Um embættið

Breytt verklag við skýrslutökur af fötluðum í kynferðisbrotamálum

10/4/18

Í ársbyrjun 2017 skipaði ríkissaksóknari starfshóp um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða. Í skipunarbréfinu er rakið að starfshópurinn eigi helst að huga að atriðum sem varða tilhögun við skýrslutökur af fötluðum gerendum og þolendum við rannsókn mála hjá lögreglu sem og fyrir dómi, en einnig fræðslu og þjálfun lögreglumanna, ákærenda og dómara og aðkomu réttindagæslumanna að slíkum málum. Þá fól ríkissaksóknari starfshópnum einnig að gera drög að verklagsreglum um meðferð kynferðisbrotamála þar sem fatlaðir einstaklingar eiga í hlut sem og tillögur að lagabreytingum, ef þeirra er talin þörf, m.a. með hliðsjón af 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

Skýrsla starfshópsins liggur nú fyrir og hefur ríkissaksóknari gefið út leiðbeiningar til lögreglu og ákæruvalds um meðferð slíkra mála, sem byggðar eru á niðurstöðum starfshópsins. Markmiðið með leiðbeiningum ríkissaksóknara er að tryggja jafnræði hvað varðar aðgengi að réttarvörslukerfinu og málsmeðferð þegar fatlað fólk á í hlut. Í leiðbeiningunum kemur fram að þær geti einnig átt við um meðferð annarra mála þegar fatlaðir eiga hlut að máli. Leiðbeiningar ríkissaksóknara nr. 3/2018, má nálgast hér .

Ríkissaksóknari hefur einnig ritað dómsmálaráðherra bréf þar sem vakin er athygli á tillögum starfshópsins um lagabreytingar, meðal annars hvað varðar tilhögun skýrslutöku á rannsóknarstigi af vitnum/brotaþolum í viðkvæmri stöðu og börnum. 

Eftirtaldir sérfræðingar skipuðu starfshópinn: 

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari sem jafnframt var formaður,  

Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi,

Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild HR,

Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræðum og forstöðumaður rannsóknarseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands,

Helga Baldvins- og Bjargardóttir, lögfræðingur og þroskaþjálfi.

Hér má nálgast skýrslu starfshópsins .

Til baka Senda grein