gagnvart ákærendum gefur ríkissaksóknari út fyrirmæli þessi um siðareglur fyrir ákærendur. Siðareglurnar eru til fyllingar öðrum reglum um siði og faglega breytni í starfi, þar með talið Evrópskum leiðbeiningarreglum um siði og breytni opinberra ákærenda frá árinu 2005 „Búdapestreglurnar“, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, einkum 14., 15. og 21. gr., lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, sér í lagi III. kafla, sem og almennum siðareglum starfsmanna ríkisins nr. 491/2013.

Ætlast er til að ákærendur kynni sér siðareglurnar og leiðbeiningarnar við þær og tileinki sér í störfum sínum. Ríkissaksóknari, lögreglustjórar og héraðssaksóknari skulu sjá til þess að ákærendur þekki reglurnar og að þær séu ávallt eðlilegur þáttur í störfum þeirra. Æskilegt er að siðareglurnar verði almennt til umræðu og umfjöllunar á vettvangi ákærenda.

II. Siðareglur

1. Hlutlægni og sjálfstæði

Ákærendur skulu haga störfum sínum á þann hátt að réttaröryggis og vandaðrar málsmeðferðar sé gætt í samræmi við lög og réttarframkvæmd. Þeir skulu vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar.

Ákærendur taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds, nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum og skulu vinna störf sín óháð hvers konar þrýstingi og óviðeigandi áhrifum.

Á ákæruvaldinu hvílir lögum samkvæmt sú skylda að sýna hlutlægni í störfum sínum og ber ákæruvaldið ábyrgð á að upplýsa hvort tveggja um atriði sem horft geta til sýknu og sektar sakbornings.

Með vísan til laga og réttarframkvæmdar er átt við að ákærendur skulu virða allar reglur og kröfur sem leiða af stjórnarskrá, lögum og mannréttindareglum sem íslenska ríkið er skuldbundið af. Réttarframkvæmdin felur einnig í sér þau grunngildi og réttindi sem réttarríkið byggir á, þar með talið réttaröryggi, jafnræði að lögum og grundvallarréttindi einstaklinga.

Ákærendur skulu vera öðrum óháðir og mega ekki láta þrýsting eða óviðeigandi áhrif frá til dæmis öðrum stjórnvöldum, stofnunum, ríkjum, hagsmunaaðilum eða fjölmiðlum hafa áhrif á mat við ákvarðanatökur og meðferð mála.

Þær kröfur sem gerðar eru til ákærenda, hvort tveggja um hlutlægni og sjálfstæði, hafa fyrst og fremst þýðingu við meðferð einstakra mála og takmarka ekki að ákærendur taki þátt í faglegum umræðum sem tengjast verkefnum réttarvörslukerfisins.

2. Háttsemi og framkoma í starfi – hlutleysi, heilindi og virðing

Ákærendur skulu haga störfum sínum og framkomu þannig að hlutleysi ákæruvaldsins verði ekki dregið í efa.

Telji ákærandi sig vanhæfan til að fara með einstakt mál eða að draga megi hæfi hans í efa skal hann þegar í stað upplýsa yfirmann sinn um það.

Ákærendur skulu framkvæma störf sín af heiðarleika og án þess að hugsa um eigin hagsmuni. Þá skulu ákærendur hvorki taka við gjöfum eða öðrum hlunnindum í tengslum við störf sín né heldur láta gjafir af hendi.

Ákærendur skulu meta álitaefni og taka ákvarðanir af fordómaleysi og án fyrirfram gefinna skoðana. Ákærendur skulu umgangast aðra án fordóma af nokkru tagi og sýna jafnt brotaþolum, vitnum, sakborningum, ákærðum og dómfelldum, sem og öðrum, tillitssemi og virðingu.

Hlutleysisreglan felur í sér að við ákvarðanatökur skulu ákærendur líta framhjá eigin hagsmunum, skoðunum og fordómum.

Ákærendur skulu gæta þess í framkomu sinni og framgöngu að rýra ekki traust og trú almennings á hlutleysi ákæruvaldsins og skulu leggja sig fram um að framkoma þeirra á opinberum vettvangi sé tilhlýðileg og í samræmi við stöðu þeirra. Skulu þeir í störfum sínum tileinka sér faglega, viðeigandi og virðulega framkomu og gæta þess að klæðaburður þeirra og framganga sé með þeim hætti að það dragi ekki athygli frá þeim verkefnum sem ákærandinn er að sinna.

Það er í andstöðu við siðareglur þessar að ákærendur láti hafa áhrif á sig í störfum sínum með gjöfum, hlunnindum eða öðrum ívilnunum. Á sama hátt er það í andstöðu við siðareglurnar að ákærendur reyni að hafa áhrif á störf og ákvarðanir annarra með sambærilegum hætti. Siðareglurnar hindra þó ekki að í einstaka tilvikum sé tekið við minni háttar gjöfum, sem ekki eru til þess fallnar að draga í efa óhlutdrægni ákærandans eða sjálfstæði hans í starfi hjá ákæruvaldinu. Á það til að mynda við um viðurkenningar fyrir kennslu og fyrirlestra, svo og hefðbundnar kurteisisgjafir í tengslum við embættisheimsóknir.

3. Framkoma utan starfs

Ákærendur skulu gæta þess að framkoma og framganga þeirra utan starfs sé ekki til þess fallin að rýra traust til ákæruvaldsins.

Ákærendur þurfa jafnt í störfum sínum og utan starfsins að koma fram af virðuleika og velsæmi. Ákærendur þurfa að forðast að hafast nokkuð það að í frítíma sínum sem þeim er til vanvirðu og álitshnekkis eða getur varpað rýrð á störf þeirra og dregið úr trausti almennings gagnvart þeim.

Á þetta jafnt við framkomu ákærendanna sjálfra og hverja þeir umgangast í frítíma sínum. Það getur til dæmis talist óæskilegt að ákærandi birti á samfélagsmiðlum eða með öðrum hætti upplýsingar eða myndefni af sér og/eða vinnufélögum sínum sem er til þess fallið að draga úr virðingu þeirra. Einnig getur það talist óæskilegt að ákærandi umgangist brotamenn í frítíma sínum. Þá þurfa ákærendur að gæta þess sérstaklega, taki þeir þátt í opinberri umræðu, starfi stjórnmálaflokka eða öðru slíku, að þátttaka þeirra og framganga sé með þeim hætti að hlutleysi þeirra sem ákærenda verði ekki dregið í efa.

4. Skilvirkni og gæði

Ákærendum ber að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er en gæta um leið að vandaðri málsmeðferð.

5. Kunnátta og fagmennska

Ákærendur, bæði stjórnendur og aðrir, skulu viðhalda og efla faglega þekkingu sína og færni til að takast á við lögfræðileg viðfangsefni í takt við þróun og framfarir á hverjum tíma. Stjórnendur skulu sjá til þess að ákærendum gefist kostur á endurmenntun til þess að viðhalda og efla þekkingu sína og færni.

Ákærendur, bæði stjórnendur og aðrir, skulu leggja sitt af mörkum til að innan ákæruvaldsins ríki starfsmenning sem einkennist af því að verkefnum sé mætt af víðsýni og á faglegum grundvelli.

6. Þagnarskylda

Ákærendum er skylt að sýna trúnað og gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna.

Ákærandi má aðeins fletta upp í þeim skrám og kerfum, sem hann hefur aðgang að starfs síns vegna, ef það hefur þýðingu fyrir verkefni sem hann vinnur að.

Ákærendum er með öllu óheimilt að nýta sér í eigin þágu og/eða annarra hverjar þær trúnaðar­upplýsingar sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum.

Þagnarskyldan gildir um atriði sem trúnaður skal ríkja um og helst hún áfram eftir að starfi lýkur. Sú skylda sem lögð er á ákærendur í siðareglunum um trúnað og þagmælsku getur verið víðtækari en hin lögbundna þagnarskylda. Þagnarskyldan á einnig við meðal starfsfélaga og er ákærendum hvorki ætlað að deila trúnaðar-upplýsingum með starfsfélögum sínum né skoða mál sem aðrir hafa til meðferðar nema það hafi einhvern faglegan tilgang. Ákærendur verða ávallt er þeir ræða mál tengd störfum sínum að hafa í huga hverja þeir eigi í samskiptum við og hverjir kunni að vera áheyrendur að því sem sagt er.

7. Upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla

Þegar ákærendur veita almenningi eða fjölmiðlum upplýsingar um sakamál í þágu almannahagsmuna skulu þeir gæta að persónuverndarsjónarmiðum, mögulegri hættu á sakarspjöllum, rannsóknar­hagsmunum og öðrum atriðum sem taka ber tillit til við upplýsingagjöf.

Þegar ákærendur koma fram fyrir hönd embættis við upplýsingagjöf ber þeim að taka mið af þeim viðmiðum sem embættið hefur sett sér um miðlun upplýsinga.

Ákærendum ber ávallt að gæta hófs í upplýsingagjöf um einstök mál til almennings og fjölmiðla og gæta að kröfum um hlutleysi og óhlutdrægni ákæruvaldsins. Þegar leitað er eftir upplýsingum frá ákærendum um einstök mál ber þeim að leggja mat á hvort upplýsingarnar varði almannahag og hvort réttmætt sé að veita þær að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða, rannsóknarhagsmuna, mögulegra sakarspjalla og annarra atriða. Ákærendur skulu að jafnaði einungis veita upplýsingar sem eru almenns eðlis og forðast að gefa upplýsingar sem eru persónugreinanlegar. Þá þurfa ákærendur að gæta að því að upplýsingar sem virðast almennar geta mögulega verið raktar á auðveldan hátt til einstakra málsaðila, svo sem vegna fyrri fréttaflutnings, nándar í samfélaginu eða á annan hátt.

 

8. Eftirfylgni

Ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar skulu tryggja að siðareglur þessar séu kynntar öllum ákærendum og bera þeir stjórnunarlega ábyrgð á því að reglunum sé fylgt.

Verði ákærandi var við eða berist upplýsingar um háttsemi annars ákæranda sem er í andstöðu við siðareglur þessar, þá er honum rétt að benda viðkomandi á það með viðeigandi hætti eða eftir atvikum gera stjórnanda grein fyrir því.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl