Vitni

Upplýsingar fyrir vitni

BROT TILKYNNT TIL LÖGREGLU

Sá sem telur sig hafa orðið fyrir refsiverðu broti, telur sig hafa orðið vitni að eða hafa upplýsingar um refsiverða háttsemi getur leitað til lögreglu hvar sem er á landinu. Hægt er að koma tilkynningum um refsiverða háttsemi til lögreglu með margvíslegum hætti, þ.á m. með því að hringja á lögreglustöð, senda þangað tölvupóst eða mæta. Oftast er haft samband við lögreglu með því að hringja í 112, ef brot er yfirstandandi eða nýafstaðið.

SKÝRSLUTAKA HJÁ LÖGREGLU

Rannsókn sakamála er í höndum lögreglu. Lögreglu ber skylda til að hefja rannsókn út af vitneskju eða vegna gruns um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem kæra hefur borist eða ekki. Markmið rannsóknar lögreglu er að afla allra nauðsynlegra gagna til að unnt sé að taka ákvörðun um hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki.

Lögregla tekur skýrslur af þeim vitnum sem talið er nauðsynlegt að ræða við um atvik málsins. Markmið skýrslutöku hjá lögreglu er að fram komi allar þær upplýsingar sem lögregla telur nauðsynlegar í þágu rannsóknar málsins. Skýrslutakan fer yfirleitt fram á lögreglustöð en stundum fer skýrslutaka fram annars staðar svo sem á vettvangi brots og í sumum tilvikum tekur lögregla skýrslu af vitni með símtali. Skýrslutaka sem fram fer á lögreglustöð er hljóðrituð eða tekin upp bæði í hljóði og mynd. Lögregla skrifar skýrslu um það sem vitnið hafði um málið að segja, ýmist þannig að gerð er samantekt um framburð vitnisins eða að framburður þess er skrifaður upp frá orði til orðs. Nánari upplýsingar um framkvæmd skýrslutöku hjá lögreglu er að finna í reglugerð nr. 651/2009. Skýrslur sem teknar eru af vitnum við rannsókn lögreglu verða hluti af rannsóknargögnum málsins.

SKÝRSLUTAKA FYRIR DÓMI

Leiði rannsókn lögreglu til úgáfu ákæru og reksturs sakamáls fyrir dómstólum getur komið til þess að vitni þurfi að gefa skýrslu fyrir dómi. Allir, sem náð hafa 15 ára aldri, eru skyldugir til að koma fyrir dóm sem vitni til að svara spurningum um málsatvik. Vitni getur þó í ákveðnum tilvikum skorast undan því að gefa skýrslu, m.a. ef vitnið er eða hefur verið maki ákærða, er skyldmenni ákærða í beinan legg eða tengist honum þannig vegna ættleiðingar, er stjúpforeldri ákærða eða stjúpbarn, tengdaforeldri ákærða eða tengdabarn. Komi til þess að barn yngra en 15 ára gefi skýrslu sem vitni er mögulegt að sú skýrslutaka fari fram í Barnahúsi.

Þegar vitni kemur í dómhús til að gefa skýrslu fyrir dómi þarf það yfirleitt að bíða fyrst fyrir utan dómsalinn þar til það verður sótt og beðið um að koma inn. Vitni er ekki heimilt að hlusta á framburð þeirra sem gefa skýrslur á undan því. Miklu skiptir að vera stundvís og mæta á boðuðum tíma, en stundum dragast skýrslutökur og þá getur orðið einhver bið á því að vitni verði kölluð inn í dómsalinn. Komi vitni ekki fyrir dóm án þess að um lögmæt forföll sé að ræða getur sækjandi lagt fyrir lögreglu að sækja vitnið og færa það fyrir dóm.

Í dómsalnum eru viðstaddir dómari, eða dómarar, sækjandi, ákærði og verjandi hans og í sumum tilvikum réttargæslumaður brotaþola. Meðferð sakamála fyrir dómi er almennt opin og því getur verið að fleiri séu viðstaddir í dómsalnum. Fyrir miðju situr dómari eða dómarar ef þeir eru fleiri en einn. Sækjandi situr vinstra megin í dómsalnum, frá vitninu séð, ásamt réttargæslumanni brotaþola en ákærði og verjandi hans sitja hægra megin. Þegar skýrslutaka fer fram fyrir dómi situr vitni í sæti fyrir framan dómara.

Við upphaf skýrslutöku biður dómari vitni um að gera grein fyrir nafni sínu og útskýrir í stuttu máli hvernig framkvæmdin verður. Dómari greinir vitninu frá að því sé skylt að segja satt og rétt frá og að refsivert sé að skýra rangt frá fyrir dómi. Þetta þýðir ekki að dómari búist við að vitnið muni segja ósatt, heldur ber dómara skylda til að leiðbeina vitninu um þetta og segir þetta við öll vitni sem koma fyrir dóminn til að gefa skýrslu. Yfirleitt er vitni fyrst beðið um að segja frá því atviki sem er til umfjöllunar og síðan spyr sækjandi út í einstök atriði. Eftir að sækjandi hefur spurt spurninga býðst verjanda að spyrja og stundum spyr dómari einnig.

Markmið skýrslutöku er að varpa ljósi á atvik máls. Mikilvægt er að vitni segi aðeins frá samkvæmt sinni bestu vitneskju og eigin minni og láti vita ef það er óvisst um einhver atriði. Stundum rifja dómari, sækjandi eða verjandi upp hvað vitnið sagði í skýrslutöku hjá lögreglu og bera undir vitnið hvort sú lýsing atvika hafi verið rétt.

Vitni sem er boðað fyrir dóm af ákæranda getur óskað eftir því að ákærandinn annist greiðslu vegna ferða og dvalar á dómstað. Þetta á einkum við ef vitni þarf að ferðast um lengri veg og jafnvel dvelja yfir nótt utan heimilis vegna vitnaskyldu sinnar. Styttri ferðir innan sama bæjarfélags falla ekki þar undir. Vitni getur, þegar það hefur gefið skýrslu fyrir dómi, krafist þess við dómara að hann ákveði því greiðslu vegna útlagðs kostnaðar og þóknun fyrir atvinnumissi, sem má telja að skipti það máli miðað við efnahag og aðstæður.