Kærðar ákvarðanir

Kæra á ákvörðunum lögreglustjóra og héraðssaksóknara

Unnt er að kæra til ríkissaksóknara ákvörðun lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að vísa frá kæru, hætta rannsókn, fella niður mál og falla frá saksókn. Skal það gert innan eins mánaðar frá því að viðkomandi var tilkynnt um hana. Skal ríkissaksóknari taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að kæran barst honum.

Kæra skal vera skrifleg og skal þar koma fram málsnúmer lögreglu eða héraðssaksóknara. Ekki gilda neinar formreglur um kæru til ríkissaksóknara en þó er rétt að þar komi fram hvaða kröfur séu gerðar og helstu sjónarmið kæranda. Þá er gott að ljósrit af bréfi lögreglustjóra eða héraðssaksóknara fylgi kærunni. Eftir að ríkissaksóknara berst kæran skrifar hann lögreglustjóra eða héraðssaksóknara bréf og óskar eftir afriti af málsgögnum. Ennfremur er kæranda send staðfesting á móttöku kærunnar. Hafi maður fengið réttarstöðu sakbornings við rannsókn lögreglu eða héraðssaksóknara er honum send tilkynning um kæruna. Að lokinni skoðun ríkissaksóknara á málsgögnum tekur hann rökstudda ákvörðun í málinu og tilkynnir málsaðilum um niðurstöðu sína.

Kæru á ákvörðunum lögreglustjóra og héraðssaksóknara skal beina til ríkissaksóknara bréfleiðis eða á netfangið: saksoknari@saksoknari.is