Um embættið

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 7395/2013

5/28/14

Ríkissaksóknari hefur yfirfarið álit setts umboðsmanns Alþingis frá 5. maí sl. í máli nr. 7395/2013.

Í áliti setts umboðsmanns var fundið að því að ályktanir ríkissaksóknara af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum í máli sem var til meðferðar hjá embættinu hafi ekki verið for­­svaran­legar. Ríkissaksóknari tekur athugasemdum setts umboðsmanns alvarlega en bendir á að settur umboðsmaður virðist í áliti sínu hafa gengið langt við endur­skoðun á ákvörðun ríkissaksóknara um lyktir þess sakamáls sem um var að ræða. Ákvörðun ríkissaksóknara var í eðli sínu matskennd og byggð á athugun og mati ákæranda á máls­gögnum sem borist höfðu embættinu frá lögreglu. Ríkissaksóknari bendir á að ákærendur eru að lögum sjálfstæðir í störfum sínum og taka ekki við fyrirmælum frá öðrum. Stöðu ríkissaksóknara í stjórnkerfinu verður að þessu leyti ekki jafnað við stöðu annarra stjórnvalda og hafa dómstólar meðal annars tekið tillit til þess, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 8. maí 2008, í máli nr. 207/2008. Að þessu er ekki vikið í áliti setts umboðs­manns. Umboðsmaður Alþingis hefur á liðnum árum almennt farið varlega í það að endur­skoða matskenndar ákvarðanir ríkissaksóknara varðandi lyktir sakamála sem hafa ekki fengið dóms­meðferð, sbr. t.d. álit umboðs­manns Alþingis í málum nr. 6596/2011 og 6610/2011. Ríkissaksóknari telur of snemmt að segja til um það á þessu stigi hvort með áliti setts umboðsmanns frá 5. maí sl. sé kveðinn við nýr tónn að þessu leyti eða hvort um einstakt tilfelli sé að ræða sem skýrist af því hvernig málið var vaxið eða af öðrum ástæðum.

Athugun setts umboðsmanns laut einnig að skýringum ríkissaksóknara á niðurfellingu saksóknar í umræddu sakamáli. Í áliti umboðsmanns var talið að eins og skýringarnar hefðu verið settar fram af hálfu ríkissaksóknara þá hefði ekki verið unnt að fullyrða að mat ríkissaksóknara á því hvort og þá með hvaða hætti heimild til niðurfellingar saksóknar samkvæmt d-lið 3 mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hefði verið forsvaranlegt. Þá var ekki talið að tilkynning ríkissaksóknara um lyktir málsins til brotaþola hafi verið nægjanlega skýr um afstöðu hans til einstakra þátta málsins. Ríkissaksóknari bendir á að heimildir embættisins að lögum til niðurfellingar saksóknar byggja á ólögfestum meginreglum um svigrúm ákæru­valdsins til að beita sérstökum ívilnandi úrræðum gagnvart sakborn­ingum við sérstakar aðstæður. Ríkissaksóknari telur það miður hafi upplýsinga­gjöf embættisins til setts umboðs­manns vegna meðferðar kvörtunarinnar verið áfátt vegna athugunar hans á skilyrðum niðurfellingar saksóknar. Ríkissaksóknari mun leita leiða til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki enda mikilvægt að umboðsmaður fái ávallt allar upp­lýsingar og skýringar svo hann geti rækt lögbundið hlutverk sitt. Þá mun ríkis­saksóknari fara vel yfir álit umboðsmanns að þessu leyti og leggja mat á hvort ástæða er til að endurskoða verkferla innan embættisins við meðferð mála svo betur sam­rýmist lögum, þar með talið upplýsingagjöf til brotaþola við lokaafgreiðslur mála.

Að öðru leyti eru ekki efni á þessu stigi til annarra viðbragða af hálfu ríkissaksóknara vegna álitsins.

Til baka Senda grein