Fyrirmæli

Málshöfðun að kröfu brotaþola

RS: 1/2014

  • 10. janúar 2014
  • SJF/
  • RS: 1/2014

Ríkissaksóknari beinir þeim fyrirmælum til lögreglustjóra, að við skýrslutöku af brotaþola/kæranda í málum þar sem höfðun sakamáls er háð kröfu brotaþola sé það bókað með skýrum hætti að brotaþoli krefjist þess að sakamál verði höfðað á hendur kærða, sbr. 144. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Er hér einkum um að ræða sakamál sem varða ætluð brot gegn 230.-232. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Tilefni þessara fyrirmæla er m.a. dómur Hæstaréttar í máli nr. 389/2013 frá 14. nóvember 2013. Í því máli var maður ákærður fyrir húsbrot, eignaspjöll og líkamsárás gegn fyrrum sambýliskonu sinni. Héraðsdómur Suðurlands vísaði frá þeim hluta ákærunnar sem laut að húsbroti og eignaspjöllum með þeim rökum að ekki hafi legið fyrir skýr refsikrafa þess sem misgert var við innan sex mánaða frestsins sem tilgreindur er í 3. mgr. 144. gr. sakamálalaga. Meint brot voru framin 11. ágúst 2011 og var tekin skýrsla af kæranda sama dag. Í samantekt af skýrslutökunni kom ekki fram að kærandi hefði sett fram kröfu um að sakamál yrði höfðað gegn ákærða og hlustaði dómari þá á yfirheyrsluna sjálfa. Krafan kom ekki heldur fram í upptökunni. Við skýrslutöku 13. júlí 2012 gerði brotaþoli hins vegar refsikröfu á hendur kærða. Hæstiréttur tók fram í sínum dómi að þótt fallist sé á með ákæruvaldinu að kærandi hafi borið fram kæru á hendur ákærða fyrir umrædd brot í fyrstu skýrslutöku, komi þar ekki fram að hún krefðist þess að sakamál yrði höfðað á hendur honum vegna þeirra. Úr því hefði fyrst verið bætt ellefu mánuðum síðar og fresturinn þá liðinn. Niðurstaða héraðsdóms um frávísun ákæruliða sem lutu að húsbroti og eignaspjöllum var því staðfest.

Telja verður að þessi dómur Hæstaréttar feli í sér breytingu frá fyrri túlkun réttarins sem fram kemur í Hæstaréttarmáli nr. 259/1991 (1992 bls. 825) og var áréttuð í máli nr. 440/1992 (1993 bls. 906).

Reykjavík, 10. janúar 2014

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl