Um embættið

Rannsókn ríkissaksóknara á atvikum í Hraunbæ 20

6/13/14

Ríkissaksóknari hefur haft til rannsóknar atvik og aðgerðir lögreglu í og við fjölbýlishúsið að Hraunbæ 20, Reykjavík, sem áttu sér stað 2. desember 2013, en Sævar Rafn Jónasson (einnig nefndur S) lést í kjölfar aðgerðanna vegna skotsára sem lögregla veitti honum.

Rannsókn málsins, sem hefur verið umfangsmikil, hefur nú verið hætt, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Það sem fram kom við rannsóknina bendir ekki til refsiverðrar háttsemi af hálfu lögreglumanna sem tóku þátt í aðgerðum að Hraunbæ 20, 2. desember 2013.

Upphaf þeirrar atburðarásar sem leiddi til dauða S var tilkynning nágranna um tónlistarhávaða frá íbúð á 2. hæð að Hraunbæ 20, auk þess sem hár hvellur hafði heyrst þaðan. Var talið að sá sem bjó í íbúðinni hefði framið sjálfsvíg. Eftir að hafa ítrekað knúið dyra og tilkynnt að lögregla væri þarna á ferð fór lögreglan inn í íbúðina með aðstoð lásasmiðs. Um leið og opnað var inn í íbúðina skaut S á lögreglumennina og lenti skotið í augnhæð á skotskýlingarskyldi sem sérsveitarmaður hafði tekið með sér. Við þetta fékk sérsveitarmaðurinn höfuðhögg og féll við. Þeir sex lögreglumenn sem voru á vettvangi hörfuðu undan S en hann kom fram á stigapallinn og mundaði vopnið í a.m.k. 10 mínútur, en fór síðan aftur inn í íbúðina.

Lögreglu bar við þessar aðstæður að afvopna/yfirbuga S og handtaka hann til að koma í veg fyrir frekari hættu. Í samræmi við verklagsreglur lögreglu var því hafist handa við að framkvæma gasaðgerð, en tilgangur hennar var að neyða S út úr íbúðinni svo unnt væri að afvopna hann og handtaka. Á meðan gasflaugum var skotið inn í íbúðina skaut S tveimur skotum út á bílaplanið í áttina að lögreglu með þeim afleiðingum að högl fóru í hönd eins lögreglumanns. Almannahætta skapaðist á vettvangi, einkum þegar nær dró morgni, en Hraunbær er ein fjölmennasta íbúðagata landsins. S var ekki skráður fyrir skotvopni og hafði ekki skotvopnaleyfi. Lögregla vissi ekki hvort hann væri með önnur vopn, s.s. riffil sem er mun langdrægara vopn en haglabyssa.

Lögregla skaut miklu magni af CS gasi inn í íbúð S. Almennt veldur gasið verulegum óþægindum fyrir þann sem fyrir verður, en áhrifin eru m.a. sviði í augum, lungum og húð, svimi, ógleði og jafnvel uppköst. Við þetta leita flestir út úr því rými sem gas er sett inn í eftir skamman tíma. Gasaðgerðin skilaði hins vegar ekki þeim árangri og því ákvað lögregla að fara inn í íbúðina til þess að bjarga S úr aðstæðunum og veita honum fyrstu hjálp, líkt og verklagsreglur kveða á um, yfirbuga hann og handtaka. Í þann mund sem sérsveitarmenn réðust inn í íbúðina skaut S þremur skotum að þeim og fór eitt skotið í hjálm sérsveitarmanns sem féll við. Sérsveitarmenn brugðust við árás S í neyðarvörn og skutu á hann með þeim afleiðingum að S varð óvígur. Var strax hafist handa við lífsbjargandi aðgerðir á vettvangi og var S fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum skömmu síðar.

Greinargerð ríkissaksóknara

Til baka Senda grein