5. Málsmeðferð sakamáls fyrir héraðsdómi

Eftir að ákæra hefur borist héraðsdómi frá ákæruvaldinu ákveður dómari stað og stund þinghalds þar sem málið verður þingfest. Dómarinn gefur út fyrirkall á hendur ákærða en þar kemur fram hvenær og hvar málið verður þingfest.

Málið er þingfest þegar ákæra og önnur gögn af hálfu ákæruvaldsins eru lögð fram á dómþingi. Ef ákærði kemur ekki fyrir dóminn, þótt honum hafi verið löglega birt ákæra, má leggja málið í dóm að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eða fela lögreglu að handtaka hann og færa fyrir dóminn.

Ef ákærði mætir fyrir dóminn og játar skýlaust alla háttsemi sem honum er gefið að sök, og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játningin sé sannleikanum samkvæm, tekur dómari málið þegar til dóms nema annar hvor aðila krefjist að fram fari aðalmeðferð í því. Ef ákærði neitar sök fer fram aðalmeðferð en áður gefst ákærða kostur á að leggja fram skriflega greinargerð. Við aðalmeðferð máls fara fram skýrslutökur af ákærða og vitnum, sem og munnlegur flutningur málsins. Að loknum málflutningi er málið tekið til dóms.