Um embættið

Námsferð starfsmanna ríkissaksóknara til Parísar og Strassborgar

10/8/19

Starfsmenn ríkissaksóknara fóru í námsferð til Parísar og Strassborgar dagana 16.-18. september en í ferðinni heimsóttu starfsmenn m.a. héraðsdómstólinn í París, funduðu með ríkissaksóknara Frakklands og hlýddu á málflutning í Mannréttindadómstól Evrópu.

Í París heimsóttu ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari og saksóknarar embættisins embætti hins franska ríkissaksóknara. Á móti hópnum tók Rémy Heitz ríkissaksóknari Frakklands og Jean-Marc Coquentin, vararíkissaksóknari Frakklands. Á fundinum var annars vegar fjallað um hlutverk og stöðu ákæruvaldsins í hvoru landi um sig, en einnig um helstu verkefnin, hvernig þau hafa þróast á undanförum árum og um helstu áskoranir sem ákæruvaldið stendur frammi fyrir. Greindi ríkissaksóknari Frakklands til að mynda frá áherslum hvað varðar baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Hópurinn heimsótti einnig Tribunal de Paris, héraðsdóm Parísar, og fékk kynningu á starfsemi hússins sem og kynningu á því hvernig málsmeðferð sakamála fyrir dómi er háttað. Í Tribunal de Paris eru 90 dómsalir og er öll aðstaða í húsinu til fyrirmyndar.

Í Strassborg heimsótti hópurinn Mannréttindadómstól Evrópu þar sem Róbert Spanó, varaforseti réttarins, tók á móti hópnum. Á fundi með Róbert Spanó fjallaði hann um stöðu og hlutverk Mannréttindadómstólsins og hvernig rétturinn hefur þróast frá stofnun hans árið 1959. Þar var einnig fjallað um þann mikla málafjölda sem dómstóllinn hefur til meðferðar. Mannréttindadómstól Evrópu er ætlað að tryggja að aðildarríki Evrópuráðsins (Council of Europe) virði þau réttindi sem kveðið er á um í Mannréttindasáttmála Evrópu. Einstaklingar innan aðildarríkja Evrópuráðsins geta leitað til dómstólsins telji þeir að stjórnvöld hafi brotið rétt þeirra sem verndaður er í mannréttindasáttmálanum. Dómar um brot á Mannréttindasáttmálanum eru bindandi fyrir hlutaðeigandi ríki.

Málflutningur í Mannréttindadómstólnum

Þá voru starfsmenn embættisins viðstaddir málflutning í máli Selahattin Demirtaş gegn Tyrklandi sem nú er til meðferðar í yfirdeild dómstólsins. Málið dæma því 17 dómarar frá 17 aðildarríkjum Mannréttindadómstólsins. Málið varðar kæru Selahattin Demirtaş vegna handtöku hans og gæsluvarðhaldsvistar í Tyrklandi en Selahattin Demirtaş er þingmaður í Tyrklandi. Haustið 2015 fékk HDP flokkur hans, Lýðræðisflokkurinn, 13% fylgi í kosningum til þingsins. Flokkurinn er skilgreindur til vinstri og sem Kúrdaflokkur. Selahattin Demirtaş var einnig forsetaframbjóðandi flokksins í kosningum árið 2014 og fékk þá tæp 10% atkvæða.

Í málinu er tekist á um hvort handtaka hans þann 4. nóvember 2016 rúmu ári eftir að Demirtaş var kosinn á þing og gæsluvarðhald fari í bága við ákvæði Mannréttindasáttmálans. Gæsluvarðhald hans stóð í næstum þrjú ár og fram kom í máli lögmanna hans að beiðnum hans um að vera sleppt úr haldi hefði verið hafnað 68 sinnum. Hefur hann haldið því fram að handtakan og gæsluvarðhaldið hafi verið á grundvelli pólitískra skoðana hans og gjörða en tyrknesk stjórnvöld halda því fram að hann hafi verið handtekinn vegna þess að grunur hafi leikið á að hann tengdist hryðjuverkasamtökum og vegna grunsemda um að hann hefði hvatt til hryðjuverka. Engin tengsl væri á milli sakamálarannsókna lögreglu og gæsluvarðhaldsvistarinnar og kosninga í Tyrklandi. Þá hefði Selahattin Demirtaş ekki látið fullreyna á málið í Tyrklandi. Að loknum málflutningi málflytjenda beindu dómarar spurningum til málflytjenda en að því búnu var tekið 20 mínútna hlé. Eftir hlé svöruðu málflytjendur spurningum dómenda og var málið síðan dómtekið.

Námsferðin veitti starfsmönnum embættis ríkissaksóknara innsýn í starfsemi ákæruvaldsins í Frakklandi sem og um meðferð sakamála fyrir dómi þar í landi. Þá var fróðlegt að hlýða á málflutning í Mannréttindadómstól Evrópu þar sem tekist var á um grundvallarspurningar sem í þessu máli vörðuðu sakamálaréttarfar og þá einkum heimildir ríkja til þess að beita þvingunarráðstöfunum við rannsókn lögreglu og meðferð ákæruvalds. 

Meðfylgjandi myndir voru teknar í námsferðinni, á efri myndinni sjást ákærendur við embætti ríkissaksóknara ásamt ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara Frakklands, en sú neðri er úr dómsal Mannréttindadómstóls Evrópu. 

IMG_4712

MDE

Til baka Senda grein