Um embættið

Um ákæruvaldið

Skipan ákæruvalds

Frá 1. janúar 2016 fara ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar (níu talsins), að undanskildum ríkislögreglustjóra, með ákæruvaldið í landinu. Ákæruvaldið er á tveimur stigum og fer ríkissaksóknari með ákæruvaldið á efra stiginu en héraðssaksóknari og lögreglustjórar á því neðra.

Tvö skref

Um ríkissaksóknara

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Hann fer með yfirstjórn rannsókna sakamála á landsvísu og sinnir samræmingar- og eftirlitshlutverki um framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum og héraðssaksóknara. Ríkissaksóknari flytur mál ákæruvaldsins í Landsrétti og í Hæstarétti Íslands og tekur ákvörðun um hvort áfrýja skuli málum af hálfu ákæruvaldsins. Ríkissaksóknari gefur út almenn fyrirmæli um meðferð ákæruvalds og getur jafnframt gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta. Ríkissaksóknari endurskoðar ákvarðanir lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að fella mál niður (þ.e. ákæra ekki) ef ákvörðun þar að lútandi er kærð af hálfu þess sem á hagsmuna að gæta í viðkomandi máli. Ríkissaksóknari getur einnig endurskoðað ákvarðanir lögreglustjóra eða héraðsaksóknara að eigin frumkvæði. Þá getur ríkissaksóknari tekið ákvörðun um saksókn úr höndum lögreglustjóra og héraðssaksóknara og gefið út ákæru í viðkomandi máli telji hann þess þörf. Ríkissaksóknari hefur eftirlit með framkvæmd símahlustana lögreglu og sérstakra rannsóknaraðferða lögreglu.

Önnur verkefni ríkissaksóknara

·Ríkissaksóknari veitir umsagnir um mál vegna beiðna um endurupptöku sakamála.

·Ríkissaksóknari veitir umsagnir um lagafrumvörp á sviði refsiréttar og sakamálaréttarfars.

·Ríkissaksóknari sinnir alþjóðlegum samskiptum fyrir hönd ákæruvaldsins.

·Ríkissaksóknari sinnir réttarbeiðnum frá erlendum yfirvöldum og málum vegna kröfu um framsal/afhendingu erlendra og íslenskra ríkisborgara.

·Ríkissaksóknari heldur námskeið fyrir nýja ákærendur og skipuleggur endurmenntun ákærenda.

·Ríkissaksóknari heldur sakaskrá fyrir landið allt þar sem skráðar eru niðurstöður sakamála.

·Ríkissaksóknari heldur utan um tölfræði vegna starfsemi ákæruvaldsins.

·Ríkissaksóknari annast ýmis atriði varðandi áfrýjun mála, tekur við áfrýjunaryfirlýsingum og beiðnum um áfrýjunarleyfi frá dómþolum sem óska að áfrýja málum, gefur út áfrýjunarstefnur og sér um að þær verði birtar ákærðum og enn fremur undirbýr hann og annast frágang á gögnum sem lögð eru fyrir Landsrétt og Hæstarétt í svonefndu ágripi málsgagna.

Skipun ríkissaksóknara

Ríkissaksóknari er skipaður af ráðherra ótímabundið og skal fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í dómaraembætti við Hæstarétt. Ríkissaksóknara til aðstoðar eru vararíkissaksóknari og saksóknarar.

Starfsmenn embættis ríkissaksóknara

Við embætti ríkissaksóknara starfa 10 ákærendur, þ.e. ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari og átta saksóknarar. Þá starfa við embættið fjórir starfsmenn á skrifstofu, þ.e. skrifstofustjóri, tveir almennir ritarar og ritari sakaskrár. 

Héraðssaksóknari

Fer með ákæruvald í málum sem lögregla rannsakar og varða alvarlegustu brotin gegn almennum hegningarlögum, svo sem manndráp og stórfelldar líkamsmeiðingar, kynferðisbrot, stórfelld fíkniefnabrot og brot í opinberu starfi.

Rannsakar og fer með ákæruvald í málum sem varðar efnahagsbrot og brot á skattalöggjöf.

Rannsakar og fer með ákæruvald í málum sem varða brot starfsmanna lögreglu í starfi og brot gegn lögreglu/valdstjórninni.

Héraðssaksóknari getur gefið lögreglustjórum (ákærendum) leiðbeiningar og fyrirmæli um rannsóknir þeirra mála sem héraðssaksóknari fer með ákæruvald í.

Lögreglustjórar

Rannsaka og fara með ákæruvald vegna allra annarra brot en þeirra sem héraðssaksóknari fer með.

Hlutverk ákærenda

Hlutverk ákærenda er að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum, þ.e. refsingum (sekt eða fangelsi) og/eða refsikenndum viðurlögum, s.s. sviptingu ökuréttar. Ákærendur taka ákvörðun um hvort sakamálarannsókn skuli fara fram eða ekki en það er lögregla sem sinnir rannsóknum sakamála. Ákærendur taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds.

Markmið rannsóknar sakamáls er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákærandi geti ákveðið hvort sækja skuli mann til sakar með útgáfu ákæru, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómstólum. Ákærendur ákveða hvað gera skuli í máli að lokinni rannsókn máls. Meginreglan er sú að höfða skal mál á hendur sakborningi fyrir dómstól til refsingar ef það sem fram kemur við rannsókn er talið vera nægjanlegt eða líklegt til sakfellis. Málið er hins vegar látið niður falla (þ.e. ekki ákært) ef svo telst ekki vera. Ekki á að hefja lögreglurannsókn nema rökstuddur grunur sé kominn fram um að refsiverð háttsemi, sem á undir ákæruvaldið, hafi verið framin.

Ákærendum ber að leiðbeina lögreglu um framkvæmd rannsókna og gefa fyrirmæli um framkvæmd rannsókna sé þess þörf. Ákærendum ber að tryggja að gætt sé grundvallarmannréttinda þeirra sem rannsókn beinist að og að fylgt sé fyrirmælum laga um rannsóknir sakamála. Ákærendur skulu hafa í heiðri þá grundvallarreglu að ekki má færa fram sakargögn/sönnunargögn sem aflað hefur verið með ólöglegum eða óheiðarlegum hætti.

Samkvæmt íslenskum sakamálalögum á brotaþoli að njóta aðstoðar á ýmsan hátt á meðan mál sem hann varðar er til meðferðar. Brotaþoli á jafnframt rétt á að fá upplýsingar um rekstur máls og framgang. Ákærendur eiga að sjá til þess að brotaþoli njóti viðeigandi aðstoðar og fái þær upplýsingar sem honum ber.

Lögreglustjórar (ákærendur) mega ljúka tilteknum málum án þess að leggja þau fyrir dómstól með ákæru. Í slíkum tilvikum er máli lokið með afgreiðslu lögreglustjóra sem felst í því að sakborningur greiðir tiltekna sekt og í sumum tilvikum er hann einnig sviptur ökurétti og/eða er gert að sæta upptöku ákveðinna muna. Það eru aðallega mál vegna umferðarlagabrota og fíkniefnalagabrota sem lokið er með þessum hætti.

Ákærandi getur einnig fellt mál niður, þ.e.a.s. ákveðið að ekki komi til frekari aðgerða af hálfu ákæruvalds í máli. Áður en ákærandi tekur slíka ákvörðun ber honum að kanna rannsóknargögn máls vandlega og leggja hlutlægt mat á stöðuna með þá reglu að leiðarljósi að sækja skuli þá til sakar sem ákærandi telur að hafi gerst sekir um brot gegn refsilögum en ekki aðra.

Ákærandi getur ákveðið að falla frá saksókn í máli þótt hann telji framkomin gögn nægja til þess að sakborningur verði sakfelldur ef höfðað yrði dómsmál á hendur honum. Til þessa hefur ákærandi takmarkaða heimild og ber honum að beita henni af varfærni.

Þegar sakborningur hefur játað brot sitt hefur ákærandi heimild til að fresta um tiltekinn tíma útgáfu ákæru ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Gildir þessi heimild fyrst og fremst um brot barna og ungmenna á aldrinum 15 til 21 árs.

Siðareglur

Að tilhlutan Evrópuráðsins hefur Ráðstefna evrópskra ríkissaksóknara sett leiðbeinandi siðareglur fyrir ákærendur sem nefndar hafa verið Búdapestreglurnar. Þær má nálgast hér.

Ákæruvaldið á Íslandi hefur jafnframt sett sér eigin siðareglur sem eru til fyllingar öðrum reglum um siði og faglega breytni ákærenda, þ.á m. Búdapestreglunum. Hér má nálgast þær.