Um embættið

Ríkissaksóknari áfrýjar máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Rúnari Sigurþórssyni

3/3/11

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar Íslands dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-986/2010, ákæruvaldið gegn Gunnari Rúnari Sigurþórssyni sem höfðað var með ákæru, dags. 18. nóvember 2010, vegna ætlaðs manndráps.

Niðurstaða héraðsdóms var sú að ákærði var sökum geðveiki talin hafa verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu og var því sýknaður af kröfu ákæruvalds um refsingu, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómurinn tók til greina varakröfu ákæruvalds um að ákærða yrði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. sömu laga.

Vegna sérstöðu málsins borið saman við önnur mál þar sem deilt hefur verið um sakhæfi telur ríkissaksóknari rétt að áfrýja málinu til Hæstaréttar til endurskoðunar á héraðsdómi. Má þar nefna að fyrir liggur að ákærði skipulagði verknaðinn með löngum fyrirvara, ákæruvaldið telur að orsakasamhengi á milli ástands ákærða og verknaðar sé óljós og að lýsingar á háttsemi ákærða í skýrslum geðlækna og hans eigin framburði séu ekki í fullu samræmi við þær skilgreiningar sem byggt er á.

Málinu er áfrýjað í því skyni að ákærði verði sakfelldur í samræmi við ákæru, hann dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Til baka Senda grein