Fyrirmæli

Rannsókn á haldlögðum raftækjum sem innihalda rafræn gögn

RS: 1/2016

  • Útgáfudagur:
    17. maí 2016
  • Gildistaka:
    17. maí 2016
  • RS: 1/2016

Ríkissaksóknari vekur athygli lögreglu og ákærenda á nýföllnum dómum Hæstaréttar í málum nr. 291/2016 og 297/2016, en í dómunum eru gerðar athugasemdir við þá framkvæmd lögreglu að rannsaka gögn í haldlögðum farsímum án þess að samþykki eiganda eða dómsúrskurður liggi fyrir. Um þetta segir í nefndum dómum:

 

H 291/2016:

„Það athugast að sóknaraðili hefur gert tilraun til þess að rannsaka efnisinnihald umrædds farsíma án þess að fyrir liggi samþykki varnaraðila eða dómsúrskurður. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu og má ekki skerða einkalíf manns nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Þótt heimilt sé að haldleggja hlut án dómsúrskurðar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, verður 68. gr. laganna ekki skilin á þann veg að lögregla geti rannsakað efnisinnihald raftækja án þess að fyrir liggi úrskurður dómara. Aðstæður þær sem hér um ræðir eru efnislega sambærilegar þeim sem ákvæði 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. laga nr. 88/2008 taka til og samkvæmt lögjöfnun frá þeim er ljóst að lögreglu ber að afla dómsúrskurðar til þess að rannsaka efni farsímans.

H 297/2016:

„Það athugast að sóknaraðili hefur rannsakað efnisinnihald umrædds farsíma án þess að fyrir liggi samþykki varnaraðila eða dómsúrskurður. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu og má ekki skerða einkalíf manns nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Þótt heimilt sé að haldleggja hlut án dómsúrskurðar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, verður 68. gr. laganna ekki skilin á þann veg að lögregla geti rannsakað efnisinnihald raftækja án þess að fyrir liggi úrskurður dómara. Aðstæður þær sem hér um ræðir eru efnislega sambærilegar þeim sem ákvæði 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. laga nr. 88/2008 taka til og samkvæmt lögjöfnun frá þeim er ljóst að lögregla hefði þurft dómsúrskurð til þess að rannsaka efni farsímans. Samkvæmt þessu hafa aðgerðir sóknaraðila brotið gegn friðhelgi einkalífs varnaraðila. Er rannsókn lögreglu að þessu leyti aðfinnsluverð.

Ríkissaksóknari telur að með hliðsjón af þessum dómum Hæstaréttar, sem samtals 5 dómarar dæma, verði ekki hjá því komist að breyta framkvæmd lögreglu þegar kemur að rannsókn haldlagðra muna (raftækja) eins og síma og tölva, þrátt fyrir að ekki sé kveðið á um það með skýrum hætti í lögum um meðferða sakamála að þörf sé á samþykki eða úrskurði.

Ríkissaksóknari beinir því hér með þeim fyrirmælum til lögreglu að afla dómsúrskurðar í kjölfar haldlagningar ef ekki liggur fyrir samþykki eiganda eða haldlagningarþola raftækja (símar, tölvur, tölvudrif, o.s.frv.) fyrir því að rannsaka/skoða gögn í tækjunum.

Lagatilvísun í kröfugerðinni yrði þá lögjöfnun frá ákvæðum 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008, sbr. nefndir dómar Hæstaréttar.

Þegar gerð er krafa fyrir dómi um heimild til húsleitar er rétt að gera jafnframt kröfu um að lögreglu verði heimilað að rannsaka og afrita gögn í raftækjum, s.s. tölvu og síma, sem finnast kunna á vettvangi og tilheyra sakborningi, og þarf þá dómari í hverju tilviki að meta hvort sakarefnið sé með þeim hætti að réttlætanlegt sé að heimila þá skerðingu á friðhelgi einkalífs sem skoðun á gögnum síma og tölva og annarra slíkra raftækja óneitanlega er.

Þar til heimild til skoðunar liggur fyrir getur lögregla þurft að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja efnisinnihald raftækjanna og koma í veg fyrir að hægt að komast inn í raftækin í gegnum netið og breyta efnisinnihaldi þeirra.

Ríkissaksóknari telur hins vegar ekki heimilt að afrita innihald síma t.a.m. fyrr en úrskurður liggur fyrir.

Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari

Tengd skjöl