Fyrirmæli

Eftirlit ríkissaksóknara með símahlustunum og skyldum úrræðum

RS: 12/2017

 • Útgáfudagur:
  6. mars 2017
 • Gildistaka:
  6. mars 2017
 • RS: 12/2017
  Kemur í stað RS: 1/2012

Ríkissaksóknari hefur eftirlit með því að gögnum sem aflað hefur verið á þann hátt er greinir í 80.–82. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml) sé eytt og að tilkynnt sé um lok aðgerðar skv. 1. og 2. mgr. 85. gr. laganna, sbr. lög nr. 103/2016. Ríkissaksóknara ber að setja reglur um hvernig eftirlitinu skuli háttað og skal þar m.a. koma fram hvernig tryggt verði að unnt sé að upplýsa eftir á hver eða hverjir hafi haft aðgang að upplýsingum sem aflað hefur verið með aðgerð skv. 80.–82. gr. sml. Ríkissaksóknari beinir því eftirgreindum fyrirmælum/reglum til lögreglustjóra og héraðssaksóknara:

 1. Lögreglustjórum og héraðssaksóknara er óheimilt að afla þeirra gagna sem tilgreind eru í 80. – 82. gr. sml, nema að undangenginni skráningu allra upplýsinga og gagna sem málaskrárkerfi lögreglu, LÖKE gerir ráð fyrir undir liðnum „Rannsóknarúrræði“. Þar undir á m.a. að setja inn afrit af úrskurðarorði héraðsdóms og úrskurði héraðsdóms í heild sinni. Þá skal setja þar inn upplýsingaskýrslur eða önnur skjöl sem öflun gagnanna byggir á, svo sem samþykki rétthafa skv. 2. málslið 1. mgr. 84. gr., sbr. 80. gr. sml. Sama gildir um ákvörðun um að taka upp hljóð, taka myndir af fólki og fylgjast með því í þágu rannsóknar, sbr. 2. mgr. 82. gr. sml.
 2. Ákvörðun um aðgerðir á grundvelli 2. mgr. 82. gr. sml skal tekin af ákæranda eða öðrum stjórnanda rannsóknar og skal sú ákvörðun rökstudd. Rökstuðningurinn skal fylgja gögnum málsins.
 3. Ákvörðun um að hlustun skuli beinast að nýju símanúmeri hjá hlustunarþola skal tekin af ákæranda og skal sú ákvörðun rökstudd. Rökstuðningurinn skal fylgja gögnum málsins.
 4. Lögreglustjórar og héraðssaksóknari skulu halda skrá um alla meðferð þeirra upplýsinga sem aflað hefur verið skv. 80.–82. gr. sml þar sem fram komi hverjir hafa haft aðgang að umræddum gögnum, hvaða afrit hafi verið gerð af gögnunum og hver hafi fengið þau í hendur. Umrædd skrá skal fylgja rannsóknargögnum máls og skal sá sem rannsókn stýrir staðfesta rétt efni hennar með áritun á hana auk þess starfsmanns sem fær afrit af gögnunum í hendur í hvert sinn Skráin skal höfð til hliðsjónar þegar gögnum er eytt og merkt við eyðinguna og tímasetningu hennar í þar til gerðan reit. Þá skal halda skrá yfir alla þá sem fá hlustunaraðgang að framangreindum upplýsingum þar sem fram komi hvað sé hlustað á, hvenær og af hverjum. Þegar LÖKE býður upp á skráningu ofangreinds skal skráningin fara þar fram.
 5. Þegar aðgerð skv. 80.–82. gr. sml er lokið skulu lögreglustjórar og héraðssaksóknari sjá til þessað þeim sem aðgerð beindist að, sem og og eiganda eða umráðamanni fjarskiptatækis, húsnæðis eða farartækis, sé tilkynnt með sannanlegum hætti um aðgerð svo fljótt sem verða má, enda sé tryggt að það skaði ekki rannsókn sakamáls. Skýrslu lögreglu eða bréf um tilkynningu ber að setja inn í LÖKE og færa í viðeigandi reit undir liðnum „Rannsóknarúrræði“. Aldrei má líða lengri tími en 12 mánuðir frá því að aðgerð lauk þar til tilkynnt eru um hana.
 6. Lögregla og ákærendur skulu annast um eyðingu þeirra gagna sem tilgreind eru í 80. – 82. gr. sml eins og hér segir:
  1. Ef gögnin hafa að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn eða upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. sml tekur til, skal sá lögreglumaður sem stýrir rannsókn annast um að þeim gögnum sé eytt þegar í stað.
  2. Sé rannsókn hætt skv. 4. mgr. 52. gr. sml eða mál fellt niður samkvæmt 145. gr. sml skal sá ákærandi sem tekur ákvörðunina gefa lögreglu fyrirmæli um að eyða gögnum. Gæta skal að því að kærufrestur sé liðinn og að ákvörðun, sé hún kærð, hafi verið staðfest af ríkissaksóknara, áður en eyðing er framkvæmd.
  3. Þegar ákært er í máli er óheimilt að eyða umræddum gögnum fyrr en endanlegur dómur hefur verið upp kveðinn í málinu. Saksóknari sem fer með málið fyrir Hæstarétti gefur lögreglustjóra/héraðssaksóknara fyrirmæli um að eyða gögnum. Þegar dómi héraðsdóms er ekki áfrýjað skal sá ákærandi við embætti ríkissaksóknara sem les yfir dóminn og áritar hann gefa lögreglustjóra/héraðssaksóknara fyrirmæli um eyðingu.
  4. Lögreglustjórar og héraðssaksóknari skulu skrá undir „Rannsóknarúrræði“ í LÖKE, í þar til gerða reiti, dagsetningar þegar gögnum er eytt og þegar þolendum aðgerða hefur verið tilkynnt um aðgerðina. Ekki er heimilt að skrá eyðingu eða tilkynningu fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að öllum gögnum hafi verið eytt og öllum þolendum aðgerðanna hafi verið tilkynnt um þær.
  Þeim hluta gagna sem gerð hafa verið að rannsóknargögnum máls í tilvikum sem lýst er undir b. og c. liðum hér að framan, skal ekki eyða heldur varðveita þau með öðrum gögnum málsins.
 7. Lögreglustjórar og héraðssaksóknari skulu tilnefna einn yfirmann við embætti sitt sem tengilið við ríkissaksóknara varðandi eftirlit með símahlustunum og skyldum úrræðum og annan til vara. Tengiliðurinn og varamaður hans skulu vera í þeirri stöðu að geta gefið starfsmönnum embættanna sem í hlut eiga fyrirmæli um eyðingu gagna og tilkynninngar skv. 2. mgr. 85. gr. sml.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl