Um embættið

Birting gagna lögreglurannsóknar á vefsvæðinu stondumsaman.com

2/4/14

 Ríkissaksóknari hefur haft til skoðunar hvort bregðast þurfi við birtingu gagna lögreglurannsóknar í kynferðisbrotamáli á vefsvæðinu stondumsaman.com. Málið sem um ræðir var fellt niður hjá embætti ríkissaksóknara þar sem það sem fram kom við rannsókn lögreglu þótti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis, sbr. 145. gr. laga um meðferð sakamála. Birting gagnanna kann að varða refsingum skv. ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Einnig gæti birtingin varðað við ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slík brot sæta ekki opinberri ákæru og þar með ekki rannsókn lögreglu.

 Málsaðili í nefndu kynferðisbrotamáli hefur lagt fram kæru vegna ætlaðs brots á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga vegna birtingar gagnanna og hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu þá kæru til meðferðar. Ekki eru því efni til sérstakra aðgerða af hálfu ríkissaksóknara í málinu.

 

Reykjavík, 4. febrúar 2014

Sigríður J. Friðjónsdóttir

ríkissaksóknari

Til baka Senda grein