Um embættið

Fallið frá ákærulið í máli á hendur lögreglumanni

3/5/15

Ríkissaksóknari hefur ákveðið að falla frá öðrum af tveimur ákæruliðum í sakamáli sem höfðað var á hendur lögreglumanni með ákæru útgefinni 9. júlí 2014.

Fallið var frá þeim ákærulið sem fjallaði um uppflettingar lögreglumannsins í málaskrárkerfi lögreglunnar (LÖKE).

Þau gögn sem lágu fyrir við útgáfu ákærunnar, að lokinni umfangsmikilli rannsókn, bentu eindregið til þess að lögreglumaðurinn sem um ræðir hefði flett upp nöfnum 41 konu í málaskrárkerfi lögreglunnar og skoðað þar upplýsingar um þær án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hans sem lögreglumanns, og þannig hefði hann misnotað stöðu sína í því skyni að afla sér upplýsinga um konurnar. Var þessi háttsemi talin varða við 139. gr. almennra hegningarlaga.

 

Frekari gagnaöflun ákæruvaldsins eftir útgáfu ákærunnar leiddi til þess að ekki er unnt að útiloka að í meiri hluta tilvika hafi uppflettingarnar tengst starfi ákærða. Ákæruvaldið taldi málið því ekki lengur líklegt til sakfellis hvað þennan ákærulið varðar.

Ákæruliðurinn sem eftir stendur varðar ætlað brot lögreglumannsins gegn 136. gr. almennra hegningarlaga.

Til baka Senda grein