Fyrirmæli

Aðgangur að gögnum sakamála sem er lokið

RS: 9/2017

 • Útgáfudagur:
  25. janúar 2017
 • Gildistaka:
  25. janúar 2017
 • RS: 9/2017
  Kemur í stað RS: 1/2013

1. gr.

Aðgangur sakbornings, brotaþola o.fl. sem málið snertir

 • Heimila má sakborningi og brotaþola aðgang að rannsóknargögnum sakamáls sem er lokið nema sérstök sjónarmið til verndar sakborningi, vitnum eða öðrum aðilum mæli gegn því. Sama gildir um hvern þann sem sýnir fram á að hann hafi lögvarinna hags­muna að gæta. Um lagaheimild vísast til 6. mgr. 15. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993, sbr. síðari breytingar.
 • Máli er lokið samkvæmt 1. mgr. þegar rannsókn þess hefur verið hætt, það hefur verið fellt niður vegna sönnunarstöðu, fallið hefur verið frá saksókn í því, máli hefur verið lokið með lögreglustjórasátt eða endanlegur dómur gengið.
 • Heimild til aðgangs að gögnum máls nær ekki til gagna eða hluta gagna sem geyma við­kvæmar persónuupplýsingar varðandi annan en þann sem óskar að kynna sér gögnin nema viðkomandi sýni fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta. Um takmarkanir á heimild til upplýsinga gilda að öðru leyti ákvæði 6. – 10. gr. upp­lýsingalaga nr. 140/2012 og 16. – 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt.

2. gr.

Aðgangur annarra

 • Lögreglu, ákærendum, dómurum og fangelsisyfirvöldum er heimill aðgangur að öllum gögnum máls til notkunar í störfum sínum.
 • Heimila má tryggingafélögum og lögmönnum, sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, aðgang að gögnum máls með takmörkunum samkvæmt 3. mgr. 1. gr. þessara reglna.
 • Heimila má ráðuneytum og öðrum stjórnvöldum aðgang að gögnum máls sem greini­lega varðar hlutverk þeirra og eftirlitsskyldu lögum samkvæmt.

 

3. gr.

Afritun gagna

 • Heimila má þeim, sem fær aðgang að gögnum máls samkvæmt þessum reglum, að ljós­rita þau eða afrita að því marki sem nauðsynlegt telst til að gæta hagsmuna sinna með þeim takmörkunum sem leiðir af 3. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 3. gr. þessara reglna.
 • Afritun á hljóð- og mynddiskum af skýrslutökum er að jafnaði óheimil. Hið sama á við um aðrar myndupptökur eða önnur gögn á stafrænu formi sem geyma við­kvæmar persónuupplýsingar. Ef heimilaður er aðgangur að hljóð- og mynd­diskum eða öðrum stafrænum gögnum sem geyma viðkvæmar persónuupplýsingar þá skal lög­reglustjóri veita nauðsynlega aðstoð og aðstöðu fyrir afspilun.
 • Um ljósrit og afrit af gögnum gilda að öðru leyti ákvæði 18. gr. upplýsinga­laga eftir því sem við getur átt.

4. gr.

Málsmeðferð

 • Lögreglustjóri í því umdæmi þar sem rannsóknargögn eru geymd eða héraðs­saksóknari ákveður hvort orðið skuli við beiðni um aðgang að þeim gögnum.
 • Beiðni um aðgang að gögnum skal að jafnaði vera skrifleg þar sem fram koma upp­lýsingar um hver óskar eftir gögnum, hvaða gögnum óskað er eftir og hvar og hvenær beiðni er sett fram. Ef óskað er eftir gögnum munnlega þá skal leitast við að fá beiðnina setta fram skriflega. Ef ekki reynist unnt að fá skriflega beiðni þá skal rita minnis­­blað um munnlega beiðni og skal það tilgreina sömu upp­lýsingar og áskilið er að komi fram í skriflegri beiðni um aðgang að gögnum. Að öðru leyti vísast til 27. gr. upplýsinga­laga eftir því sem við getur átt.
 • Gæta skal sérstaklega að almennri leiðbeiningarskyldu og málshraða stjórnvalda, sbr. 7. og 9. gr. stjórnsýslulaga.
 • Ákvörðun lögreglustjóra eða héraðssaksóknara um að synja beiðni um aðgang að gögn­um máls eða takmarka hann að nokkru leyti skal tilkynnt aðila skriflega og rök­studd í samræmi við V. kafla stjórnsýslulaga. Kæra má synjun eða takmörkun lög­­reglustjóra eða héraðssaksóknara á því að veita aðgang að gögnum til ríkis­saksóknara sem tekur fullnaðarákvörðun í málinu. Kæra skal borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Að öðru leyti vísast til 19. gr. stjórn­­sýslulaga eftir því sem við getur átt.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl