Tilkynningar til brotaþola og réttargæslumanna
RS: 1/2020
Samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber ákæruvaldinu að sjá um að brotaþolum sé tilkynnt um stöðu og afgreiðslu máls eins og hér segir:
1. Að kæru hafi verið vísað frá eða rannsókn máls hætt, sbr. 4. mgr. 52. gr. sml.
2. mgr. 40. gr. og 5. mgr. 52. gr. sml.
2. Að mál hafi verið fellt niður vegna sönnunarskorts, sbr. 145. gr. sml.
2. mgr. 40. gr. og 1. mgr. 147. gr. sml.
3. Að fallið hafi verið frá saksókn í máli, sbr. 146. gr. sml.
2. mgr. 40. gr. og 1. mgr. 147. gr. sml.
Jafnframt ber að kynna brotaþola rétt hans til að óska eftir rökstuðningi fyrir ofangreindum
ákvörðunum og rétt hans til að kæra ákvörðun til ríkissaksóknara.
4. Að ákæra hafi verið gefin út í máli. Tilkynna skal þegar ákæra hefur verið birt nema brotaþoli hafi
áður fengið vitneskju um hana.
3. mgr. 40. gr. sml.
5. Niðurstöðu dóms, jafnt héraðsdóms og áfrýjunardóms, eða afdrif máls að öðru leyti, enda hafi
hagsmuna brotaþola ekki verið gætt fyrir dómi.
3. mgr. 40. gr. sml.
Tilkynningar þessar skulu vera skriflegar. Tilkynning um að ákæra hafi verið gefin út skal geyma stutta lýsingu á efni ákæru. Tilkynningu um niðurstöðu dóms fylgi ljósrit/endurrit af dómsorði.
Auk framangreindra tilkynninga skulu ákærendur sjá til þess að brotaþoli og réttargæslumaður séu upplýstir um það ef sakborningur/kærði er settur í gæsluvarðhald og þegar hann er látinn laus úr gæsluvarðhaldi þegar um brot gegn XXII-XXIV. kafla almennra hegningarlaga er að ræða eða atvik máls eru með þeim hætti að telja verður mikilvægt fyrir brotaþola að vera upplýstur um framangreint.
Þá mun ríkissaksóknari tilkynna brotaþola og réttargæslumanni um áfrýjun sýknudóma og annarra dóma sem brotaþoli fær annars ekki vitneskju um (áfrýjunarstefna ekki birt fyrir brotaþola).
Hlutverk réttargæslumanns er að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, sbr. 45. gr. sml. Til þess að rækja þetta hlutverk er mikilvægt fyrir réttargæslumann að fá sem gleggstar upplýsingar frá ákæruvaldinu um stöðu máls og afgreiðslu. Þess vegna er hér með mælt fyrir um, enda ekki fyrirskipað berum orðum í sml., að tilkynna skal réttargæslumanni, hafi hann verið tilnefndur eða skipaður, sbr. 41. gr. og 42. gr. sml., eða lögmanni brotaþola, sbr. 43. gr. sml., um stöðu máls eða afgreiðslu þess jafnframt brotaþola sjálfum.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari