Um embættið

Viðbrögð ríkissaksóknara við tilmælum forsætisráðherra

3/23/11

Í þessu sambandi skal rifjað upp að með bréfi, dagsettu 18. maí 2009, vék ég sæti í öllum málum sem lutu að embætti sérstaks saksóknara. Forsætisráðherra tilkynnti engu að síður í sjónvarpi 10. júní 2009 að mér bæri að víkja alfarið úr starfi. Þennan dag var ég staddur erlendis á fundi ríkissaksóknara Norðurlandanna sem fylgdust agndofa með aðförunum. Ég tel að árás á ríkissaksóknara og embætti hans með þessum hætti hafi verið bæði óviðeigandi og tilefnislaus.

Hlutverk ákæruvaldsins í samvinnu við lögreglu er að skapa öruggt samfélag. Það var ábyrgðarhluti að grafa undan embætti ríkissaksóknara með því að skapa óþarfa tortryggni eftir að ríkissaksóknari hafði sjálfur tekið ákvörðun um að víkja sæti. Á þeim tíma sem þetta gerðist var loft lævi blandið. Ráðist var á heimili manna, málningu skvett á hús og bíla að næturlagi og fleiri skemmdarverk unnin. Fordæmingu stjórnvalda á því að menn tækju lögin í sínar hendur á þennan hátt skorti að mestu leyti. Í þjóðfélaginu ríkti ótti og tortryggni. Því var hætta því samfara að kalla yfir sig reiði stjórnvalda. Ég taldi hins vegar ekki rétt, eins og alkunna er, að verða við kröfu forsætisráðherra.

Í frétt sjónvarpsins 18. febrúar 2011 fagnaði forsætisráðherra niðurstöðu héraðsdóms í máli níumenninganna og taldi það mistök að ákært hefði verið með þeim hætti sem gert var. Að þessu fann ég í ræðu minni og benti á að gagnrýnin væri óheppileg vegna þrýstings sem hún skapaði á settan ríkissaksóknara áður en áfrýjunarfrestur í málinu væri liðinn. Eins og sjá má í ræðunni var ekki minnst á að forsætisráðherra hafi beitt sér fyrir því að ekki var áfrýjað í málinu eins og gefið var í skyn í fréttinni.

Að þessu virtu tel ég enga ástæðu til að draga til baka þau orð mín sem fram koma í ræðunni. Þvert á móti taldi ég nauðsynlegt að gera þessu skil í ræðu minni í tengslum við umræðu um sjálfstæði ákæruvaldsins. Sú nauðsyn hefur ekki minnkað.  
Sjá nánar:  Ræða ríkissaksóknara 18. mars 2011.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari

Til baka Senda grein