Fyrirmæli

Niðurfelling saksóknar

RS: 6/2017

  • Útgáfudagur:
    25. janúar 2017
  • Gildistaka:
    25. janúar 2017
  • RS: 6/2017
    Kemur í stað RS: 11/2009

Samkvæmt a. til d. liðum 3. mgr. og 4. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml.) er lögreglustjóra og héraðssaksóknara heimilt að falla frá saksókn þegar svo stendur á sem lýst er í málsgreinunum.

  • Hvað varðar túlkun á orðalaginu “…aðrar sérstakar ástæður mæla með því að fallið sé frá saksókn…” sbr. d. liður 3. mgr. 146. gr., bendir ríkissaksóknari á að ákvæðið leysti af hólmi þrjá töluliði 2. mgr. 113. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, þ.e. c-, e- og f-lið, en f. liður heimilaði ákæranda að falla frá saksókn „ef sérstaklega stendur á og telja verður að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar.“ Í handbók dómsmálaráðuneytisins um meðferð opinberra mála, frá 1992, segir um þetta ákvæði „Sem dæmi um þetta má nefna ef langt er liðið síðan brot var framið, án þess þó að refsikrafa sé fyrnd, og sakborningur hefur síðan hegðað sér óaðfinnanlega, ef telja má að álit manna á verki hafi breyst sökunauti i hag síðan refsiákvæðið var sett eða óvenju miklar málsbætur eru.“

  • Ríkissaksóknari telur því að ákærendur hafa nokkuð svigrúm til mats um þau atriði sem tilgreind eru í d-lið 3. mgr. 146. gr. sml þegar tekin er ákvörðun um hvort falla beri frá saksókn.

 

Ríkissaksóknari leggur hins vegar áherslu á að lögreglustjórum og héraðssaksóknara beiti heimildinni til að falla frá saksókn af varfærni og jafnframt að leiki vafi á beitingu hennar þá beri að senda ríkissaksóknara málið til ákvörðunar. Minnt er á meginreglu 2. mgr. 146. gr. sml. um að falla megi frá saksókn þegar beita má ákvæðum 56. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um ákærufrestun.

Forsenda þess að niðurfellingu saksóknar sé beitt er að rannsókn máls sé lokið, mál teljist upplýst og að ákæruvaldið telji að sakborningur hafi framið refsivert brot. Niðurfellingu saksóknar verður að jafnaði ekki beitt nema játning sakbornings liggi fyrir.

Aldrei má skírskota til heimildar um að fella niður saksókn í málum þegar við eiga ákvæði 4. mgr. 52. gr. sml. um frávísun kæru eða ákvörðun um að hætta rannsókn eða ákvæði 145. gr. sml. um niðurfellingu máls með hliðsjón af sönnunarstöðu að rannsókn lokinni.

Skylt er að tilkynna ákvörðun um niðurfellingu saksóknar sakborningi og brotaþola enda liggi fyrir hver hann er, sbr. 1. mgr. 147. gr. sml. Sömuleiðis ber að tilkynna ríkissaksóknara ákvörðunina, sbr. 23. og 24. gr. sml. Tilkynningu skal fylgja eitt eintak af gögnum máls.

Í tilkynningu skal heimfæra brot undir viðeigandi lagaákvæði. Þá skal vísa til þeirrar lagagreinar sem ákvörðun um niðurfellinu saksóknar styðst við, svo og tilheyrandi staflið 3. mgr. 146. gr. sml., sé byggt á þeirri grein.

Ekki er skylt að rökstyðja ákvörðunina frekar en að framan greinir, en taka skal fram að viðkomandi geti kært ákvörðunina til ríkissaksóknara innan mánaðar.

Ef sakborningur er yngri en 18 ára skal lögregla eða héraðssaksóknari kveðja viðkomandi til sín ásamt lögráðamanni og kynna þeim ákvörðunina.

Eftirfarandi er dæmi um orðalag tilkynningar til sakbornings:

Í upphafi tilkynningar er skírskotað til þess sakarefnis sem rannsakað hefur verið, t.d. ætlaðs þjófnaðarbrots, en síðan segir:
Rannsókn málsins er nú lokið og hafa rannsóknargögn verið yfirfarin með hliðsjón af 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Ákæruvaldið telur að ætluð háttsemi yðar varði við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Hér með tilkynnist, með vísan til a. liðar 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála, að ákveðið hefur verið að falla frá saksókn á hendur yður út af ætluðu broti.
Unnt er að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara innan mánaðar, sbr. 2. mgr. 147. gr. laga um meðferð sakamála.

Hafi munir, sem gera skal upptæka verið haldlagðir í þágu rannsóknar málsins, er rétt að leita eftir því, þegar sakborningur er yfirheyrður, hvort hann fallist á að afsala sér þeim. Samþykki hann það ekki verður máli ekki lokið með niðurfellingu saksóknar, en reynt að ljúka því með sektargerð, í þeim tilvikum sem það á við, þar sem hið haldlagða verður gert upptækt.

 

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl