Um embættið

Ríkissaksóknari áfrýjar sýknudómi er varðar brot gegn valdstjórninni

4/8/09

  

            Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar Íslands dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 19. mars í málinu nr. S-154/2009: Ákæruvaldið gegn Baldri Bragasyni.

            Í ákæru var ákærða m. a. gefið að sök brot gegn valdstjórninni og líkamsárás með því að hjóla á lögreglukonu við skyldustörf með þeim afleiðingum að hún handleggsbrotnaði.

            Í forsendum dómsins kom fram að ákærði hafi beinlínis aukið hraðann á hjólinu þegar hann nálgaðist hana eftir að hafa verið bent á að stöðva og verknaðurinn talinn sannaður. Síðan segir “Í 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga er inntak ofbeldisbrots gegn valdstjórninni að maður“ræðst með ofbeldi...á opinberan starfsmann“ við skyldustörf og í 1. mgr. 218. gr. laganna er það inntak líkamsárásar að maður hafi „með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjóni á líkama  eða heilbrigði“. Fellst dómurinn ekki á að skilgreiningin „hjóla á“ í ákærunni jafngildi því efnisatriði í 1. mgr. 106. gr. laganna að ráðast með ofbeldi á opinberan starfsmann. Þá verði þessi skilgreining ekki heldur talin jafngilda efnisatriði 1. mgr. 218. gr. laganna um líkamsárás sem tilgreind var. Er þó haft í huga að samkvæmt dómvenju eru sagnorðin að slá, berja, sparka eða önnur slík talin uppfylla þetta skilyrði, enda felst í slíkum orðum skilgreining á vísvitandi árás andstætt orðasambandinu “að hjóla á“. Því er ákærði sýknaður af ákæru fyrir brot gegn valdstjórninni og fyrir líkamsárás.

            Ríkissaksóknari telur að þessi túlkun dómsins á lagaákvæðunum séu í andstöðu við viðurkennd sjónarmið um skilgreiningu á umræddum brotum. Af hálfu ákæruvaldsins er málinu áfrýjað til að fá niðurstöðu héraðsdóms um þau atriði hnekkt.

 

Til baka Senda grein