Um embættið

Dómur vegna innflutnings á 30.225 e-töflum

5/28/14

Vegna villandi umfjöllunar í fjölmiðlum um málsmeðferðartíma hjá ríkissaksóknara í máli sem varðaði innflutning á rúmlega 30.000 e-töflum til dreifingar hér á landi, telur ríkissaksóknari rétt að skýra ákveðin atriði í meðferð málsins.

Málið sem um ræðir barst ríkissaksóknara til meðferðar frá lögreglu 2. október 2012 og var ákæra gefin út 21. maí 2013 á hendur þremur sakborningum vegna samverknaðar í málinu. Við þingfestingu málsins 11. júní 2013 upplýsti verjandi eins sakborninganna að hann væri erlendis en væntanlegur til landsins í ágúst-september. Var aðalmeðferð í málinu ákveðin 11. október 2013. Í milliþinghaldi í málinu 4. september 2013 upplýsti verjandi sakborningsins sem hafði verið erlendis við þingfestinguna að hann sætti farbanni í Ástralíu. Var málinu þá frestað til 19. nóvember 2013. Í því þinghaldi upplýsti verjandi Ástralíufarans að mál á hendur honum í Ástralíu muni taka eitt til eitt og hálft ár. Ákæruvaldið fór í kjölfarið fram á við dóminn að þáttur þess sakbornings yrði skilinn frá þætti hinna tveggja sem voru hér á landi, til að unnt væri að ljúka málinu hvað þá varðaði. Dómari fór síðan fram á að þáttur sakborningsins, sem enn sætir farbanni í Ástralíu, yrði skilinn frá málinu á þann hátt að gefnar yrðu út tvær ákærur um sömu sakargiftir og upphaflega ákæran. Ákæruvaldið varð við þessari beiðni dómarans, en einnig var sá kostur í stöðunni að skipta málinu upp án þess að hrófla við upphaflega ákæruskjalinu. Þau tvö ákæruskjöl voru gefin út 20. janúar 2014. Þetta formsatriði breytir því ekki að málið var afgreitt hjá ríkissaksóknara og höfðað með útgáfu ákæru 21. maí 2013.

 

Reykjavík, 28. maí 2014

Sigríður J. Friðjónsdóttir

ríkissaksóknari

Til baka Senda grein