Um embættið

Ójöfn staða sakborninga í nauðgunarmálum?

1/13/15

Vegna fréttar á forsíðu Fréttablaðsins í gær, þar sem fjallað var um að ákveðnir hópar sakborninga virðist vera í betri stöðu en aðrir þegar tekin er ákvörðun um hvort ákæra skuli fyrir nauðgun, er rétt að benda á að ríkissaksóknari metur hvert sakamál fyrir sig út frá 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þar segir að þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugi hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi. Sönnunarstaðan er metin af ákæranda í hverju máli fyrir sig og er þar ævinlega um heildarmat að ræða.

 

Í niðurstöðum þeirrar rannsóknar sem vísað er til var m.a. fjallað um einstaka þætti í fari sakborninga. Í því sambandi er mikilvægt að benda á að afar fá mál eru að baki hvað varðar umfjöllun um þá tvo tilteknu þætti sem þóttu gefa tilefni til að ætla að sakborningar sem þessir þættir ættu við um stæðu höllum fæti við meðferð málanna. Í rannsókninni er því lýst að í 14 málum, eða 7,4% málanna, hafi komið fram að sakborningur ætti við geðræn vandamál að stríða en þá sé átt við að fyrir hafi legið greining á borð við þunglyndi, geðhvörf, sem og þroska- og greindarskerðingu, ofvirkni og athyglisbrest. Í fimm málum til viðbótar, 2,6% mála, hafi legið fyrir upplýsingar sem bentu sterklega til þess að sakborningur hefði átt við geðræn og/eða félagsleg vandamál að stríða, til að mynda afleiðingar þess að hafa verið beittur ofbeldi eða kynferðisofbeldi í æsku, að hafa beitt önnur börn kynferðisofbeldi á barnsaldri, og mál þar sem fram kom að sakborningar leituðu sér geðlækninga í kjölfar brotsins.

 

Samkvæmt þessu leiddi rannsóknin í ljós að í 19 málum af 189, eða aðeins 10% þeirra, stríddu sakborningar ýmist við geðræn eða félagsleg vandamál eða sterkar vísbendingar voru um að svo væri. Í skýrslunni sem rannsóknin birtist í er sérstaklega tekið fram að þessum niðurstöðum beri af þessari ástæðu að taka með nokkrum fyrirvara. Upplýsingar um þetta atriði hafi ekki verið markvisst skráðar niður í gögnum lögreglu og að ekki virðist kallað eftir slíkum upplýsingum nema í þeim málum þar sem þær vörðuðu rannsóknina og sakarefnið með beinum hætti. Sami fyrirvari er gerður á tölum um misnotkun sakborninga á áfengi og vímuefnum, sökum þess að fjöldi mála að baki marktektarprófum er afar lítill, einungis 17 mál.

 

Ríkissaksóknari telur því varhugavert að draga þá ályktun af rannsókninni, sem fram kemur í upphafi greinarinnar í Fréttablaðinu, þ.e. að ákveðnir hópar samfélagsins virðist vera í betri stöðu en aðrir innan réttarvörslukerfisins hvað varðar nauðgunarmál.

 

Athygli vekur hins vegar að þeir þættir sem virtust hafa þýðingu um framgang mála samkvæmt sömu rannsókn voru að lögregla fái mál snemma til rannsóknar, en marktækt oftar var ákært í málum sem tilkynnt höfðu verið til lögreglu samdægurs. Þá var marktækt oftar ákært í málum þar sem handtökum hafði verið beitt, en handtökum var oftar beitt í málum sem tilkynnt höfðu verið skömmu eftir að ætlað brot var framið. Þá var marktækt oftar ákært í málum þar sem fyrir lágu gögn um réttarlæknisfræðilega skoðun, en slík gögn hafa mikla þýðingu við sönnun. Þá var oftar ákært í málum þar sem fyrir lágu gögn um að brotaþoli hafði sótt viðtöl eða meðferð hjá sálfræðingi í kjölfar ætlaðs brots, en gögn sem sýnt geta fram á andlegar afleiðingar brota eru einnig afar þýðingarmikil sönnunargögn.
Til baka Senda grein