Um embættið

Ríkissaksóknari hefur svarað bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins vegna umræðu um kynferðisbrot.

10/15/10

I.

Ríkissaksóknari hefur móttekið bréf dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, dagsett 7. þessa mánaðar, tilv.: DMR 10100050/4.90.1.1, þar sem vísað er til fundar ráðherra með ríkissaksóknara í framhaldi af blaðagrein sem birtist 1. október sl. undir  yfirskriftinni „Hann verður að hafa ásetning“. Á umræddum fundi taldi ríkissaksóknari æskilegt að hann gerði skriflega grein fyrir sjónarmiðum sínum í kjölfar viðbragða tiltekinna aðila við því sem þar kom fram. 

Í upphafi bréfs ráðuneytisins er vísað til þess sem í blaðagreininni segir, þ. e. að ríkissaksóknari hafi veitt blaðamanni DV aðgang að lögregluskýrslum í nauðgunarmálum sem felld hafi verið niður hjá embætti ríkissaksóknara. Er óskað skýringa á þessu og spurt hvernig það fari heim og saman við reglur ríkissaksóknara RS: 4/2009 um aðgang að gögnum sakamála sem sé lokið auk laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.  Í bréfinu segir síðan: „Ekki er vafa undirorpið að rannsókn kynferðisbrotamála er vandasöm og að öll opinber umfjöllun af hálfu fulltrúa réttarvörslukerfisins hlýtur að taka mið að því. Mikilvægt er að almennt traust ríki til ákæruvaldsins. Í framangreindri fjölmiðlaumfjöllun koma fram tölulegar upplýsingar um fjölda þeirra sem leitað hafa til Neyðarmóttöku vegna nauðgunar, fjölda mála sem til umfjöllunar eru hjá ríkissaksóknara og fjölda nauðgunarmála sem felld hafa verið niður hjá embætti ríkissaksóknara og sæta ekki ákæru. Meðal annars kunna þessar tölfræðilegu vísbendingar að bera því vitni að margir þolendur kynferðisbrota, veigra sér við að leggja fram kæru vegna slíkra brota.

Vegna þeirra athugasemda sem borist hafa í tilefni af umfjöllun DV og í samræmi við niðurstöðu fundar með yður í gær, er þess óskað að þér gerið ráðuneytinu grein fyrir afstöðu yðar til þess með hvaða hætti hin ítarlega umfjöllun sem m. a. byggist á gögnum frá embætti ríkissaksóknara samrýmist framangreindum reglum og þeim verndarhagsmunum sem reglurnar byggja á. Þá er þess ennfremur óskað að þér gerið ráðuneytinu grein fyrir því með hvaða hætti þér teljið að sú fjölmiðlaumfjöllun sem er tilefni þessa bréfs, sé til þess fallin að efla traust brotaþola á réttarvörslukerfinu.“

 

 

II.

Umræddur blaðamaður vann að grein um niðurfellingar kynferðisbrota hjá embætti ríkissaksóknara og leitaði skýringa á þeim. Safnað var saman nokkrum bréfum þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir niðurfellingu viðkomandi máls hjá embættinu en slík bréf eru send brotaþolum, kærðu, lögregluembættum o. fl. Af bréfunum voru afmáð öll persónugreinanleg einkenni. Blaðamaðurinn fékk að lesa bréfin yfir á skrifstofu embættisins en ekki að fara með þau úr húsi. Önnur gögn málsins hafði blaðamaðurinn ekki undir höndum og er því umrædd grein röng að þessu leyti. Birtist leiðrétting þessa efnis í helgarblaði DV þann 6. þessa mánaðar.

III.

Ríkissaksóknari fer með saksókn í öllum kynferðisbrotum en lögregla rannsakar málin. Meðferð kynferðisbrota er stór hluti af starfsemi embættisins en nærri 50% allra mála sem komu til ákærumeðferðar árin 2005 féllu undir þennan málaflokk. Árið 2009 voru þau 35% allra ákærumála. Af hálfu embættis ríkissaksóknara er mikill metnaður lagður í afgreiðslu kynferðisbrotamála. Þannig njóta nauðgunarmál ákveðins forgangs við afgreiðslu samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara til lögreglustjóra um hámarkstíma meðferðar þessara mála RS 5/2009. Þá hefur ferill þessara mála verið skoðaður sérstaklega af starfshópum embættisins og lögreglu sem hafa skilað skýrslum um meðferð nauðgunarmála hjá lögreglu og ákæruvaldi.

Í Morgunblaðinu þann 19. nóvember 2009 birti blaðamaður tölur frá ríkislögreglustjóranum um tilkynningar um kynferðisbrot árið 2008 sem voru sögð alls 368. Af þessu tilefni var tekið viðtal við Guðrúnu Jónsdóttur, talskonu Stígamóta, sem benti á að hér væri um fjölgun að ræða í þessum málum. Á sama tíma stæði í stað fjöldi dóma í kynferðisbrotum. Á árunum 1997-2007 hefðu aldrei farið fleiri en 3 nauðgunardómar í gegnum Hæstarétt og að meðaltali væru 5 dómar kveðnir upp á ári í héraðsdómstólum landsins. „Mér finnst það mjög alvarlegt“ segir Guðrún og bendir á að sökum þessa hyggist kvennasamtök blása til mótmælastöðu 24. október 2010 þar sem þess verði krafist að konur séu teknar alvarlega þegar um kynferðisbrot sé að ræða.

Í kjölfar greinarinnar fékk ég Guðrúnu á fund með mér ásamt Sigríði J. Friðjónsdóttur vararíkissaksóknara og Huldu Elsu Björgvinsdóttur saksóknara. Þar var henni þakkað gott starf sem Stígamót hefði unnið og árangri sem þessi barátta hefði skilað með því að æ fleiri konur væru tilbúnar til að rjúfa þögnina. Þetta var m.a. mat mitt eftir áralangan feril sem dómari í mörgum kynferðisbrotum. Bent var á að starfsmenn embættis ríkissaksóknara væru samherjar en ekki andstæðingar í baráttunni við að koma lögum yfir sakamenn í kynferðisbrotamálum. Við ynnum hins vegar eftir mismunandi sjónarmiðum. Í umræðu um þessi mál væri því iðulega haldið fram að lögregla, dómstólar og ákæruvald væru að vinna gegn framgangi kynferðisbrotamála. Hugleiða mætti hvort slík nálgun væri rétt og hvort ekki væri ástæða til að nálgast málið með hlutlausari hætti. Sú framsetning að konum væri ekki trúað í réttarkerfinu væri ekki hvetjandi fyrir þolendur kynferðisbrota og drægi úr tiltrú þeirra á réttlátri málsmeðferð.

Þann 9. mars sl. var haldin fjölmenn ráðstefna Stígamóta um nauðganir og viðbrögð samfélagsins við þeim. Þar flutti ég erindi, gerði grein fyrir hlutverki ákærandans lögum samkvæmt, reifaði dóma og skiptist á skoðunum við fundargesti. Það viðhorf hluta fundargesta var áberandi að ákæruvaldið og dómstólar væru vanhæfir til að ná árangri. Þá ynnu embættismenn markvisst að því að koma í veg fyrir framgang kynferðisbrota og að innbyggð vantrú væri á framburði kvenna í þessum málaflokki. Þessu reyndi ég að andmæla enda víðsfjarri raunveruleikanum. Í fjölmiðlaumfjöllun um ráðstefnuna var vitnað til orða Guðrúnar Jónsdóttur sem kvaðst upplifa réttarkerfið sem “svikamyllu.”

Nýlega var Björgin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu látinn skipta um starfsvettvang innan lögreglunnar eftir að hafa tjáð skoðanir sínar í viðtali um þessi mál og var þá sérstaklega vísað til tiltekinna ummæla hans. Í blaðaviðtali af þessu tilefni vísaði Guðrún Jónsdóttir til ummæla Björgvins og sagði; „ Starfsfólk Stígamóta hefur haft áhyggjur af þeim litla fjölda dóma sem fallið hafa í nauðgunarmálum á síðustu áratugum. Ég vona að skýringarnar liggi ekki í svona viðhorfum.“ Þessi ummæli tel ég að hafi verið ómakleg enda Guðrúnu fullkunnugt um hið gagnstæða. Þá eru þau til þess fallin að kasta rýrð á störf lögreglu. Þetta sýnir hins vegar að mínu mati í hversu miklar ógöngur umræða um málaflokkinn er komin.

 

 

 

 

Neðangreind tafla sýnir afdrif allra kynferðisbrota sem bárust embætti ríkissaksóknara árin 2005-2009.

                   
            Áfrýjað      
  Alls Niðurfellt Ákært Sýknað í
héraðsdómi
Sakfellt í
héraðsdómi
Sýknað í
Hæstarétti
Sakfellt í
Hæstarétti
Ódæmt í
Hæstarétti
Ár Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi
2005 117 58 55 21 33 16 1 15 0
2006 167 96 69 12 57 16 2 14 0
2007 185 106 79 12 67 32 6 26 0
2008 159 72 82 19 62 24 4 12 2
2009 147 66 57 8 29 11 0 2 9

 

Taflan sýnir að niðurfelld mál hjá embætti ríkissaksóknara árin 2006 og 2007 voru um 57% en voru komin niður í rúm 44% árin 2008 og 2009. Þrátt fyrir það fækkar sýknudómum í héraði sömuleiðis á sama tímabili. Þetta sýnir að fleiri mál rata til dómstóla og að sakfellingum fjölgar.

Taflan hér að neðan sýnir aftur á móti afdrif kynferðisbrotamála skv. 194. gr.-198. gr. hegningarlaga en mikill meirihluti þeirra flokkast undir nauðgunarbrot.

           
            Áfrýjað      
  Alls Niðurfellt Ákært Sýknað í
héraðsdómi
Sakfellt í
héraðsdómi
Sýknað í
Hæstarétti
Sakfellt í
Hæstarétti
Ódæmt í
Hæstarétti
Ár Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi Fjöldi
2005 52 33 19 8 10 5 0 5 0
2006 69 51 18 6 12 8 0 8 0
2007 71 59 19 2 17 11 1 10 0
2008 46 32 14 6 7 7 3 4 0
2009 42 23 14 3 6 5 0 1 4

 

Þarna kemur fram að niðurfellingum nauðgunarmála hjá embætti ríkissaksóknara hefur sömuleiðis fækkað árlega eða úr 73% árið 2006 og 83% árið 2007 niður í 69% árið 2008 í 54% 2009.

Þetta sýnir svart á hvítu þá þróun í meðferð kynferðisbrotamála á síðustu árum og árangur sem náðst hefur í þessum málaflokki. Árangurinn má öðrum þræði rekja til stofnunar sérstakrar kynferðisbrotadeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur áhersla verið lögð á sérhæfða menntun rannsóknaraðila, unnið er eftir ákveðnum verkferlum og reglulegir samráðsfundir eru haldnir m.a. með neyðarmóttökuteymi. Einn aðstoðarsaksóknari lögreglustjóra sér alfarið um kynferðisbrotamál. Merkjanleg er aukin áhersla sem lögð hefur verið á að afla þegar í stað þeirra sönnunargagna sem mögulegt er s.s. með handökum, húsleitum og eftir atvikum gæsluvarðhaldi. Þessi bætta rannsóknarvinna lögreglu styrkir möguleika ákærenda og skýrir eflaust að mun færri mál eru nú felld niður hjá embætti ríkissaksóknara. Þá hafa viðurlög við kynferðisbrotum þyngst verulega á síðustu árum. Ríkissaksóknari telur hins vegar fulla ástæðu til að skoða sérstaklega hátt hlutfall sýknudóma í þessum málaflokki.

IV.

Ríkissaksóknara er mikið áhyggjuefni hvernig komið er fyrir umræðu um kynferðisbrot þ. m. t. um nauðgunarmál.

Hlutverk ákærenda er að tryggja í samvinnu við lögreglu að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum. Þá ber honum að vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Það er hlutverk ákæranda að meta á grundvelli gagna að rannsókn lokinni hvort það sem fram kemur sé nægilegt til að sækja sakborning til saka eða ekki. Telji hann gögn málsins ekki „líkleg til sakfellis lætur hann við svo búið standa ella höfðar hann mál á hendur sakborningi“, eins og segir í 145. gr. laga um meðferð sakamála. Þá er það meginregla íslensks réttarfars að sakborning skuli ekki sakfella nema lögfull sönnun komi fram.

Umræddur blaðamaður fékk aðgang að niðurstöðum í niðurfellingarbréfum embættisins. Þær eru unnar af þeim saksóknara sem hefur viðkomandi mál til meðferðar. Vinnuregla embættisins er að áður en viðkomandi saksóknari skilar niðurstöðu til ríkissaksóknara hefur annar saksóknari lesið málið yfir. Ríkissaksóknari yfirfer málið til að gæta samræmis. Sé hann ósammála saksóknara, bendir hann á það og skipst er á skoðunum. Sé viðhorf viðkomandi saksóknara óbreytt er það hans að taka endanlega ákvörðun.

Ummæli, sem viðhöfð hafa verið opinberlega um niðurfellingar einstakra mála eru niðurlægjandi fyrir þá saksóknara sem að þeim unnu enda gefið í skyn að þeir vinni ekki lögum samkvæmt, séu ósjálfstæðir í starfi og sýni ekki hlutlægni. Þá var fullyrt að vel hefði mátt ákæra í nokkrum þeirra ef vilji hefði verið til þess. Þetta mat viðmælanda var byggt á lestri útdráttar ólöglærðs blaðamanns á samantekt saksóknara úr málsgögnum. Auðvelt er hins vegar að sjá að sá saksóknari sem eytt hefur dögum í að yfirfara viðamikla lögreglurannsókn er best til þess fallinn að meta slíkt.

V.

Ákveði ákærandi að ákæra í kynferðisbrotamáli sem endar með dómi þá er dómurinn birtur opinberlega hvort sem um er að ræða sekt eða sýknu. Þar með gefst almenningi færi á að mynda sér skoðun á málinu að því marki sem unnt er án aðgangs að gögnum málsins. Þau mál, þar sem lögregla hefur hætt rannsókn í og kærð eru til ríkissaksóknara eða mál sem ríkissaksóknari fellir niður, koma hins vegar ekki fyrir sjónir almennings með þessum hætti.

Umræða um afdrif kynferðisbrota hjá réttarvörslukerfinu hefur orðið æ háværari á síðustu árum. Hún hefur sömuleiðis verið einhliða að mínu mati og til þess fallin að vekja ranghugmyndir hjá almenningi. Ríkissaksóknari telur sér bæði rétt og skylt að upplýsa og fræða um afgreiðslu allra mála, hvaða verklagi sé beitt, hvaða sjónarmið eru lögð til grundvallar afgreiðslum og við hvaða vanda ákæruvaldið glími þegar að sönnun kemur. Allar þessar upplýsingar verða þó að vera innan marka laga þar að lútandi. Þetta var tilgangurinn með því að fara yfir ákvarðanir embættisins um niðurfellingar í nokkrum málum með blaðamanninum og þar með að gera tilraun til að útskýra það sem blaðamaðurinn kvaðst ekki skilja. 

VI.

Niðurstaða.

Eins og sýnt hefur verið fram á hér að framan hefur verulegur árangur náðst í rannsókn og meðferð kynferðisbrota á síðustu árum. Engin ástæða er til annars en að halda að sú þróun muni halda áfram. Þótt það skipti ekki máli fyrir umræðuna þá eru tæplega 60% dómara við héraðsdómstólana konur og yfir 90% konur sem vinna sem ákærendur hjá embætti ríkissaksóknara.

Ég tel það háalvarlegt mál að því sé haldið fram á opinberum vettvangi að embættismenn vinni markvisst gegn framgangi kynferðisbrota og að brotaþolum kynferðisbrota „sé ekki trúað“ í réttarkerfinu sem sé ein „svikamylla“. Þá eru það ekki sannfærandi viðbrögð að krefjast afsagnar þeirra sem gera tilraun til þess að ræða málefnalega um málaflokkinn.

Ríkissaksóknari telur nauðsynlegt að opin og heiðarleg umræða geti farið fram um þessi mál enda snertir úrlausnarefnið samfélagið allt. Brotaþolar kynferðisbrota eiga, eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins, að telja sig búa í réttarríki. Því er afar mikilvægt að þeir skilji hlutverk ákæruvaldsins og að ákvörðun um að hætta rannsókn máls hjá lögreglu eða niðurfelling máls hjá embætti ríkissaksóknara hafi ekkert með þá fullyrðingu að gera að þeim sé ekki trúað.

Eins og bent hefur verið á er unnið hjá lögreglu og ákæruvaldi eftir lögum og ákveðnum reglum. Ég get fullyrt að allt þetta fólk vinnur málefnalega og tekur það alvarlega ef mál sem þeir trúðu á tapast fyrir dómi. Sá látlausi áróður um að það sé þeirra sök að ekki fáist fleiri sakfellingar fyrir dómi er því sérlega ósanngjörn.

Hér að framan er vitnað til talna ríkislögreglustjóra um að 368 tilkynningar um kynferðisbrot hefðu borist lögreglu árið 2008. Þar af bárust 159 það ár til embættis ríkissaksóknara en af þeim voru hins vegar ekki nema 46 mál sem féllu undir 194. gr. til 198. gr. hegningarlaga. Því var það villandi framsetning hjá Guðrúnu Jónsdóttur að tengja tilkynningar um 368 kynferðisbrot við „að á árunum 1997-2007 hafi aldrei farið fleiri en 3 nauðgunardómar gegnum Hæstarétt og að meðaltali 5 dómar á ári í gegnum alla héraðsdómstóla landsins.“ Slík framsetning er gagngert til þess fallin að vekja vantraust brotaþola á réttarvörslukerfinu.

Tilkynningar til lögreglu geta verið af ýmsum toga enda eru brot kynferðisbrotakaflans allt frá blygðunarsemisbrotum og vörslum á klámefni yfir í nauðganir. Afdrif þessara tilkynninga geta verið af ýmsum toga en í mörgum tilvikum er kæra ekki lögð fram og það þrátt fyrir að viðkomandi hafi leitað á neyðarmóttöku eða til Stígamóta. Ástæður þess eru sumar af persónulegum ástæðum en eftir því er gengið að þolandi taki ákvörðun um kæru. Sé á hinn bóginn rannsókn hafin á kæru getur lögregla tekið ákvörðun um að hætta henni reynist ekki grundvöllur til að halda henni áfram. Ástæður þess geta sömuleiðis verið margvíslegar, t.d. að þolandi dragi kæru til baka og neiti að tjá sig frekar um málið, að gerandi sé óþekktur eða að bersýnilegt sé að málið sé ekki líklegt til sakfellis. Þær tölulegu upplýsingar sem hér hafa verið settar fram og skýringar geta ekki verið ástæða þess að þolendur kynferðisbrota, veigri sér við að leggja fram kærur vegna slíkra brota eins og vikið er að í bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.

Það er mikilvægt að almenningur beri traust til ákæruvaldsins í landinu. Það verður m. a. gert með því að birta upplýsingar og gefa skýringar á vinnubrögðum ákæruvaldsins. Opin stjórnsýsla, þar sem allar réttar upplýsingar liggja fyrir, stuðlar að bættu réttarkerfi og hvetur jafnframt viðkomandi til að gera betur. Miðlun allra slíkra upplýsinga getur ekki, að mati ríkissaksóknara, verið til þess fallin að rýra traust þolenda á réttarvörslukerfinu heldur þvert á móti svo að svarað sé beint spurningu ráðuneytisins að þessu leyti. Skiptir þá ekki öllu máli hvort sú umræða fari fram í fjölmiðlum eða annars staðar.

            Ríkissaksóknari telur jafnframt nauðsynlegt að dómsmála- og mannréttindaráðherra skipi þverfaglega nefnd þeirra sem að þessum málum koma, þ. e. lögreglu, neyðarmóttöku, ríkissaksóknara, lögmanna og fulltrúa Stígamóta, undir formennsku prófessors til að fara yfir tölfræði, vinnuferla og vinnubrögð auk þess að athuga hvort lagabreytinga sé þörf á þessu sviði. Þá sé það athugað hvernig efla megi með markvissum hætti forvarnarstarf í málaflokknum.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Til baka Senda grein