Um embættið

Athugasemdir vegna opinberrar umfjöllunar um frávísun á kæru á hendur hæsta­réttardómara og sérstökum saksóknara

6/19/14

Athugasemdir vegna opinberrar umfjöllunar um frávísun á kæru á hendur hæsta­réttardómara og sérstökum saksóknara

Ríkissaksóknari vísar til frétta og opinberrar umræðu vegna ákvörðunar embættisins frá 27. janúar sl., um að vísa frá kæru, dags. 11. október sl., á hendur nafngreindum hæsta­réttardómara og sérstökum saksóknara, vegna meintra brota mánudaginn 17. maí 2010. Frétt um málið birtist fyrst á forsíðu Fréttablaðsins 16. júní sl. Þá var fréttinni fylgt eftir með annarri frétt sem birtist degi síðar í sama blaði. Ríkissaksóknari tekur fram að hvorki blaðamaður né ritstjórn Frétta­blaðs­ins leituðu til embættisins við vinnslu frétt­anna.

Ákvörðun ríkissaksóknara um frávísun kærunnar var reist á 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, þar sem ekki var talinn vera grundvöllur til að hefja rann­­­­­sókn.

Ákvörðun ríkissaksóknara byggði meðal annars á því að refsiákvæði sem vísað var til í kæru ættu ekki við, eins og atvikum var lýst, eða staðhæfingar kæranda um meint brot hinna kærðu væru ekki reistar á nægjan­­lega traustum grundvelli. Þá var ákvörðun ríkis­saksóknara einnig reist á sakarfyrningarreglum en sér­stak­lega var tekið fram í því sam­bandi að ekki væri víst að sök hefði stofnast. Í umfjöllun Fréttablaðsins var ekki vikið nægjan­lega að þessu síðastgreinda atriði.

Lög um meðferð sakamála heimila ekki að hefja rannsókn sakamáls ef ætla má að sök sé fyrnd. Meðal þess sem ákæruvaldið tekur almennt til athugunar í upphafi, þegar ábendingar eða kærur um meint brot berast, eru tíma­setningar á ætluðum atvikum sem meint brot eru talin taka til. Ef langur tími er liðinn frá ætluðum atvikum þá þarf ákæruvaldið sér­staklega að gæta að því hvort sök vegna meintra brota sé fyrnd. Ef það á við þá er almennt ekki grund­völlur til að hefja rannsókn. Kæru er þá vísað frá. Af þessu leiðir að ákæru­valdið þarf fyrst að taka af­stöðu til sakar­fyrningar áður en tekin er afstaða til þess hvort staðhæfingar kæranda um atvik eigi við rök að styðjast eða ekki. Með þessu er með engu móti verið að taka afstöðu til þess hvort líkur séu á því að meint brot hafi verið framið. Eingöngu er litið til tíma­setninga á meintum atvikum og lög­bundins refsiramma og sakarfyrningartíma. Nálgun ákæruvaldsins að þessu leyti er frábrugðin almennri meðferð sakamála fyrir dóm­i en þá er almennt fyrst fjallað efnis­lega um mál, þar með talið hvort atvik teljist vera sönnuð, en síðan er tekin afstaða til sakarfyrningar.

Í kæru var meðal annars staðhæft að dómari hefði brotið gegn 132. gr. almennra hegn­ingar­laga vegna tiltekinna atvika. Sam­kvæmt því refsiákvæði er refsing lögð við því með sektum eða fangelsi allt að einu ári, nema brot varði þyngri refsingu að lögum, ef opinber starfsmaður, sem getur í 130. eða 131. gr., gætir ekki af ásetn­ingi eða stór­kostlegu gáleysi lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn o.fl. Sök vegna brots sem varðar sektum eða fangelsi allt að einu ári fyrnist á tveimur árum frá þeim tíma þegar meint brot var framið, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. almennra hegn­ingarlaga. Í umræddu máli, að því er varðar meint brot gegn 132. gr. almennra hegn­ingarlaga, var vísað til tíma­setningar á ætluðum atvikum og tekið fram að sök, hafi hún stofnast, sem ekki væri víst, væri fyrnd.

Með framangreindri ákvörðun ríkissaksóknara var með engu móti verið að lýsa yfir að líkur væru á því að brotið hafi verið gegn 132. gr. almennra hegningarlaga eða kæran ætti að þessu leyti við rök að styðjast.

Til baka Senda grein